11.03.1932
Efri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

26. mál, erfðalög

Flm. (Magnús Torfason):

Áður en ég sný mér að tillögunni sjálfri vil ég benda hv. þdm. á það, að í till. er prentvilla, þar sem í niðurlagi hennar stendur „þar“, en á að vera „þess“, þ. e. a. s. þess erfðafjár, sem eigi er séð fyrir með erfðaskrá.

Um till. get ég látið að mestu nægja að vísa til grg., en skal til fyllingar fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum. Eins og við vitum er erfðarétti vorum skipað með tilskipun frá 25. sept. 1850, og samkvæmt henni eru ekki einungis niðjar bornir til arfs, heldur einnig ættingjar upp á við og til hliðar, allt upp í langafaforeldra. Þessi löggjöf var á sínum tíma sett með hliðsjón af framfærsluskyldunni, sem þá var miklu víðtækari en nú er orðið. Þess vegna eiga útarfar, svona langt frá arfláta, engan rétt á sér lengur.

Síðan þessi erfðalöggjöf var sett hafa orðið nokkrar breytingar á þessum sviðum. Ber þar fyrst að nefna lög nr. 46 27. júní 1921, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, þar sem óskilgetnum börnum er samkv. 36. gr. einnig gefinn erfðaréttur með vissum skilyrðum. Líka má benda á lög nr. 72 frá 8. sept. 1931, þar sem takmarkaður er réttur til dánarbóta að nokkru leyti. Samkv. þeim lögum taka einungis börn á framfæri, fósturbörn, foreldrar og systkini dánarbætur eftir slysadauða menn, og þó undir vissum skilyrðum einungis. Þetta bendir ótvírætt til þess, að erfðalöggjöf okkar sé orðin mjög úrelt. Það kemur ekki ósjaldan fyrir, að arfur renni til alls ómaklegra náunga, sem arfláti hefir auk þess engin deili á vitað. Ennfremur kemur það fyrir, að arfur renni til manna, sem arfláti hefði sízt á kosið, og orsakar slíkt ósjaldan illindi og deilur meðal manna. Auk þess reynist það æ erfiðara að hafa upp á slíkum náungum. Er þess líka vonin, með því að mikið los er á fólki vegna breyttra atvinnuhátta, og við þetta bætist, að ættvísi þverr óðum í landi voru.

Eftir gildandi löggjöf má bæta úr þessu með erfðaskrá, en því fylgir jafnan talsverð rekistefna, og sýnir reynslan það, að almenningur býr yfirleitt ekki til erfðaskrár, og sérstaklega ekki, ef um smáfjárhæðir er að ræða. Ástæðan til þessa er, eftir því sem mér hefir virzt, sú, að það er í meðvitund fólks eins og verið sé að grafa sér gröf með því að gera erfðaskrá, og almenningur virðist hafa það á tilfinningunni, að sá, sem erfðaskrá geri, eigi skammt eftir ólifað. Því hefir mér og fleirum fundizt, að skipa þurfi þessu með lögum, þannig að ekki þurfi rekistefnur til þess að slíkt dánarfé, sem oftast nemur litlu, renni til landsnytjafyrirtækja eða stofnana, sem ætla má, að hinum látna hafi verið hugþekkar. Ég bendi t. d. á ellistyrktarsjóðina, sem að allra áliti eru hinir nytsömustu, enda er það ekki fágætt, að menn, sem enga niðja láta eftir sig, geri þá ráðstöfun á fé sínu eftir sinn dag, að það renni til ellistyrktarsjóðanna. Ég býst við, að þessir sjóðir séu öllum hugþekkir, og hv. þdm. hljóta einnig að líta svo á, að það sé í alla staði gott og æskilegt, að þeir eflist og styrkist eftir föngum. En þó að þetta væri tekið í lög, þá væri auk þess hægurinn nærri að gefa heimild til þess, að dánarfé úr einstökum héruðum hyrfi til guðsþakkafyrirtækja eða stofnana, sem héraðsbúar bæru sérstaklega fyrir brjósti: Hinar mörgu og margvíslegu sjóðstofnanir hinna síðustu ára sýna, að slíkur almennur áhugi er víða fyrir hendi í einstökum héruðum og landshlutum, og ég býst við, að menn vildu fúsir styrkja slíka sjóði og stofnanir með dánarfé sínu. Auk þess er svo margt ógert á landi hér, sem erfitt er að þoka áleiðis á skömmum tíma, en sem flestir óska, að komist í framkvæmd, og nefni ég þar til dæmis skógrækt, sem ég býst við, að sé sameiginlegt mál allra landsmanna, og verður því ekki neitað, að áhugi fyrir skógrækt eykst með ári hverju; um það bera vitni hinir mörgu og prýðilegu skógarlundar víða um landið. Ég get ekkert hugsað mér öllu hugþekkara en það, ef í hverju héraði landsins væri skógarlundur, sem héraðsbúar gætu leitað til í frístundum sínum og horfið til, er þeir vildu hafa almennar hátíðir. Auk þess eru fjölmörg nytsamleg fyrirtæki, sem vantar fé til framkvæmda, og mætti láta óráðstafaða arfa renna til þeirra með vissum skilyrðum, t. d. að hreppsnefnd eða sýslunefnd mælti með því, og stjórnarráðið samþykkti síðan. Ég vænti þess, að deildin, að þessu athuguðu, líti svo á með mér, að tími sé kominn til að breyta erfðalögunum, og að því leyti að þrengja aðgang fjarskyldari ættingja til arfs, en ég býst þó við, að það muni ekki þykja rétt að ganga lengra í því efni en að foreldrar og systkini erfi, eins og hingað til hefir verið, börn sín dáin og systkini sín látin.

Ég býst við, að það þyki réttara, að mál þetta fái athugun í nefnd, og ég vil beina því til hv. þd., að hún vísi því til allshn. og fresti umr., þar til nefndin hefir skilað af sér.