23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

3. mál, landsreikningar 1930

Jónas Þorbergsson:

Það er aðeins örstutt aths. til hv. 2. þm. Skagf. Mér þótti leitt, að hv. þm. var enn að berja höfðinu við steininn, svo að út lítur fyrir, að hann hafi enn ekki komið auga á þær staðreyndir, sem um er að ræða, sem sé, að í fyrsta lagi var það deila milli ríkisstj. og læknafélagsins, og í öðru lagi stakk læknafélagið undir stól öllum umsóknunum um Keflavíkurhérað nema þessari einu frá Jónasi Kristjánssyni.

Nú skilja allir nema hv. 2. þm. Skagf., að annaðhvort varð ríkisstj. að taka til sinna ráða eða beygja sig og fá læknafélaginu raunverulega veitingarvaldið í hendur. Þetta skilja allir, þó að hv. 2. þm. Skagf. látist ekki skilja það. En út af því, sem ég sagði um hv. þm., að hann væri þaulsætinn á þingbekk og yfir höfuð prýðilegur þm. um alla hegðun (MG: Ætlar hv. þm. að taka þetta aftur?). Það er ekki hægt, en ég vil benda honum á, af því að oft er loftþungt hér í hv. d., að höfuð hans mundi hafa gott af því að viðra sig oftar en hann gerir. (MG: ég er alveg nýkominn inn).