11.03.1932
Efri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég hefi borið þetta frv. fram sem tilraun til þess að friða um fornar minningar, sem kristnum mönnum eru hvarvetna helgar og hjartfólgnar, og ég hefi leyft mér að halda því fram, að þær minningar eigi bæði yl og afl andlegu lífi manna til styrktar.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að allar þær þjóðir, sem eiga sæmilega menningu og þroska og er annt um sinn eiginn sóma, leggja verulega rækt við minjagripi sína og leitast við af fremsta megni að forða þeim frá tortímingu og gæta þeirra vel. Ég þarf víst ekki annað máli mínu til stuðnings en að minna þá, sem komið hafa til annara landa, á þau hin mörgu söfn, sem þar eru til sýnis; þau bera það ótvírætt með sér, að vel er hlúð að minningum þessara þjóða, sem varða andleg og veraldleg efni, og þó sérstaklega þeim minjagripum, sem sögulegir atburðir eru tengdir við. Þjóðunum er þetta metnaðar- og menningarmal; þær líta á það sem helga skyldu við föðurland sitt.

Nú er það sameiginlegt álit kristinna manna, að Getsemane- og kvöldmáltíðarminningarnar séu dýrmætir minjagripir, nátengdir þeim atburðum sögunnar, sem mestum aldahvörfum hafa valdið í lífi og siðum þjóðanna, og að þeim megi sízt af öllu gleyma; þær verðskuldi öðru fremur fulla ræktarsemi og alúð, einnig af hálfu löggjafarvaldsins, sem þjóðirnar eiga fulla heimting á, að taki tillit til álits þeirra á þessum sviðum, engu síður en á öðrum sviðum. Og það, sem ég fer fram á með frv. þessu, er það, að lögrétta Íslendinga auðsýni þessum fornhelgu atburðum þá ræktarsemi að lögvernda og löghelga þær dagstundir, sem menn hafa öld eftir öld haldið heilagar í minningu þeirra.

Ég ætla ekki að þreyta hv. d. með löngu máli um frv. Ég hefi áður, bæði í fyrra, er ég bar það fyrst fram, og aftur nú fyrir nokkrum dögum, tekið fram þau aðalatriði, sem ég vildi um það sagt hafa, og sé því ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það.

Ég er hv. meðnm. mínum í menntmn. þakklát fyrir þeirra góðu undirtektir og vonast til, að hv. d. sjái sér fært að ljá frv. fylgi sitt og stuðning.