25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2998)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Vilmundur Jónsson:

Ég get tekið það fram, að ég er ekki á móti því, að bætt sé við brtt. mínar ákvæði um, að bannið sé látið ná til allra skipa. Frá mínu byggðarlagi þekki ég það ekki, að bátar stundi veiðar þá helgidaga, sem hér um ræðir. En ef þetta er gert í öðrum verstöðvum, þá er sjálfsagt að banna það á sama hátt. Ég get þó ekki fallizt á að taka brtt. aftur. Ég sé ekki betur en að hana megi samþ., og síðan bæta þessu inn í frv. við 3. umr.

Ég veit, að fjárhagslegur skaði getur orðið að þessu banni. En sá kostnaður er þó varla mikill í samanburði við það, sem yfirleitt kostar að halda jól og aðrar stórhátíðir. Til þess fer árlega stórfé á þessu landi, líklega svo skiptir hundruðum þúsunda, ef ekki millj. króna. Og þó er það gert. Mér skilst, að annað eins og þetta eigi ekki að meta til peninga. Ég skal þó játa, að það er ekki af neinum trúaráhuga, að ég ber fram þessa brtt. Fyrir mér er þetta blátt áfram sjálfsagt mannúðarmál. Þessar hátíðir eru mestu frídagar þjóðarinnar, sérstaklega jólin. Ég hefi veitt því eftirtekt, að það er eins og togaraskipstjórarnir sumir geri sér stundum beinlínis leik að því, líklega til að sýna vald sitt, að fara út úr höfn á aðfangadaginn, rétt áður en jólahelgin byrjar. Slíkan ruddaskap á ekki að vera hægt að hafa í frammi. Ég hygg, að öllum skipverjum væri þá sérstaklega ljúft að vera hjá venzlafólki sínu og njóta með því jólanna, og þá ekki síður venzlafólkinu að hafa ástvini sína heima, í stað þess að vita þá í lífsháska úti á reginhafi. Og þarf hér ekki trúarlegar ástæður til. Nú geri ég ráð fyrir, að allir séu sanntrúaðir hér í hv. d. nema ég einn, og sanntrúaðir menn geta alls ekki verið í vafa um, hvort meira beri að meta boð drottins, sem fyrirskipar að halda skuli jafnvel hvern einfaldan hvíldardag heilagan, hvað þá jólanóttina, eða skipun Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, sem þykist ekki hafa ráð á að leyfa slíkt helgihald. Ég held, að þeir hljóti að telja sér skylt að hlýða boði drottins, hvað sem það kostar togaraútveginn, og jafnvel þó að það setti hann á hausinn. Og þeir yrðu meira að segja að gera það, þó að miklu lengra væri gengið. Togaraeigendurnir mega því vera mjög þakklátir, meðan enginn gerist svo bíræfinn að heimta meira en þessa 4 daga fyrir hönd drottins. — Raunar hefi ég heyrt, að í nýútkomnu barnalærdómskveri hafi verið strikuð út setning, sem var í mínu kveri og hljóðaði um það, að framar beri að hlýða guð en mönnum. Ef til vill hefir það verið gert eftir ráðstöfun Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda. Það er nú gott að fá atkvgr. Hér í hv. deild um það, hverja skoðun hún hefir á þessu boðorði. Og til þess, að það komi alveg glöggt fram, vil ég óska nafnakalls um brtt. mína.