05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, fjárlög 1933

Ólafur Thors:

Hv. þm. Seyðf. vék að mér nokkrum orðum. Honum þótti ég lítið leggja til kreppumálanna og ekki lífvænlegt. — Sjálfur bar hann fram þá uppastungu, að ríkið tæki alla verzlun í sínar hendur!

Það er nú eins og þar stendur, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Það er sjálfsagt hin mikla fyrirmynd, síldareinkasala dómsmrh. og sócialista, sem hvetur til þessa bjargráðs. Ég mætti kannske minna á, að eftir þriggja ára starfsemi hefir „fyrirmyndinni“ tekizt að koma flestum skiptavinum á hausinn; og er svo sjálf farin sömu leið, og það svo eftirminnilega, að þótt sjómenn hefðu gefið alla sína vinnu í tvær vertíðir og útgerðarmenn lánað skip sín endurgjaldslaust, og greitt úr eigin vasa kol, salt, olíu, veiðarfæri og allan annan útgerðarkostnað, þá er hæpið, að nægt hefði til að vega „fyrirmyndina“ upp úr gjaldþrotafeninu. Ég er hræddur um, að verkalýðnum í landinu fari að líða mismunandi, þegar hann er búinn að búa svo sem eitt eða tvö ár í þessari Paradís þm. Seyðf. Og ég er ekki ósmeykur um, að þá fari nautunum og sauðunum að verða hætt. — Já, hv. þm. þarf ekki að gretta sig; ég átti við skepnurnar. (HG: Þær ferfættu?) Ja, ferfættu skepnurnar. Nefnilega að hungrið yrði farið að sverfa svo mikið að almenningi, að gripið yrði til þess, sem ætilegt er í landinu.

Hæstv. fjmrh. sagði það ofmælt hjá mér, að ríkissjóður væri aumastur allra aumra. Það væri í sjálfu sér ánægjulegt, ef ég hefði verið of svartsýnn í fyrri ræðu minni. En það hefir þá verið í öðru en þessu. Ég þekki ekki annan mælikvarða á mátt ríkissjóðs en efnahag hans og lánstraust annarsvegar, en gjaldþol skattþegnanna hinsvegar. Hér í umr. hefir nú verið sýnt fram á, að skuldir ríkissjóðs hafi meira en tvöfaldast á fám hátekjuárum. Enginn veit betur en hv. fjmrh., að lánstraustið er a. m. k. að þrotum komið. Og enginn hefir véfengt, að gjaldþegnarnir eru hörmulega stæðir. Geta ríkissjóðs stendur því á funum og feysknum stöðum. Hin hlið málsins er svo sú, að ríkissjóður þarfnast 10–12, að ég nú ekki segi 13–14 millj. kr. árlegra tekna til að standast brýnustu þarfir. Mér sýnast þetta ekki glæsilegar horfur og sný ekki aftur með það, að ríkissjóður sé aumastur allra aumra. En úr því að hæstv. fjmrh. er á annari skoðun, þá ætti hann að rétta hinum bágstöddu atvinnuvegum hjálparhönd og létta af þeim skottum. Þetta vill hæstv. ráðh. ekki gera, heldur vill hann fá nýja skatta frá þeim, sem hann telur aumari en ríkissjóð, og það er vitaskuld mikill misskilningur, að til séu nógir skattamöguleikar utan atvinnuveganna, eins og hann komst að orði. Allir skattar, hvort heldur af nauðsynjum eða óhófi, verða að greiðast af afrakstri atvinnulífsins eða eignum þjóðarinnar. Þetta verður hæstv. ráðh. að hafa hugfast.

Þá vil ég leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á það, að hann má ekki leita afsökunar á fjárhag ríkissjóðs í þeirri staðreynd, að ríkissjóðir annara ríkja hafa ekki safnað sjóðum og að Reykjavíkurbæ og einstaklingar hér í bænum hafa heldur ekki gert það. Tekjur íslenzka ríkissjóðsins hafa undanfarin 4 ár farið 35% fram úr áætlun. Mér er ekki kunnugt um, að neinn annar ríkissjóður hafi þau árin att svipuðu láni að fagna. Reykjavíkurbær hefir haft minni tekjur en áætlað var, og væri þá eðlilegast, að bærinn hefði safnað skuldum, en ekki sjóðum. En um atvinnurekendur er það að segja, að í fyrsta lagi hefir árferðið verið þeim óhagstætt, þótt ríkissjóður hafi skóflað að sér fé, og í öðru lagi stoðar ekkert, þótt árferðið sé sæmilegt, því að bæjar- og ríkissjóður skipta bráðinni á milli sín. Atvinnurekendur geta því engum sjóðum safnað. Nei, hæstv. ráðh. verður að leita annað til sambærilegrar samlíkingar við fjárhag ríkissjóðs. — Hérlendis kem ég helzt auga á síldareinkasöluna. Hún hefir verið einrað um, hvað hún hefir skammtað viðskiptavinum sínum, og seilzt djúpt í vasa þeirra, rétt eins og ríkissjóður við skattþegnana. Hún hefir komið flestum sínum viðskiptavinum á hausinn, alveg eins og skattalögur ríkisins eru að setja atvinnulífið, og svo er hún loks sjálf gjaldþrota. Ríkissjóður er nú að vísu aðeins gjaldvana, en það er þá líka af því, að hann hefir herravald yfir öllum eignum skattþegnanna meðan eitthvað er eftir. Hæstv. ráðh. lét svo um mælt, að ef framkvæmdir ríkisins fellu niður, þá væri það þeirra sök, sem neita um skattana. Þessu verð ég harðlega að mótmæla. Er nokkurt vit í því, að ríkissjóður, sem eytt hefir 77 millj. kr. á 4 árum og nú kemur til þrautpíndra skattþegna og heimtar nýja skatta, að hann skuli kasta undirtektum sem þessum framan í þá, sem hlífa vilja borgurunum við frekari blóðtöku: Það eruð þið, sem berið ábyrgðina á því, að verklegar framkvæmdir í landinu falla niður. — Þetta eru dómsmálaráðherrarök. Nei, það eru svei mér þeir, sem búnir eru að eyða og sukka öllum sjóðum, bæði ríkis og einstaklinga, sem ábyrgðina bera, og skulu aldrei að eilífu komast undan henni. Hæstv. fjmrh. á ekki að vera að reyna að verja gerðir fyrirrennara sinna. Með því leiðist hann út á hálar brautir og getur orðið á að grípa til raka, sem hvorki eru honum samboðin né lík. Sjálfur hefir hann, að því er ég bezt veit, aldrei beitt ráðherravaldi sínu, svo að hann þurfi að bera kinnroða fyrir. Sjálfan sig getur hann því varið, og það gerir hæstv. ráðh. vel. Hina á hann ekki að reyna að verja, því að það gerir hann illa, og getur enda ekki. Annars sýnir blærinn, sem er yfir þessum umr., ríkisstj. okkar rétt eins og hún er. Við sjálfstæðismenn höfum borið fram þunga ádeilu á stj. Við höfum engin svör fengið hjá hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. Hv. 2. þm. Skagf. bar fram mjög ýtarlega og vel rökstudda ádeilu á stj. út af fjármálunum. Þá svarar hæstv. forsrh. með ræðu um eðli og einkenni málfærslumannastéttarinnar, svo útbelgdri af glamri, að þar komust engar upplýsingar fyrir. Það má heita, að hann bæri ekki við að hrekja einn einasta lið í ræðu hv. 2. þm. Skagf. Og hitt er brot á öllu velsæmi og langt fyrir neðan virðingu Alþingis, að þegar sjálfur dómsmrh. er ákærður fyrir stórfellda misnotkun ríkisfjár, og þar á meðal sjálfum sér og vinum sínum til ánægju og framdráttar, þá svarar hann þessum þungu ásókunum með vaðli um töp bankans á einstökum kaupsýslumönnum. Eða þegar þessi maður er að fjargviðrast yfir því, að einhver annar hafi haft 40 þús. kr. árslaun og með því verið „dýrasti maður landsins“ og „skapað dýrtíðina í Reykjavík“, þessi maður, sem sjálfur hefir tekið árlega úr ríkissjóði minnst 100 þús. kr. til eigin þarfa, að því ógleymdu, að það er ekki minna en 10–12 millj. kr. af ríkisfé, sem hann hefir síðustu 4–5 árin sóað í lítt horf og alóþörf fyrirtæki. Ríkissjóður væri nú a. m. k. þessum milljónum betur stæður, ef meðalgreindur og ráðvandur maður hefði setið í stöðu hans þessi árin. Að ég ekki tek duglega í þennan ráðh. er af því, að mér sýnist, að kreppan, sem allir eru að tala um, að hafi lagzt eins og mara á alla þjóðina, hafi lagzt óvenjuþungt á hann, þyngra en á nokkurn annan af þegnum þjóðfélagsins. Að honum kreppir nefnilega ekki eingöngu fátækt ríkissjóðs, heldur kannske ennþá meira fastheldni hæstv. fjmrh. Þeirra viðskipti munu nú hafa byrjað þannig, að skömmu eftir að nýja stj. settist á laggirnar, ætlaði hæstv. dómsmrh. að kaupa sér flunkurnýjan og logagylltan lúxusbíl. En sem von var, þá var bíllinn nokkuð dýr. Er bezt að segja þessa sögu sem skemmsta. Hæstv. fjmrh. neitaði að borga lúxusbílinn, og seljandinn matti senda hann aftur. Upp úr þessu tók hæstv. fjmrh. ósköp kurteislega dómsmrh. sér við hönd og leiddi hann út úr fjárhirzlu ríkisins, þar sem hann hafði verið heimagangur í mörg ár, fór með hann út í horn og settist þar á hann. Þar sýnist svo kreppan hafa tekið við honum og fært hann út af stjórnmálasviðinu. Víst er um það, að þegar rædd eru hin alvarlegu málin, þá spyr enginn um álit hæstv. dómsmrh.

Svör ríkisstj. til okkar sjálfstæðismanna eru vítaverðari fyrir það, að við höfum einmitt hlíft stj. við ádeilum um flest nema stærstu málin. Við höfum svo að segja ekki drepið á hlutdrægni stj. né siðlausar ofsóknir hennar og ódrenglyndi í garð andstæðinganna, eða brot hennar á skráðum og óskráðum lögum landsins. Þetta höfum við þó ekki gert af því, að við séum sammála hæstv. forsrh. um, að ekki megi minnast á eldri syndir en frá síðustu kosningum á þessum eldhúsdegi. Ég get sagt hæstv. forsrh., að það er venja utan stjórnmálalífsins, að bófar eru hengdir fyrir 20 ára gamla glæpi, ef til þeirra næst. Og guðsmanninn minni ég á það, að hann verður að iðrast vel og rækilega, ef hann ætla. ekki að taka afbrotin með sér í gröfina. — Svona seint fyrnast nú þær skuldir.

Nei, það var ekki af þessum ástæðum, að við höfum verið hlífnir við stj., heldur af hinu, að með því að ræða eingöngu stóru málin, ætluðum við að knýja stj. til þess að gera. annað tveggja að svara og játa yfirsjón sína, eða að svara ekki og verða alveg ber að því að standa varnarlaus. Hið síðara hefir orðið, og það vona ég, að allir hv. áheyrendur skilji.

Í þeirri ræðu, sem ég hélt hér í hv. d. í gær, sýndi ég fram á, hversu bágur er fjárhagur ríkissjóðs, og að atvinnulíf í landinu er að falla í rústir. Jafnframt grúfir margvísleg utan að komandi hætta yfir íslenzku þjóðlífi. Sumpart er þetta fyrir beinan tilverknað Framsóknarstj., en sumpart er henni alls ekki treystandi til að afstýra voðanum.

Það er vitaskuld skylda allra ábyrgra manna, að neyta sameiginlegra átaka til viðhalds og viðreisnar íslenzku þjóðlífi, en til þess að nauðsynlegt samstarf geti hafizt milli flokkanna, er a. m. k. það tvennt nauðsynlegt: Að Framsóknarflokkurinn láti niður falla allar tilraunir til að halda augljósustu mannréttindum fyrir stórum meiri hl. þjóðarinnar, og að öll völd séu tekin úr höndum þeirra manna, sem nær öll þjóðin og mikill meiri hl. Alþingis fyrir löngu hefir misst allt traust á, vegna skorts þeirra á hagnýtum gáfum og þekkingu, og sakir áberandi, sívaxandi og óþolandi skapbrests þeirra. Sé Framsóknarflokkurinn ófús á að verða við svo sanngjörnum óskum, þá er það af því, að hann vill vitandi vits traðka á þjóðarviljanum. Þá er það af því, að hann vill misbjóða virðingu þeirra þingfulltrúa, sem fara með umboð tveggja þriðju hluta þjóðarinnar, þá er það af því, að hann vill heldur sitja á rústunum, meðan sætt er, en þiggja útrétta hönd þeirra, sem vilja reyna að reisa úr rústunum. Þá er það af því, að Framsóknarfl. vill ekki með samstarfi við aðra flokka tryggja þjóðinni þá vitsmuni, þekkingu og góðvild, sem föng eru á, enda þótt langflestir af þm. flokksins viti það vel, að með því einu móti er von til að brynja þjóðina, svo að hún fái varizt aðsteðjandi atlögum.

Vilji Framsóknarfl. þetta ekki, er eftir eitt, og eingöngu eitt úrræði, nefnilega, að hinir flokkarnir grípi til sinna ráða an Framsóknarflokksins, og þá leið verður þá að fara.

Úr því að svo hittist á, að eldhúsdagurinn er í íslenzku vikunni, einmitt um þær mundir, þegar allir ísl. framleiðendur eru að keppast við að tjalda því bezta, hver á sínu sviði, og sanna, að þeir þoli samanburð við útlenda keppinauta, þá vil ég nú beina þeirri áskorun til Framsóknarmanna þingsins, að þeir taki þátt í þeirri samkeppni, og sýni þjóðinni þá skárstu eða beztu stj., sem þeir geta framleitt. Ég lýsti því áliti mínu, að Framsókn eigi innan sinna vébanda svo nýta og heiðarlega menn að ég tel víst, að þeir geti með því að aðhyllast réttláta lausn kjördæmamálsins tryggt sér góða samvinnu við aðra flokka til úrlausnar erfiðustu viðfangsefnunum. Slík stj. myndi, miðað við fyrri framleiðslu flokksins, verða skoðuð vottur mikilla framfara í þeirri iðngrein, og yrði vafalaust talin mesta gersemi íslenzku vikunnar.

Ég læt þá máli mínu lokið með því loforði til hv. flokksbræðra minna meðal áheyrenda, að við þm. Sjálfstæðisflokksins munum jafnan fylgja, fast fram öllum stefnu- og áhugamálum flokksins, ekki sízt kjördæmamálinu. Við munum jafnan leitast við að gera skyldu okkar, þar á meðal setja jafnan þjóðarhagsmuni yfir flokkshagsmuni.