23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

3. mál, landsreikningar 1930

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Það þarf ekkert að efast um, út af þessu síðasta svari hv. þm. Dal., að það er einhver flækja í heilanum á honum.

Ég veit ekki, hvenær þjóðin hefir fellt dóm í þessu máli. En ég er alveg viss um, að þjóðin skilur vel þetta mál og veit, hvernig í pottinn var búið, — að það var ekkert nema heift og hatur þessa einráða og geðríka manns, sem hann hefir sýnt víðar. Þetta skilur þjóðin og virðir og þakkar læknum fyrir það, sem þeir lögðu á sig við að lagfæra það, sem hæstv. dómsmrh. hafði eyðilagt.

Það hefir ekki við nein rök að styðjast að læknar viðurkenni, að þeir hafi verið brotnir á bak aftur og fengið þá lexíu, sem heim dugir, en hitt getur verið, að sjálfur dómsmrh. hafi fengið lexíu — og hann væri margbúinn að fá hana, ef ekki væri búið að sýna sig, að hann getur yfirleitt ekkert lært, hvorki í þessum efnum né öðrum.