25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Jónas Þorbergsson:

Ég vil taka það fram, að fyrir mitt leyti hefi ég mesta tilhneigingu til að fylgja anda Móselaga í þessu efni. En þau segja: „Sex daga skalt þú verk þitt vinna, en sjöunda daginn skaltu halda heilagan“. M. ö. o. að láta hvíldarþörfina ráða eftir því, sem við verður komið. En ég er á móti því, að gengið sé af trúarlegum ástæðum lengra í helgihaldi en nú er gert. Ég lít svo á, að hvíldardagar séu nauðsynlegir til að koma í veg fyrir ofþrælkun manna, enda er nú svo ráð fyrir gert, að sunnudagar séu haldnir sem hvíldardagar. En nú snertir brtt. ekki þetta efni, heldur stórhátíðirnar, þar sem 3 dagar eru helgir í röð. Ég hefi þó tilhneigingu til þess að vera með því ákvæði brtt., að það skuli vera skýlaus skylda skipstjóra, að vera í höfn, og helzt í heimahöfn skipsins yfir hátíðirnar, ef unnt er. Ég veit dæmi til þess héðan úr Rvík, að togarar hafa farið út rétt fyrir jólin, jafnvel á aðfangadag. En þar sem þessi brtt. er bundin við aðra till., sem ég sé ekki ástæðu til að vera með, þá mun ég greiða atkv. gegn brtt. og málinu í heild sinni.