25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (3003)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Jóhann Jósefsson:

Það er dálítið einkennilegt fyrirbrigði, að hér á Alþingi er einlægt verið að reyna að seilast inn á verksvið togaraútgerðarinnar með löggjöf. Þetta er gagnstætt því, sem aðrar þjóðir gera. Mér er ekki kunnugt um, að nein þjóð hafi innleitt hjá sér svipuð ákvæði og vökulögin okkar, sem jafnaðarmenn hafa hrósað sér af að hafa komið á, en hafa vitanlega haft það í för með sér, að við erum ekki samkeppnisfærir við aðrar þjóðir. Hafa ísl. togaraskipstjórar sagt að mér áheyrandi, að þeim lægi við að skammast sín, þegar þeir kæmu til. Englands með jafnmikinn afla eftir túrinn með 18 menn og útlendingar, sem aðeins hafa 13. Það má vera, að á tímabili hafi verið þörf á að taka fram fyrir hendurnar á einstöku skipstjóra í þessu efni. En sá tími er löngu liðinn.

Þetta frv. er líka notað til þess að seilast inn á verksvið þessa atvinnurekstrar. En ég held, að það sé bezt, að hann sé sjálfráður hér, svo sem hann er hjá öðrum þjóðum. Það er auðvitað, að hlutur hásetanna rýrnar við allar þessar hömlur. Þær miða að því að rýra afkomu skipanna. Ég efa það, að fjöldi íslenzkra sjómanna verði flm. brtt. þakklátir, verði beint bann lagt við helgidagavinnu á togurunum, þótt allar ástæður mæli með henni, t. d. veðurlag og annað. Það er eitt, hvernig æskilegt er að haga sér, annað, hvort setja eigi bindandi og ófrávíkjanleg lagaákvæði um það. Auk þess er það almennt viðurkennt, að menn eigi að hafa sem víðtækast frelsi í þessum efnum. þeirri skoðun vil ég ekki ganga á móti að nauðsynjalausu.

Hv. frsm. staðhæfði tvennt, sem ég held, að ekki sé rétt. Í fyrsta lagi sagðist hann þekkja þess mjög mörg dæmi, að stórhátíðirnar væru notaðar til veiða. Annað var það, er hann sagði, að það væri ekki of mikið, þótt lögboðið væri, að skipin sigldu inn og lægju þar yfir hátíðirnar, þegar þau væru á sjónum allan ársins hring. Því er nú miður, að sá afturkippur er orðinn, að sjómenn ganga atvinnulausir mikinn hluta árs. Skipunum er ekki lengur stöðugt haldið úti. Þetta sýnir, að hv. þm. hefir ekki nægan kunnugleik á því, sem hann er að ræða um. Í ár er útlit fyrir, að dauði kaflinn hjá togaramönnum verði lengri en nokkru sinni áður.

Ég kann illa þeim tón í garð togaraskipstjóra, sem gætir mjög hér á þingi, einkanlega hjá kommúnistum þessarar hv. d. og þ. á m. hv. frsm., sem verður að teljast til þeirra, þar sem hann hefir þar a. m. k. annan fótinn. Það er rétt eins og það þurfi með löggjöf að hafa vakandi auga á því, að þeir skaðskemmi ekki skipshafnir sínar með of mikilli vinnu. Ég er talsvert kunnugur aðbúnaði á útlendum togurum og erlendum sjómönnum, og mér virðist aðbúnaðurinn þar vera sízt betri en á íslenzkum skipum, né íslenzkir sjómenn líta út fyrir að vera verr haldnir en erlendir stéttarbræður þeirra. Ég skil ekki í því, hvaða ástæða er til þess að tala ávallt um skipstjóra eins og harðstjóra, sem löggjafinn þurfi að vera á hælunum á til að vernda líf og heilsu undirmanna þeirra. Ég hefi aldrei hitt íslenzkan háseta, sem hefir kvartað um illan aðbúnað á togara eða óhóflega vinnuþrælkun.

Hitt atriðið, sem hv. þm. talaði um eins og hann þekkti það ákaflega vel, var það, hvernig jólin væru haldin í veiðistöðvunum. Hann taldi það algengt, að bátar notuðu jólahátíðina til veiða. Í þeirri veiðistöð, sem ég þekki bezt til — og það er ákaflega stór veiðistöð —, á slíkt sér samt sem áður ekki stað. Hitt er annað mál, þótt það hafi komið fyrir, að bátar hafi neyðzt til að fara á sjó á helgum, hafi þeir t. d. daginn áður orðið að fara frá lóðum sínum. En þetta er engin regla, og Alþingi þarf ekkert að skipta sér af þeim hlut. Yfirleitt er þinginu ráðlegast að seilast sem minnst inn á svið þessa atvinnurekstrar með lagaboðum, er banni vinnu, og á þessum tímum er það allt annað, sem það þarf að gera en að banna mönnum að bjarga sér.

Hv. þm. Ísaf, var að gabbast að því, að við atkvgr. yrðu þm. að gera það upp við sig, hvort þeir vildu fylgja boðum guðs eða mammons. Ég skil ekki, að hv. þm. Ísaf. geti talizt neinn trúarinnar sendiboði hér í deildinni. Mér hefir ekki virzt hann þesslegur. Það má þó vel vera, að hann sé einhverrar trúar. Þetta er svo margvíslegt. Tyrkinn trúir á tunglið, að því er sagt er. Nú er það vitanlegt, að hv. þm. hefir haft það gagn af sinni pólitísku aðstöðu að komast í eitt launahæsta embætti landsins. Það getur því vel verið, að hv. þm. trúi líka á eitthvað kringlótt.

Hv. þm. Dal. tjáði sig mundu greiða atkv. móti þessu öllu saman, en hafði þó tilhneigingu til að fylgja Móselögum um þetta efni, að hann sagði. Mér kom það ekki á óvart, að hv. þm. vitnaði í Móselög. Þeir hafa sjálfsagt farið með samskonar yfirlýsingar, farisearnir, sem spurðu að því fyrir 1900 árum, hvort lækna mætti á helgidegi.

Sem sagt, mér virðist engin aðkallandi nauðsyn vera á því að setja nú ný ákvæði um vinnubrögð á togaraflotanum. Hann hefir ekki uppskorið hingað til annað en það að vera lamaður af þeim reglum, sem Alþingi hefir sett. Það eru nógu margir hvíldartímar fyrir þá, sem vinna á togurum, af öðrum ástæðum, t. d. óveðrum. Er því sízt ástaæða til með nýrri löggjöf að skerða þá vinnudaga, sem þeim annars geta fallið í skaut.