03.03.1932
Efri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3016)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jón Baldvinsson:

Eins og hv. flm. gat um, var þetta mál einnig til umr. á sumarþinginu, og þá samþ. í því þáltill., sem hv. þm. Hafnf. flutti, með þeirri breyt. frá mér, að áætlun yfir þennan veg yrði lokið þegar á síðastl. hausti. Þykist ég vita, að hæstv. stj. hafi látið gera þessa áætlun skv. þessari samþykkt Alþingis og vildi beina því til hæstv. forsrh., að hann gæfi hér skýrslu um þetta.

Ég er sammála hv. flm. þessa frv. að því leyti, að ég tel, að nauðsynlegt sé að leggja þennan veg og rétt að fyrirskipa það með l., en mér þykir miður, að frv. skuli ekki gera ráð fyrir, að byrjað sé á þessu verki fyrr en næsta ár. Það má að vísu gera ráð fyrir því, að þessi vinna muni þá koma að góðu haldi eins og nú, en atvinnuþörfin verður afarmikil í sumar vegna hins gífurlega atvinnuleysis, sem af því leiðir, hve atvinnuvegirnir eru illa staddir, og vildi ég því skjóta því til hv. flm., hvort hann gæti ekki fallizt á að herða að ákvæðum frv., um frv., þannig að byrjað verði á verkinu strax í sumar, því að ég geng út frá því, skv. því, sem ég áður sagði, að rannsóknin á þessu vegarstæði hafi þegar farið fram, svo að ekki sé annað eftir en að hefjast handa til framkvæmdanna. — Það er laukrétt hjá hv. flm., að vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur kemur til með að bera mikinn hluta bifreiðaskattsins, og að því leyti ekki nema sanngjarnt, að skatturinn renni að einhverju leyti til að leggja þennan umrædda veg, en ég held þó, að ekki sé rétt að hafa slíkt ákvæði sem þetta í frv., því að ég er hræddur um, að það kunni að verða frv. að falli, því að hætt er við, að af þessu geti leitt til togstreitu milli hinna ýmsu héraða um að draga til sín sinn hluta af bifreiðaskattinum. Ég vil hinsvegar taka það fram, að ég segi þetta ekki af því, að ég sé þessu ákvæði frv. andvígur í sjálfu sér.

Ég fer svo ekki fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vil endurtaka þá ósk mína að lokum, að hæstv. forsrh. skýri þinginu frá því, hvað áðurnefndri rannsókn á þessu vegarstæði líður.