03.03.1932
Efri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (3019)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jón Baldvinsson:

Ég á ekki sæti í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um þetta mál, fremur en öðrum þingnefndum, og hefi því ekki gagn af þeim upplýsingum, sem vegamálastjóri kann að gefa n. um þetta mál, og vildi ég því mælast til þess við hæstv. forsrh., að gögn þessa máls yrðu lögð hér fram í þinginu fyrir 2. umr. málsins, svo að þm. gefist kostur á að gera sér grein fyrir því, hvort till. vegamálastjóra hafa meira til síns máls en frv., því að mér skildist á hæstv. forsrh., að vegamálastjóri legði á móti því. að vegurinn yrði lagður þessa umræddu leið, sem frv. gerir ráð fyrir. Verður ekki dómur á þetta lagður, fyrr en mönnum gefst kostur á að kynna sér reik vegamálastjóra fyrir þessu.

Hv. flm. taldi, að unnt mundi að fá bráðabirgðalán til þessarar vegagerðar út á bifreiðaskattinn, svo að allt að einu mundi hægt að ráðast í verkið á þessu hausti, þó að ekki sé svo ákveðið í frv., og væri auðvitað ekki nema gott eitt við þessu að segja, en ég er hræddur um að ríkið komi til með að hafa nóg á sinni könnu, svo að þetta gangi ekki greiðlega, ef ekki er ákveðið með 1., auk þess sem flest bendir til þess, að ríkissjóður eigi betra með að láta þetta fé af mörkum þá en nú. Það er allt útlit fyrir, að atvinnuþörfin verði mjög mikil í sumar, því að atvinnuvegirnir standa nú mjög höllum fæti, svo að búast má við, að fjölmargir missi þannig það uppihald, sem þeir höfðu af þeim, og þegar svo er komið, er það almennt viðurkennt, að ríki og þær eigi að hlaupa undir bagga með atvinnubætur. Þessi vegarlagning er einmitt tilvalin sem slík atvinnubótavinna, auk þess sem hér er um hreina og beina sparnaðarráðstöfun að ræða, af því að bifreiðafargjöldin mundu lækka stórlega frá því sem nú er, ef vegurinn yrði gerður á þessum stað. Hér vill líka svo vel til, að hægt er að vinna að þessari vegargerð allt fram í desember, því að hér er venjulega snjólaust eða a. m. k. snjólítið fram eftir öllu hausti. Maður hlýtur auðvitað að vona, að eitthvað fari að rætast úr þessu ömurlega ástandi hvað líður, en ástand hins yfirstandandi tíma er mjög ískyggilegt, og verður að gera sérstakar ráðstafanir vegna þess.