26.04.1932
Efri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (3021)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Frsm. (Páll Hermannsson):

Í nál. samgmn. er gerð allýtarleg grein fyrir áliti n. á þessu máli, og ætti sú grg. raunar að nægja um málið af hálfu n. N. hefir haft þetta mál alllengi til meðferðar og leitað sér um það allra þeirra upplýsinga, sem kostur var á að fá, og þá eðlilega einkum snúið sér til vegamálastjóra í því efni. Hefir vegamálastjóri setið á nokkrum fundum með n. og rætt málið við hana, og auk þess samið og sent n. ýtarlega skýrslu og kostnaðaráætlun um þennan væntanlega nýja veg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og sömuleiðis áætlun yfir það, hvað kosta mundi að gera nauðsynlegar umbætur á gamla veginum, hvort heldur sem væri um að ræða að endurbæta hann sem malarveg eða ráðizt væri í að setja á hann varanlegt slitlag. Skv. þessum áætlunum vegamálastjóra verður það 157–224 þús. kr. ódýrara að endurbæta og fullkomna gamla veginn en að gera jafngóðan vegá hinu nýja vegarstæði. Virðist þessi verðmismunur út af fyrir sig vera allnokkur ástæða til að ráðast ekki í að leggja þennan nýja veg, en hér kemur þó fleira til greina, og þá einkum það, að leiðin milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur verður 1/4 lengri eftir þessum nýja vegi en hún nú er eftir gamla veginum, þannig að bifreiðar gætu á sama tíma farið 4 ferðir milli bæjanna eftir núverandi vegi á móti 3 ferðum á nýja veginum, ef miðað er við, að vegirnir væru jafngóðir báðir. Þessar tvær ástæður, að nýji vegurinn yrði bæði lengri og dýrari, hafði n. einkum í huga, þegar hún ákvað að mæla á móti því, að frv. yrði samþ., en auk þess kom og hér til sú ástæðan, að ekki er líklegt eins og sakir standa, að ríkið hafi yfir fé að ráða, sem hægt sé að leggja í þessar framkvæmdir. Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa um þetta fleiri orð fyrir hönd n. að svo stöddu, en ég get búizt við því, að hv. flm. muni ekki sætta sig vel við þessar till. n. í málinu, því að þetta mun vera honum allmikið áhugamál, ekki sízt vegna þeirra atvinnubóta, sem standa í sambandi við framkvæmd þessa verks. En eins og ég áður sagði, leggur n. til, að frv. verði fellt.