26.04.1932
Efri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (3023)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jón Baldvinsson:

Mér þykir n. taka stirðlega í þetta mikla mál. N. er ekki nóg með það að vilja ekki fallast á þessa breyt. á vegarstæðinu, heldur vill hún ekkert gera til þess að bæta þennan veg, sem nú er milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og leggur til, að frv. verði fellt eins og það liggur fyrir. Mér þykir þetta nokkuð kaldranaleg aðferð, af því að n. er kunnugt um, að þetta er eitt af helztu samgöngumálum, Sem að mestu gagni koma, ef gert er á erfiðleika- og krepputímum, bæði sem samgöngubót og vegna atvinnulausra manna. Hvað sem hv. þm. annars segja um það, þá neyðist stjórnin til þess að leggja fram fé, þegar vandræðin steðja að, og þá er það venjulega eitthvað lítt undirbúið verk, sem kemur að minna gagni heldur en ef það er undirbúið fyrirfram. Frá þessu sjónarmiði hefði n. átt að taka málið, og það minnsta, sem hún gat gert, var að breyta í þá átt að bæta veginn, sem nú liggur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, heldur en að vísa málinu alveg á bug.

Ég ætla að öðru leyti ekki að bæta við það, sem hv. flm. hefir svarað n. Ég mun greiða frv. atkv. áfram. En ég hefi fundið að því við hv. flm., að ekki á að byrja á verkinu fyrr en á næsta ári, en við gætum athugað það til 3. umr., hvort ekki væri rétt að koma með brtt. um það, því ég trúi því tæplega, að menn vilji vísa þessu máli frá, þegar hér er verið að samþ. stórar samgöngubátur í öðrum héruðum, þar sem ekki er eins brýn þörf og hér, þó að slarka megi með þann veg, sem nú er, en hann er ekki tilsvarandi því, sem hann þyrfti að vera, með þeirri umferð, sem orðin er.