29.04.1932
Efri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (3035)

320. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Baldvinsson:

Ég held, að ég verði að þakka hv. allshn. fyrir það, að hún hefir látið mál þetta frá sér fara, þótt engin ástæða sé til þess að þakka henni meðferðina. Hv. allshn. leggur til, að þetta litla frv. verði fellt, og vill með því meina litlum kauptúnum að losna úr tengslum við sveitahéruð, sem oft er þó nauðsynlegt, vegna ólíkra hagsmuna. Mér er kunnugt um, að í mörgum smáþorpum er talsverð óánægja yfir böndum við sveitarfélög, þó að það hafi ef til vill ekki komið mikið fram opinberlega ennþá. Svo er það á Hvammstanga, þarna í nágrenni við hv. 3. landsk., enda mun honum sérstaklega umhugað að láta það kauptún ekki losna úr böndum. Svona er það á Vopnafirði og víðar. Þessi skipting fer ekki fram í neinu flaustri, eins og hv. 3. landsk. lét í ljós, heldur eftir þeim reglum, sem settar eru um slíkt í sveitarstjórnarlögunum. Skipting fer auðvitað ekki fram nefna hlutaðeigandi yfirvöld samþykki hana. Þetta flaustur, sem hv. þm. er að flagga með, er því bara grýla, og ekkert varhugaverðara að samþ. frv. vegna þeirra aths. hans. Alstaðar þar, sem margt fólk býr saman, þó ekki sé fleira en hér er til tekið, eru verkefnin ólík því, sem þau eru úti um hinar dreifðu byggðir. Í kauptúnum er að ræða um margar sameiginlegar framkvæmdir, sem alls ekki er hægt að koma við þar, sem býli eru dreifð. Ég get t. d. nefnt vatnsveitur og rafveitur. Slíkar framkvæmdir, sem kauptúnin hafa sérstaklega gagn af, geta sveitirnar hindrað, ef þær eru í hreppsfélagi með kauptúninu. Þetta eru mjög sterk rök með þessu frv. Skiptingin færi auðvitað fram eftir reglum sveitarstjórnarlaganna, og engin hætta á því, að með þessu yrðu stofnuð óstarfhæf sveitarfélög. Frsm. upplýsti, að þorp, sem hér gæti verið um að ræða, væru 7 hér á landi, og ég sé ekki neina ástæðu til annars en að veita þeim þennan rétt, og gæti það einnig komið til gagns fyrir sveitir, sem vildu losna úr sambandi við kauptúnin. Ég sé enga ástæðu til þess að binda það saman, sem ekki vill saman vera. En það væri ef til vill réttara, að kauptúnin létu vilja sinn skýrar í ljós en þau hafa gert hingað til. — En ég held, að fyrir hv. 3. landsk. vaki það, að þetta kauptún fyrir norðan, sem ég nefndi áðan, fái ekki að losna úr tengslum við sveitarfélag það, sem það nú er í, og þetta vill hann til þess að bændur geti ráðið meiru í kauptúninu en þorpsbúar sjálfir. En slíkt nær ekki nokkurri átt. Ég vonast því til, að hv. þm. samþ. þetta frv., þrátt fyrir till. hv. nefndar.