29.04.1932
Efri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

320. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Baldvinsson:

Hv. 3. landsk. gat lítilsháttar um vatnsveituna á Hvammstanga. Þó það komi nú ekki þessu máli við, þá vil ég, fyrst það hefir nú blandazt inn í umr., ekki láta ógert, út af því, sem hv. þm. sagði, að skýra frá því, að ég hefi hreyft þessu máli á hverju þingi síðan ég fyrst bar það fram, nema kannske á sumarþinginu — ég man það ekki —, en á vetrarþinginu 1931 hreyfði ég þessu máli og gerði þá fyrirspurn til stj. um það, hvað liði þeirri rannsókn, sem var samþ. að láta gera, og var þá sagt, að verkfræðingurinn, sem framkvæmdi rannsóknina, hefði ekki enn skilað neinum plöggum til stj. Og það var af því — mér var skrifað það að norðan —, að hann væri ekki búinn að fá neina greiðslu fyrir rannsóknirnar. Ég þykist vita, að þetta geti varla verið rétt, en hitt er víst, að ráð gengur mjög stirðlega að fá þessar rannsóknir frá stj., þó að þingið hafi skipað, að þær skyldu framkvæmdar. En um það getur hv. þm. verið öruggur, að vatnsveitan á Hvammstanga kemur fyrir þingið einu sinni enn.

Hv. þm. var að tala um, að það hefði ekki heyrzt frá kauptúnum neitt í þá átt, að þau vildu, að þetta frv. væri samþ. ég skal nú lesa hér upp erindi frá Vopnafirði, svo að hv. þm. geti heyrt, hvort þetta er rétt hjá honum, úr því hann veit ekki um þetta erindi, þó því hafi verið lýst úr forsetastóli fyrir nokkru. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér undirritaðir Alþingiskjósendur í Vopnafjarðarkauptúni skorum á Alþingi það, sem nú er það, að samþykkja frumvarp það til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögunum, sem felur í sér það ákvæði, að kauptún með tvö hundruð íbúum geti orðið sérstakt sveitarfélag, og sem flutt er af alþingismanni Jóni Baldvinssyni.

Vopnafirði, 15. apríl 1932“.

Undirskriftir 50 alþingiskjósenda.

Þetta sýnir, að það er þó svolítið, sem liggur fyrir af vilja kauptúnanna til að fá frv. í gegnum þingið. Og ég hugsa, að það sé ósk fleiri kauptúna, sem líkt stendur á fyrir, og það liggur í þeim ástæðum, að þau hafa önnur áhugamál og önnur viðfangsefni að glíma við, sem eru ólík þeim, sem sveitarfélögin eða sveitirnar í kring hafa.