03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

583. mál, laun embættismanna

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er út af því, að þetta frv. nær ekki nema til nokkurs hluta starfsmanna ríkisins. Eins og kunnugt er, er það mikill fjöldi starfsmanna ríkisins, sem ekki tekur laun eftir launalögunum. Og ég hygg, að mér sé óhætt að staðhæfa það, að þeir menn búi yfirleitt við betri launakjör en þeir, sem taka laun eftir launalögunum. Nú er það kunnugt, að hæstv. stj. hugðist að gera einhverjar ráðstafanir til þess að lækka laun þessara manna í samræmi við lækkun þá, sem varð á dýrtíðaruppbótinni síðast. En ég hygg, að það sé játað af hæstv. stj. sjálfri, að henni hafi alls ekki tekizt þetta. Mér skilst, að frv. það, sem hér liggur fyrir, geri þetta misrétti, sem er í launakjörum starfsmanna ríkisins, ennþá meira en áður. Þess vegna get ég ekki fallizt á það að svo stöddu, að það geti verið rétt að samþ. frv.