28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

498. mál, tala starfsmanna við starfrækslugreinir og stofnanir ríkisins

Jón Baldvinsson:

Það er út af orðum hv. 1. landsk. um það, að við samnm. hans værum svo störfum hlaðnir, að við gætum lítið sinnt störfum í ríkisgjaldanefnd. Hvað mig snertir þurfti enginn að ganga að því gruflandi. Ég lýsti því strax yfir, að ég áliti, að n. gæti ekki mikið starfað á þingtímanum, enda var alltaf hálft í hvoru gert ráð fyrir, að n. eða þá önnur samskonar nefnd starfaði milli þinga. Ég gekk í n. eingöngu vegna þess, að ég er einn minna flokksbræðra hér í d. og varð því að taka þar sæti, ef Alþýðuflokkurinn átti að hafa þar nokkurn fulltrúa.

Annars er starf þessarar n. ekkert venjulegt þingstarf. Það verður óhjákvæmilega svo mikið, að það er engin von til, að þm. geti annað því á venjulegum þingtíma. Ég hygg því, að þetta ámæli hv. 1. landsk. sé ekki réttmætt.

Hvað till. viðvíkur, þá finnst mér það nægilegt, að málið sé undirbúið fyrir næsta þing. Ég held, það verði líka heppilegast, því ef ríkisgjaldanefndin starfar áfram, þá er vel hugsanlegt, að hún vilji gera einhverjar breyt. á rekstri ríkisstofnana, t. d. samsteypu þeirra, sem hefði áhrif á þetta mál. Og það er viðkunnanlegra, að frv. komi fram eftir að athugun hefir farið fram heldur en að rubba því upp nú strax, eingöngu eftir skýrslum þeim, er liggja fyrir þinginu.

Það sýnast því renna æðimargar stoðir undir brtt. okkar meiri hl., sent gengur í þá átt, að stj. verði falið að athuga þetta til næsta þings, enda ætlast hv. 1. landsk. ekki til þess, að till. komi til framkvæmda fyrr en í byrjun næsta árs, en yfirstandandi tími er einmitt versti krepputíminn, og þó að ástandið geti versnað, sem ég skal ekkert segja um nema kunni að verða, hefir maður þó leyfi til að vænta þess, að eitthvað fari að rætast úr um það, er þetta ár er liðið, og því eins miklar líkur til, að einmitt nú sé meiri þörf á þeim sparnaði, sem af þessum ráðstöfunum leiðir, heldur en síðar verður. En að vísu er ég ekki svona fyrirfram sannfærður um það, að sparnaðurinn af þessu verði ýkjamikill, þó að ég hinsvegar álíti rétt að draga það undir löggjafarvaldið að setja reglur í þessu efni, svo sem unnt verður.

Hv. 1. landsk. vék að einu atriði, sem mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um í þessu sambandi. Það er rétt hjá hv. þm., að setning fjárl. svo löngu áður en þau ganga í gildi er allmiklum vandkvæðum bundin, vegna þess, hve erfitt er að áætla svo langt fram í tímann. Minnist ég og þess, að hv. 1. landsk. hreyfði hér einu sinni till. í þá átt að miða reikningsár ríkisins við samþykkt fjárl., en hann kom á sínum tíma líka með till. um að hafa þing aðeins annaðhvert ár, og sýnir það, að hann hefir ekki alltaf verið jafnhræddur við að spá fram í tímann í þessu efni, þar sem hann þannig gat hugsað sér að lengja fjárhagstímabilið um eitt ár, sem hefði leitt til þess, að orðið hefði að spá einu ári lengur fram í tímann en nú þarf. Ég skal hinsvegar játa það, að æskilegt er að koma þessu í það horf, að fjárl. gangi sem fyrst í gildi eftir að þau eru tilbúin, en ég tel heppilegra að halda í almanaksárið, eins og nú er, og til þess er ekki önnur leið en að halda þingið að haustinu, eins og hv. 1. landsk. líka vék að, og er enda ekki frágangssök að halda þingið tvisvar á árinu, þannig að það byrjaði í febrúar, eins og er, og væri þá unnið að undirbúningi fjárl. með öðru, en þinginu síðan frestað til hausts og haldið þá áfram. Með þessu móti yrði þm. það mögulegt að sjá nokkurn veginn, hver orðið hefði afkoma líðandi árs, og eins hvers við þyrfti á komandi ári. Þetta mundi og skapa meira aðhald fyrir stj. um fjármálin, því að hún mundi ekki hafa eins frjálsar hendur um þau og hún hefir nú og þingið hefir neyðzt til að láta henni í té, vegna þess, hve fjárl. eru afgr. á óhentugum tíma. Hinar stærri þjóðir hafa að vísu þing sitjandi meiri hluta ársins, en ég býst ekki við, að horfið verði að því hér, enda er þess ekki þörf, en minna mætti á það, að danska ríkisþingið kýs ýmsar n., sem sitja milli þinga og stj. ber undir ýms mál, sem fyrir kunna að koma, og er framkvæmdum í þeim hagað í samráði við n. Hér hjá okkur hefir það stundum borið við, að slík mál, sem óvænt ber að og skjótra aðgerða þarf við um, hafa verið borin undir álit flokkanna, og hygg ég, að það sé hentara hér, og eins og ég áður sagði, teldi ég vel fara á því, að sá yrði tekinn upp að láta þingið byrja í febr. og þá unnið að undirbúningi fjárl., en þinginu síðan frestað til hausts og samninga þeirra lokið þá.