26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (3080)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Ingólfur Bjarnarson:

Það er ekki fyrirferðarmikið þetta frv., sem hér liggur fyrir, og eftir heim litla áhuga, sem komið hefir fram hjá flm. þess á því að skýra frv., þegar það hefir legið fyrir þinginu, bæði nú og að undanförnu, þá skyldi maður ætla, að hér væri ekki um mikið nýmæli að ræða. Því að það hefir nú verið svo, að þessu máli hefir venjulega verið reynt að lauma inn í d. umræðulaust, og þótt hv. frsm. talaði um, að það væri þrautrætt hér, þá er það mælt af ókunnugleika, því að venjulega hefir ekki verið sagt eitt orð um frv., þegar því hefir verið vísað í n., og lengra hefir það nú ekki komizt fyrr en nú.

Ég verð nú að líta svo á, og ég býst við allir þeir, sem athuga þetta mál, að hér sé um stórkostlega stefnubreyt. að ræða um ungmennafræðslufyrirkomulagið í landinu, ef að l. verður. Nú rétt nýlega hafa verið settir allmiklir lagabálkar um ungmennafræðslu í landinu, með l. um unglingaskóla í sveitum, frá 1929 að ég ætla, og 1. um gagnfræðaskóla í kaupstöðum, frá 1930. Og ég held, að mér sé óhætt að segja það, að til þessara lagabálka hafi verið mjög vel vandað og að þeir hafi byggzt á þeirri þróun, sem orðið hefir í skipun fræðslumálanna hjá okkur í seinni tíð og reynzt vel. En með stefnu þessa frv. virðist mér, að eigi að gerbreyta þeim grundvallaratriðum, sem nú gilda í fræslulöggjöf okkar, og má nefna ýmis dæmi þess. Fyrst vil ég þá minna á, að í l. þeim, sem ég nefndi áðan, er gert ráð fyrir, að þeir skólar, bæði héraðs- og gagnfræðaskólarnir, séu samskólar fyrir pilta og stúlkur, og ætlazt til, að aðstaða þeirra sé sem jöfnust til að geta notið þeirrar menntunar, sem þeir skólar hafa upp á að bjóða, og til þess veittur stuðningur ríkis og héraða að gera þessum ungmennum sem léttast fyrir fjárhagslega að sækja skólana. En hér eftir þessu frv. sé ég ekki betur en að það eigi að útiloka konur frá þessum skólum, og hinsvegar líka sýnilegt, að það eru lagðar miklu meiri byrðar á piltana, sem komast að þessum skólum en nú er, eða m. ö. o., kennslugjaldið er margfalt.

Ég skal nú finna þessum orðum mínum stað. Í gagnfræðaskólal. er ætlazt til, að helmingur nemendanna fái ókeypis kennslu, og mjög lagt skólagjald, sem hinn helmingurinn á að greiða. frá 20–40 krónur, og héraðsskólunum 60 krónur. En í þessu frv. er heimtað miklu hærra kennslugjald; það er heimtað, að þessir 18 ára piltar vinni í vikur að vorinu, kauplaust, og fyrir það fái þeir svo ókeypis húsvist og kennslu. Þetta mál auðvitað reikna misjafnlega mikið, eftir því á hvaða stað það er, en ef ég tek t. d. Reykjavík og geri ráð fyrir 7 vikna vinnu fullvinnandi manns — því að 18 ára piltur verður að teljast fullvinnandi maður — þá er ekki hægt að reikna þetta minna en 400 kr. En hvort sem maður reiknar þetta eða eitthvað annað, og þó maður lækki það töluvert, sem mun nú vera óhætt víða úti um landið, þá er það þó sýnilegt, að þessum ungmennum verður bundinn margfaldur baggi á við það, sem nú er. Má í raun og veru skoða þetta sem fullkomna útilokun fjölda ungmenna frá skólagöngu, að lokinni barnafræðslunni. Og í þessu er stefnumunur mikill, og að því, er ég tel, mjög óheppilegur, þar sem þau lög, sem nú gilda, gera ráð fyrir að létta þeim unglingum skólagönguna sem mest, sem ekki hafa ráð á að ganga á æðri skóla og hugsa sér að fá fræðslu, sem þessir lægri skólar veita, en þetta frv., sem hér liggur fyrir, stefnir að því að útiloka fyrst og fremst frá skólagöngu helming ungmenna, og leggja margfalt gjald á hina. Finnst mér það ákaflega einkennilegt, hversu þessir ágætu flm. málsins hafa sótt það fast ég meina miðað við það, hve lengi þeir hafa barizt fyrir þessari hugmynd, þó bardaginn hafi í raun réttri ekki verið harður, því að það hefir oft ekki verið talað eitt orð fyrir málinu, en reynt að lauma því til n. umræðulaust. Ég man nú ekki, hvað langt er orðið síðan þetta mál kom hér fyrst, en það mun ekki vera langt frá, að nú orðið megi fara að nefna það „7 ára stríðið“, því að árið 1926 kom fyrst út um það pési, og ég held frv. samhliða, en það má þó vel vera, að það hafi ekki þá komizt fyrir þingið. En það er samt orðinn æði langur tími, sem það hefir legið fyrir þinginu, og ég vildi óska, að það tæki nú að styttast í því, að þingið þyrfti að hafa þetta mál með höndum, og ég fyrir mitt leyti skal gera mitt til, að það megi nú takast.

Ég vík að því aftur, að það ber nokkurn vott um, hvað þeim flm. hefir verið annt um þetta mál, hvað þeir hafa verið þögulir um það og lítið gert til að skýra það. Það væri t. d. æskilegt, að þeir hefðu sýnt fram á þá miklu nauðsyn, sem liggur að baki þessu frv., t. d. þeirri að svipta konur öllum rétti til þessara skóla. Ég býst við, að sú nauðsyn sé ekki hverjum manni augljós, og sömuleiðis ekki sú að leggja þungann sem allramest á þá menn sjálfa, sem í skólana ganga, og létta honum af héruðunum, og enda ríkinu að sumu leyti. — Ég skal líka víkja að þeirri hlið málsins, sem veit að ríkinu, kostnaðarhliðinni, að því er ríkissjóð snertir. Eftir l. þeim, sem nú gilda um skólabyggingar, er ætlazt til þess um stofnkostnað gagnfræðaskólanna, að ríkið leggi fram 2/5 hans á móti kaupstöðunum, og um héraðsskólana, að það leggi fram 1/2 á móti héruðunum. En eftir þessu frv. er gert ráð fyrir, að ríkið sjái alveg um byggingu þessara skýla, þ. e. a. s. borgi allan kostnaðinn, bæði í kaupstöðum og eins í sveitum. Mér finnst satt að segja, að hv. flm. telji ríkið ekki í miklum vanda statt fjárhagslega, þar sem þeir telja gerlegt að leggja þennan bagga á ríkið. Og ég vil benda á, að þetta mundi koma allhart niður á því, sérstaklega til að byrja með, ef svo færi, að öll þau héruð, sem þegar hafa komið upp héraðsskólum hjá sér, gengju undir þessa heimild. Ég sé ekki betur en að ríkissjóður yrði þá að taka á sig þann helming byggingarkostnaðar þessara skóla, sem nú eru reistir, sem héruðin hafa lagt fram. Og ég held, að þessir skólar séu 5. Og eftir frv. er ekki gert ráð fyrir öðru en að ríkið láti byggja þessa skóla, þegar liggur fyrir um það hin tilskilda beiðni frá héruðunum, en eftir brtt. frá menntmn. á að taka upp í frv., að þetta skuli þó ekki gera, nema það sé tekið upp í fjárl. hverju sinni. Þetta er nú náttúrlega nær, en þó er grundvöllurinn sá sami, að ríkið ber stofnkostnaðinn allan, þegar byggt er, og sjálfsagt er ekki meiningin að hætta að byggja þessa skóla. Og þegar kemur að því að byggja gagnfræðaskólana í kaupstöðunum, sem nú liggur einmitt fyrir, verður það ríkinu allt þungur baggi, þar sem um allstórar byggingar er að ræða.

Ég sé nú enga ástæðu til að tala lengra mál um þetta frv. Mér finnst ræða hv. frsm. ekki hafa gefið mikið tilefni til þess. Hann dvaldi aðallega við brtt. þær, sem n. hefir borið fram og brtt. frá hv. þm. Borgf., sem mér fannst hann leggjast á móti. Ég geri ráð fyrir, að mótmæli hans gegn því fyrirkomulagi að láta lögin aðeins gilda fyrir Rangárvallasýslu séu sprottin af því, að hann hafi fundið, hverjum órétti ungmenni í hans sýslu yrðu beitt, ef þau yrðu tekin út úr og látin búa við það skólafyrirkomulag, sem hér er lagt til. Er ég honum alveg samdóma um það. Það væri það óréttlæti, sem ég gæti ekki greitt atkv. með, þótt það væri vitanlega sýnu nær en hin víðtækari heimild, sem felst í frv., þar sem gert er ráð fyrir, að hver og ein einasta sýsla og bæjarfélag geti látið ríkið byggja skóla, algerlega á ríkiskostnað.

Já, ég hefi ekki minnzt á það enn, en því má þó ekki gleyma, sem er talið svo geysilega mikilsvert af flm., að ríkið á þó ekki að kosta rekstur þessara skóla að neinu leyti. En hver á þá að reka þá? Jú, það er fundið ráð til þess líka. Kostnaðinn allan eiga nemendurnir að greiða. Því að eins og ég hefi getið um, er það í riti því, sem ég nefndi áðan, sá rauði þráður, sem gengur gegnum allt þetta mál, að létta fræðslukostnaðinum af héruðunum og láta sumpart ríkið og sumpart unglingana sjálfa greiða hann, en gjaldendurnir eiga sem allra minnst að leggja á sig til þessara hluta. Þetta getur náttúrlega verið álitamál, en frá mínu sjónarmiði er þetta fordæmanleg stefna. Og ég get varla skilið, að hv. þm. yfirleitt finnist þetta heppilegt eða vilji breyta núgildandi ákvæðum í þetta horf. Vil ég leyfa mér að koma með rökst. dagskrá, sem ég skal lesa upp og hljóðar svo:

„Þar sem frv. það, sem hér liggur fyrir, kemur í mörgum höfuðatriðum í beinan bága við grundvallaratriði gildandi l. um ungmennafræðsluna í landinu, bægir konum meðal annars frá því að njóta hennar og margfaldar kennslukostnað nemendanna, en stefnir þó jafnframt að stórauknum stofnframlögum ríkisins til héraðsskólanna og gagnfræðaskóla í kaupstöðum, telur d. með öllu ófært að ganga inn á þá stefnu, sem frv. skapar, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég vildi með þessari dagskrá stefna að því, sem ég lofaði áðan, að gera mitt til að koma þessu máli út úr þinginu, og vona, að mér megi takast það og að svo margir hv. þm., sem nægir, muni stuðla að því með því að samþ. þessa dagskrá.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en það getur vel verið, að ég taki aftur til máls, ef tilefni gefst til þess.