26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (3086)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Halldór Stefánsson:

Ég get ekki látið alveg hjá líða að víkja að einstökum atriðum í svarræðu hv. frsm. Hann sagðist ekki geta hugsað sér mikið ósamræmi á milli skoðana hinna eldri kjósenda og unglinganna í sama héraði, eða að það skólaskipulag, sem samþ. væri af miklum meiri hl. eldri kjósenda, yrði í andstöðu við unga fólkið í héraðinu, skoðanir þess og vilja. En það þarf ekki annað en að líta á aðstöðumun aðilja til að skilja þetta. Þessar kvaðir, sem gert er ráð fyrir í frv., koma ekki niður á fullorðna fólkinu, sem á að lýsa afstöðu héraðsbúa til málsins með atkv. sínum. Hinsvegar getur það á engan hátt skuldbundið unglingana til að ganga undir þessar kvaðir, og málið er ekkert borið undir þá, sem mestan hlut eiga að mál:. Og það er ekki nema eðlilegt, að unglingarnir líti öðruvísi á þessar kvaðir en eldra fólkið. Sjónarmiðin eru gerólík. Ég held, að hv. frsm. hafi ekki enn gert sér það ljóst, hversu miklu meiri kvaðir eru með þessu lagðar á ungu mennina í þeim bæjum og héruðum, þar sem þetta yrði lögtekið, heldur en á öðrum stöðum, sem ekkert slíkt skipulag hefðu. Hv. þm. sagði, að ráð væri engin þegnskylda að inna af höndum þær kvaðir, sem fullt endurgjald kæmi fyrir, en þannig yrði útkoman samkv. uppástungu minni. Það má til sanns vegar færast. Ég ætla þeim ekki meiri vinnukvöð en sem svarar því, sem þeir eiga að fá í staðinn, húsvist og kennslu, m. ö. o. skólagjald, sem ég ætla, að nemi um 60 kr. á mann yfir veturinn. En eigi nemendur hinsvegar að leggja fram 7 vikna vinnukvöð, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá er ekki hægt að meta þá kvöð minna en 200–300 kr. fyrir hvern ungling. Og minnsti mismunur á þessum upphæðum — 60 kr. og 200 kr. — er 140 kr. — Það er hreint ekki svo lítil kvöð.

Hv. frsm. sagði, að með brtt. meiri hl. n. væri séð fyrir því, að ríkissjóði yrði enginn bagi að því, þó að skólahús stæðu tóm. Það kann nú að vera rétt að vissu leyti, en það er ekki öllu borgið fyrir það, þó að ríkissjóður kunni að fá stofnfjárframlag sitt endurgreitt, því að þá fá veslings héruðin og bæjarfélögin að borga brúsann og leysa út þennan óþarfaskatt á 40 árum. Það skiptir ekki miklu máli, hvort það verða héruðin eða ríkissjóður, sem fá skellinn. Það er skaði eigi að síður. En það mætti líka hugsa sér, að þegar héruðunum væri farið að leiðast að svara út þessum greiðslum, þá myndu þau telja, að Alþingi ætti líka að nokkru leyti sök á þessu, þar sem það hefði heimilað, að í þetta væri ráðizt, og þá kynnu héruðin að óska eftir því, að þingið léti slíkar endurkröfur falla niður. Þess eru mörg dæmi, að héruð og stofnanir hafi farið fram á eftirgjafir á skuldum og skuldbindingum gagnvart ríkissjóði.