26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (3088)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. S.-Þ. kvartaði yfir því, að málið hefði lítið verið rætt af flm. frv. En hv. þm. hefir þó sjálfur sannað, að þetta er ekki rétt, því að hann hefir nú sjálfur verið að bera hér á borð „gamlar lummur“ frá fyrri ára umr. um málið, sem sýnir, að um það hefir verið rætt af flm. þess.

Þó þetta mál sé orðið gamalkunnugt í þinginu, þá vil ég samt segja nokkur orð, áður en það fer til atkvgr. Ég verð þá, eins og hv. þm. Seyðf. líka gerði, að láta í ljós undrun mína yfir þeim viðtökum, sem þetta mál fær. Það er engu líkara en að hér sé eitthvað stórhættulegt á ferðinni, svo mikill virðist óttinn við málið vera. Maður gæti hugsað sér eitthvað svipaðan ótta hjá sumum mönnum, ef þetta frv. væri t. d. um það að skylda sýslufélögin til að fara að brugga „Íslending“, eða þá að veita ætti heimild um að undanþiggja börn í heilum sýslum námi í skrift og lestri. Einhver slík býsn gæti maður hugsað, að hér væru á ferðinni, sem nauðsyn væri að standa fast á móti, eftir þeirri dagskrá, sem fram er borin. En þetta er þá hvorki meira né hættulegra en það, að allir unglingar, að vísu ekki kvenmennirnir, sem náð hafa fermingaraldri, eiga að fá skólavist í einn vetur gegn því framlagi að vinna sjó vikna tíma að vori eða sumri. Hér er því fyrst og fremst um bóklegt nám að ræða. En ég hefi a. m. k. skilið þetta mál svo, að hér væri líka um verklegt nám að ræða í þennan 7 vikna tíma, sem sagt bóklegt nám í 6 mánuði og verklegt nám í 7 vikur. Ég held því, að ef nokkurt frv. ætti skilið að fá nafn, sem vottaði verðmæti þess, þá ætti þetta að heita „ræktun lýðs og lands“. — Ég sé því ekki, að þeir, sem vilja berjast fyrir þeim málum, sem fósturjörðinni eru til mestra heilla, geti lagzt á móti þessu máli.

Hv. frsm. hefir nú svarað einstökum atriðum allrækilega. Þarf ég því ekki að fara verulega út í þau.

Það hefir mikið verið talað um óbilgjarnar kröfur, sem lagðar væru á herðar unglinganna. Þetta má í fljótu áliti virðast svo. En þess má þó gæta, að ekki er hægt að greina verulega í sundur fjárhag unglinga og aðstandenda þeirra. Í rauninni myndi því þetta koma á eldri mennina engu siður. Hv. frsm. hefir nú þegar svarað þeirri aths., að þetta yrði þung kvöð fyrir ríkissjóð. Hann hefir sýnt fram á það, sem er alveg rétt, að þar sem héruðunum er ætlað að halda uppi öllum starfskostnaði vegna skólanna, þá er það miklu minna, sem ríkissjóði er ætlað, þótt hann leggi til stofnkostnaðinn, heldur en hann verður að greiða með núverandi fyrirkomulagi skólamálanna. Ef þetta kemst í framkvæmd, þá eru héruðunum lagðar stórar byrðar á herðar. En það er hart, ef héruðin óska einhuga eftir þessu fyrirkomulagi, að þing og ríkisvald vilji ekki veita þeim aðstoð sína til að koma því í framkvæmd.

Það hefir mikið verið talað um réttlætismal á þessu þingi. Hér er nú um eitt réttlætismálið að ræða í viðbót. Vil ég fastlega óska þess og vona, að hv. þm. sýni réttan skilning á því og góðan hug sinn til þess. Ég á bágt með að trúa því, að þingið vilji ekki leyfa hverju því héraði að koma þessari skólaskipan á hjá sér, sem samþykki það með yfirgnæfandi atkvæðum héraðsbúa.