26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (3095)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það á ekki rót sína í skipulagi unglingaskólanna, að þeir eru ekki eins vel sóttir nú eins og æskilegt væri. Skólana sækir ekki nema lítill hl. af unga fólkinu. (SvbH: Hvers vegna?). Það er af ýmsum ástæðum. Sumir kæra sig ekki um að stunda frekar nam, sumir komast ekki frá heimilum sínum og sumir geta ekki verið í skólunum vegna fjárskorts. Úr þessum hlutum er ekki hægt að bæta, nema ríkið taki á sig miklar byrðar umfram það, sem nú er. Og ég er þeirrar skoðunar, að ekki sé enn tímabært að fyrirskipa almenna skólaskyldu unglinga. Það þarf að líða töluverður tími frá því, að mönnum er gefinn kostur á að njóta framhaldskennslu og þangað til allir eru skyldaðir til að nota hana.

Mér virðist því, að við séum ekki ennþá komnir á það stig að fyrirskipa skólaskyldu unglinga. Þetta er skýringin á því, að skólarnir eru ekki fullir og að við eigum ekki að fara þá leið að þvinga unglingana til þess að sækja skólana, gegn vilja þeirra sjálfra og án tillits til heimilisástæðnanna, nema þá því aðeins, að ríkið sjái sér fært að leggja fram til skólanna stórum meira fé en nú, t. d. helmingi eða þrefalt meira.