29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

140. mál, fækkun prestsembætta

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefi ég gert mér það ómak að skrifa alllanga og ýtarlega grg. fyrir þessari till. Vakti fyrir mér að verða sem minnst valdur að því að rugla sálarrósemi trúaðra manna, er kynnu að halda, að hér væri um trúarofsóknir að ræða. Að vísu hefir þrátt fyrir það verið á það minnzt í hinu kristilega dagblaði, Morgunblaðinu, að efni till. sé ættað frá Rússlandi, og sama hefir verið gert í jafnkristilegu vikublaði, er söfnuðurinn á Njálsgötu 1 stendur að, en við slíkt get ég ekki verið að eltast. Ég mun því spara mér langa framsögu, enda vil ég lýsa yfir þegar í upphafi, að ég mun ófáanlegur til í sambandi við till. að rökræða trúarskoðanir mínar og gildi trúarbragða yfirleitt, og raunar mun ég ekki heldur ræða gildi kirkjunnar á Íslandi sérstaklega.

Frá mínum bæjardyrum séð er hér eingöngu um veraldlegt mál að ræða: hve marga embættismenn þurfi til þess að gegna þeim störfum, sem prestar hafa með höndum, og hvort ekki megi fela sumt af þessum embættisverkum, hin sérstaklega veraldlegu verk, öðrum mönnum, er rækt geti þau með litlum tilkostnaði ásamt öðrum störfum.

Í kaþólskum sið munu hafa verið flestir prestar hér á landi um 240, að því er mér er tjáð, en um 1877 er tala þeirra komin niður í 170. Hér er að vísu um alllangan tíma að ræða, en fækkunin er líka allveruleg. Þá minnir mig, að nefnd væri skipuð af stj. 1877 til þess að gera till. um fækkun prestakalla. Sú n. lagði til að fækka þeim niður í 141, og var það samþ. á Alþ. árið 1880. Voru svo gerðar ýmsar breyt. á næstu árum um skipun prestakalla, en um aldamót, eða árið 1903, er tala prestakalla 142. Þá er skipuð mþn. í kirkjumálum eftir ályktun synodusar, er beiðzt hafði „hagfelldrar skipunar prestakalla“ og álitið, að prestum mætti fækka. Ennfremur hafði prestafundur í Hólastifti sent ályktun um sama efni, þar sem óskað var eftir „hóflegri fækkun prestakalla“.

Ég ætla til fróðleiks að nefna þá menn, sem fluttu till. um skipun mþn. í kirkjumálum á þinginu, svo að allir megi sjá, að það voru engir guðníðingar. Menn þessir voru sem sé Hallgrímur Sveinsson þáv. biskup, Sigurður prestur Jensson í Flatey og Kristján Jónsson, síðar dómstjóri hæstaréttar. En í mþn. voru þeir skipaðir: Kristján Jónsson, Lárus H. Bjarnason sýslumaður, prestaskólakennararnir Jón Helgason, núverandi biskup, og Eiríkur Briem, og loks Árni prestur Jónsson á Skútustöðum. Þessi n. gerir till. um að fækka prestaköllum úr 142 niður í 112, og á Alþ. 1907 er svo ákveðið með l., að prestaköllin skuli vera 105.

Til fróðleiks má geta þess, að Hallgrímur biskup Sveinsson hefir þau orð um fækkun prestakalla, er hljóða svo: það „hafa komið fram raddir um að fækka prestaköllum landsins að stórum mun, og mætti það ef til vill að nokkru skaðlausu ... ef þeir (þ. e. prestarnir) yrðu losaðir við fræðslu barna, skýrslur og annað þessháttar, þá mætti fela þeim stærra verksvið og víðari verkahring“.

Þetta mætti ekki neinum verulegum mótmælum, og sumir þáv. þm. voru sömu skoðunar og ég nú, að prestum mætti fækka mjög mikið. Einn, dr. Valtýr Guðmundsson, lét þannig á sér heyra, að óhætt mundi að fækka prestum um helming. Þar sem ég hefi nú borið fyrir mig fyrrv. biskup, sem leit svo á, að fækka mætti prestum að skaðlausu, og núv. biskup, sem féllst á þetta líka, þá finnst mér afsakanlegt og þurfi ekki að eiga rætur í neinum trúarofsóknum, þó að stungið sé upp á því nú að fækka prestum enn að einhverju leyti.

Ef hægt var á sínum tíma, þó að langt sé þangað að líta, að fækka prestum úr 240 niður í 170 og þótti vel fært 1880 að fækka þeim úr 170 niður í 141 eða 2 og aftur 1907 úr 142 niður í 105, þá finnst mér a. m. k., að vel sé athugavert nú, hvort ekki sé fært að fækka prestum enn meira. Eins og kunnugt er, hefir landið mjög gengið saman á síðari árum vegna hættra samgangna. Nú eru víða komnir akfærir vegir, stórar brúaðar, sem skáru sundur sveitir og héruð og bönnuðu allar samgöngur, bifreiðar þjóta um allar jarðir, vélbátar um firði og með ströndum fram, svo að allar vegalengdir eru að hverfa og verða að engu í samanburði við það, sem áður var, auk þess sem sími er nú lagður um allt land, að ógleymdu útvarpinu; sem leggja mun undir sig landið á næstu árum. Ég býst við, að ef allt þetta hefði verið komið á um 1880, þá hefðu verið gerðar till. um meiri fækkun presta, og ég er sannfærður um, að ef sama ástand hefði verið 1907 og nú er, þá hefðu verið gerðar till. og samþ. um víðtækari samfærslu prestakalla en þá var gert, og prestum fækkað miklu meira.

Ef ekki má fækka prestum nú, þá er það af því, að þeim hefir fjölgað, sem kunna að meta kirkjuna, og að gerðar eru meiri kröfur til hennar en áður. M. ö. o. þá hefir vaxið meira eftirspurn eftir prestsþjónustu en nemur því, sem landið hefir gengið saman við bættar samgöngur. En þessu fer mjög fjarri, því að fullyrða má, að aldrei hafi gengið meira saman tala þeirra, sem krefjast prestsþjónustu, en á þessu tímabili. Það er vitanlegt, að þeir verða með hverju ári fleiri, sem ekkert kæra sig um prestlega þjónustu, eins og berlega sýnir sig víða úti um land. Þar situr nú fjöldi „skikkanlegra“ presta við aðgerðarleysi og litla sem enga kirkjusókn, og hafa þeir lítið annað að gera en að skíra börn, gefa saman hjón, jarða fólk og þessháttar. Að öðru leyti krefst almenningur mjög lítils af þeirra hendi, og þær kröfur hafa áreiðanlega aldrei verið minni en nú og fara enn minnkandi.

Í þessu sambandi vil ég minna á, hvernig ástatt er í Rvík. Á þeim tíma, sem tala presta hefir verið þar óbreytt, kirkjum ekki fjölgað og engar raddir heyrzt kvaka í þá átt, hefir tala bæjarbúa a. m. k. ferfaldazt. Ef prestum úti um land væri fækkað um ¾, eins og ég læt liggja orð að og ég býst við, að sumum virðist nokkuð freklega í farið, þá yrði fækkunin þó ekki meiri en í samræmi við það, sem í raun og veru hefir átt sér stað í Rvík þegjandi og hljóðalaust.

Þetta ástand í Rvík er því eftirtektarverðara fyrir það, að hér munu saman komnir ekki hvað minnstir áhugamenn um þessi mál. Hér er m. a. heimatrúboð, sem er hvergi annarsstaðar á landinu. Hér er mjög kristilega sinnuð bæjarstjórn og þaðan af kristilegri borgarstjóri, hér er K. F. U. M. í miklu veldi o. fl. o. fl. Þó hafa aldrei heyrzt hér kröfur um fjölgun presta. Þetta hygg ég að sé viðurkenning af hálfu þessa kristilega fólks á því, að óþarft sé, að prestar séu yfirleitt fleiri en ég hefi stungið upp á í grg. till. minnar.

Reykjavíkurvaldið hefir a. m. k. nú til skamms tíma mátt sín svo mikils hér á þingi, að ekki er því um að kenna, að vonlaust hafi þótt að bera slíka kröfu fram.

Ég vil biðja hv. prestaskólakennara, sem á sæti í þessari hv. d., fyrirgefningar á því, að ég skyldi ekki áðan minnast á það, að hér í Rvík er prestaskóli, sem flestum öðrum aðiljum fremur hefði haft ástæðu til að gangast fyrir þessari kröfu, ef honum hefði þótt hún eiga rétt á sér. En það er síður en svo, að hann hafi gert það. Ég hefi aldrei orðið var við, að frá guðfræðideild háskólans hafi komið nokkur krafa um fjölgun presta í Rvík, og slík krafa hefir áreiðanlega aldrei þaðan komið.

Það eru aðrar kröfur, sem hafa verið miklu háværari hér í bænum, og þeim tek ég þátt í með hinu kristilega fólki, en það er, að Rvík fái nokkra mismunandi vel kristna þm. til viðbótar þeim, sem þeir hafa nú. Þess er raunar krafizt í Rvík, að starfsmönnum fjölgi við allar stofnanir — nema við kirkjuna. Og þeim fjölgar jafnt og þétt, eins og eðlilegt er, því að heita má, að allar stofnanir séu í örum vexti og viðgangi — nema kirkjan.

T. d. hefir tala lækna í Rvík a. m. k. tífaldazt á síðustu árum. Prestarnir einir hafa staðið í stað.

Ég vil vara hv. þdm. við að rugla saman till. sjálfri og grg., sem henni fylgir. Till. sjálf er einstaklega gætilega orðuð og aðgengileg til samþykktar. Þar er ekki farið fram á neitt annað en það, að stj. undirbúi og leggi fyrir næsta þing frv. til laga um að fækka prestsembættum til mikilla muna frá því, sem nú er, og að hún undirbúi og leggi fyrir þingið annað frv. um verzlegar nafngiftir barna, hjónavígslur og útfarir. Hitt er aðeins lausleg getgáta mín, að prestum megi þá fækka um 2/3, án þess að fólk þurfi þar fyrir að missa nokkuð af því, sem krafizt er af þeim. Miða ég þá við það, að óþarfi sé að hafa presta fleiri en lækna. Annars mundi þetta fyrst koma til álita, eftir að stj. hefði rannsakað málið á þeim grundvelli, er till. gerir ráð fyrir. Sú hugmynd, sem ég hefi gert mér um viðunandi fyrirkomulag á verzlegum nafngiftum, hjónavígslum og útförum og leyft mér að bera fram, er einnig mjög lausleg, og má vel vera, að koma mætti því miklu betur fyrir. Það eru því eindregin tilmæli mín til hv. þdm., að þeir átti sig vel á því, að með því að greiða till. atkv. eru þeir alls ekki að binda sig við þá miklu fækkun prestsembætta, sem ég læt liggja að, að framkvæmanleg sé, né heldur það form, sem ég hefi stungið upp á, að hafa mætti á verzlegum nafngiftum, hjónavígslum og útförum. Þær uppástungur eru byggðar mjög lauslegri athugun og eingöngu bornar fram sem tilraun til að sýna fram á, að hægt sé að koma þessu svo fyrir, að það hneyksli hvorki trúaða né vantrúaða, sem eru mér í þessu sambandi allir jafnkærir.

Ég vil ekki láta vera að minna á það, að uppástunga mín um að taka hin verzlegu verk af prestum er alls ekki frumleg. Hún hefir meira að segja heyrzt hér á Alþingi fyrir mörgum árum. Í nál. kirkjumálanefndarinnar, sem starfaði 1903–1907, er þetta tekið til athugunar, og eins og ég hefi áður sýnt fram á, getur þar ekki verið um neina óvináttu að ræða til kirkjunnar og hennar mála. Í þessu nál. segir svo:

„Formaður býst enda við, að fækka mætti prestum talsvert frekar, ef af þeim væri létt ýmsum störfum, sem í rauninni eru ekki prestlegs eðlis, svo sem giftingar, greftranir og manntal. Þessi tillaga gat ekki komið til umræðu vegna naumleika tímans, en hennar er getið til að vekja athygli Alþingis og stjórnar á atriði þessu, sem þegar hefir rutt sér til rúms í mörgum lútersk-kristnum löndum og a. m. k. alstaðar er á dagskrá“.

Ég hygg, að ég fari ekki villt í því, að það sé núv. biskup, sem hefir orðað þessa bendingu til stjórnar og Alþingis, a. m. k. er orðalagið einkar líkt hans orðalagi.

Ég er því ekki einn um að álíta, að það að gefa börnum nöfn, að tengja saman hjón og að varpa á dauða menn moldu geti ekki sérstaklega talizt verk prestanna. Þetta eru allt veraldleg störf. Að vísu má jafnframt þeim viðhafa ýmsa helgisiði, en það á engum að meina, þó að frv. í þessa átt verði samþ. Raunar ættu trúaðri prestar að vera á móti því að viðhafa sérstaka helgisiði í sambandi við nafngiftir barna, hjónavígslur og útfarir, ef aðstandendur kæra sig ekkert um slíka helgisiði. Alvarlega trúuðum prestum ætti ekki að vera það eftirsóknarvert að lesa guðsorð við nafngiftir barna, nema þegar þeir eru að vinna fyrir fólk, sem óskar eftir helgisiðum án tillits til þess veraldlega atriðis, að börnunum eru löglega gefin heiti og þau skráð í bækur. Annað er skrípaleikur og jafnvel guðlast.

Prestar, sem telja vilja sig trúaða, ættu því sízt að vera á móti uppástungu minni. Þessi verk þeirra yrðu að vísu færri, en þau yrðu hátíðlegri og sennilega guði þóknanlegri en þau eru nú. Óhætt má fullyrða, að mjög margir — ég hygg mikill meiri hluti manna — láta viðhafa þessa helgisiði aðeins fyrir siðasakir og óska einskis annars en þess veraldlega, sem siðasakirnar hafa í för með sér. Og getur engum verið þetta ljósara en sjálfum prestunum.

Ég mun ekki fara miklu fleiri orðum um þetta mál, en aðeins minna hv. þdm. á, að nú er mikill sparnaðarandi í mönnum. Hér koma hvað eftir annað fram mjög eindregnar óskir og jafnvel ákveðnar tillögur um að fækka starfsmönnum ríkisins til mikilla muna frá því, sem nú er. En þessar óskir eru ekki líklegar til að rætast, þegar farið er fram á fækkun starfsmanna við þær starfsgreinar og stofnanir, sem eru í hröðum vexti, sem sífellt er verið að gera meiri kröfur til og leysa af hendi meiri og erfiðari störf með hverju ári, sem líður. Ef mönnum er alvara með sparnaðarskraf sitt, ættu þeir að gefa gaum að till. minni. Hér er um þá stofnun að ræða, sem sannanlega er að dragast saman. Ég er ekki í neinum vafa um, að með nokkurri athugun geta menn auðveldlega sannfært sig um, að prestum má vel fækka um helming eða 2/3 hluta, svo mikið, að prestar og læknar verði jafnmargir, án þess að neinum þeim, sem óskar eftir störfum presta, sé á nokkurn hátt misboðið.

Ég vil því sérstaklega biðja sparnaðarmenn þessarar hv. d., sem oftast bera fram óskir um, að starfsmönnum sé fækkað, að taka þetta mál til rækilegrar athugunar. Ef einhversstaðar er hægt að spara í starfsmannahaldi, þá er það hér.

Um leið vil ég minna þá, sem bera hag kirkjunnar sérstaklega fyrir brjósti, á það, að kirkjan á ekkert að líða við þetta, heldur þvert á móti. Aukaverk presta verða að vísu nokkru færri, en aftur á móti hátíðlegri, eins og ég gat um áðan. Þá er á það að líta, sem öllum er kunnugt, að kirkjan sem stofnun setur niður við það, hve illa starfsmenn hennar eru launaðir. Það væri þess vegna athugandi fyrir kirkjunnar menn, hvort ekki væri betra að spara nokkurt fé með því að fækka prestum og nota síðan eitthvað af þeirri upphæð, sem sparaðist, til þess að bæta kjör þeirra, sem eftir yrðu, svo að þeir gætu betur en áður starfað að því, sem þeim er sérstaklega ætlað.