29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3100)

140. mál, fækkun prestsembætta

Sveinbjörn Högnason:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um þessa till., þó að svo hafi farið, að ég hafi nú kvatt mér hljóðs.

Við kirkjunnar menn, sem viljum starfa fyrir hana og trúum á, að hún hafi gott verkefni að vinna með þjóðinni, erum orðnir svo vanir í seinni tíð að fá ómilda dóma og heyra gert lítið úr þessari starfsemi, að við erum hættir að taka okkur það nærri. Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, er sprottin af slíku áliti á starfsemi kirkjunnar, að hún sé yfirleitt þjóðinni einskis nýt og þar af leiðandi eigi að þyngja kosti hennar sem frekast er unnt. Nú veit ég þó, að það hlýtur hver sanngjarn maður að viðurkenna; að ekki sé hlúð svo vel að kirkjulegri starfsemi í þessu þjóðfélagi, að ástæða sé til að kreppa þar að meira en orðið er, ef hún á annars nokkurn tilverurétt eða hefir nokkurt hlutverk af hendi að inna. Ég skal svo víkja nokkrum orðum að þeim helztu ástæðum, sem hv. flm. færði fram sínu máli til stuðnings.

Hv. flm. tók fyrst fram, að hann væri ekki á neinn hátt að gera lítið úr kirkjulegri starfsemi í landinu, en þó er jafnframt farið hörðum orðum um hana í grg. og hversu gagnslaus hún sé orðin. Hann minnist ennfremur á það, að þetta væri fyrir sér eingöngu veraldlegt atriði, en alls ekki trúarlegt. En ég verð að segja það, að ég hefi frá því fyrsta skilið það svo, að yfirleitt væri kirkjan andleg stofnun fyrst og fremst, og starfsemi hennar væri fyrst og fremst bundin við það, sem andlegt er, og sú skoðun kemur þá einnig fram í grg. till. hjá hv. flm. sjálfum. Og ef það er því ekki sú andlega starfsemi, sem hann stílar þessa þáltill. sína til, þá veit ég ekki, hvað hann fer með henni. Nei, af grg. frv. og framsöguræðu hv. flm. sjálfs er ljóst, að þessu er eingöngu beint að kirkju og kristindómi í landinu, og þar af leiðandi ekki eingöngu veraldlegt fyrirkomulagsatriði, eins og hann vildi vera láta. Þó kastaði fyrst tólfunum, þegar hann kom með þau rök, sem hann segir, að liggi fyrir því, að hann ber fram þessa till. Þegar maður les grg. með gaumgæfni, þá koma mótsagnirnar berlega í ljós, og eins, ef flutningsræða hans er athuguð.

Fyrstu rökin, sem hann færir fram, eru þau, að þetta sé vegna sparnaðar. Nú á tímum sé svo mikill sparnaðarhugur í mönnum, að sjálfsagt sé að fækka prestum og spara með því nokkuð af því fé, sem lagt er til kirkjulegrar starfsemi. En svo kemur fram síðar í grg., að þetta sé æskilegt fyrir þá kirkjulegu starfsemi, því að þá sé því hægara að vanda til þeirra, sem gerast starfsmenn kirkjunnar, og búa betur að þeim. M. ö. o., að það, sem sparast við fækkun prestsembætta, eigi að nota til að bæta kjör þeirra, sem eftir verða í því starfi, og svo hefir mér líka skilizt á hv. flm. af samtali við hann um þessi efni. En fyrst hann vill láta fara þannig að, þá get ég ekki séð, hver sparnaðurinn er, ef það, sem í fljótu bragði virðist sparast við fækkun prestsembætta, á að fara til þeirra, sem áfram eru í sínum embættum, til að bæta kjör þeirra og vanda betur til undirbúnings þeirra. Það er alveg víst, að ef prestum væri fækkað um helming, þá mundi vegna ferðalaga aukast svo mikið starf þeirra, sem eftir væru, að það væri ekki of mikið, að þeir fengju laun sín hækkuð til helminga, ef kjör þeirra ættu að vera hin sömu sem nú, hvað þá ef ætti að bæta þau að mun, og verð ég að segja, að þá er sparnaðurinn ekki mikill. Mér virðist miklu réttara í þessu máli, að kirkjan sé látin sjálf um það, hvort hún vilji láta fækka starfsmönnum sínum og launa þá hinum þeim mun betur. Þetta er miklu fremur mál kirkjunnar en þingsins, að skera úr um það, hvort heppilegra sé, og því á þingið ekki að vera að grípa hér fram í gegn vilja hennar.

Önnur höfuðröksemd hv. flm. fyrir fækkun prestsembætta var, að búið væri að fækka svo mikið áður; þess vegna væri meiri fækkun sjálfsögð. Ég get nú ekki vel skilið þá röksemd, að ef búið er fyrir skömmu að fækka mikið starfsmönnum við einhverja stofnun, þá sé sjálfsagt og réttmætt að fækka ennþá meira, og verð ég því að láta aðra meta hana.

Hv. flm. fór mörgum orðum um það, að óskir hefðu komið um hóflega fækkun presta, jafnvel frá kirkjulega sinnuðum mönnum eftir aldamótin, þegar milliþinganefndin í kirkjumálum var skipuð þá. Þá voru þær óskir uppfylltar og það svo rækilega, að á síðari árum varð sumstaðar að fjölga aftur, eins og hv. flm. mun kunnugt um, því að það var gert þar vestra í nágrenni við hann. Nú mun því lítið af slíkum óskum hafa heyrzt frá kirkjunnar mönnum, og ætti það því að vera hv. flm. bending um það, að þessi íhlutun hans er ekki að þeirra vilja.

Þá vildi hann halda því fram, að yfirleitt skipti fólk sér svo lítið af þessu starfi, að engin ástæða væri til fyrir almenning að hlúa að því. Ég ímynda mér, að ef litið er á þetta með sanngirni, þá sjái hver maður, að þau störf eru fá, sem harðara er dæmt um en einmitt þau störf, sem prestarnir leysa af hendi. Engin stétt landsins er meira undir eftirliti og dómfýsi almennings en einmitt þeir menn, sem vinna að þessum andlegu málum í landinu, og bendir það ekki til þess, að fólk láti sér í léttu rúmi liggja, hvernig þau störf eru unnin.

Hv. þm. minntist á það, að hér í Reykjavík væru engar kröfur um fjölgun presta. Ég hygg, að þetta sé af ókunnugleika mælt, því að það hefir verið um það talað að fjölga hér prestum og reisa nýja kirkju. Það er sterk hreyfing hér í bæ að hefjast handa í því efni, og hefir nú þegar verið gert allmikið til að hrinda því í framkvæmd. Hér er því ekki að öllu rétt með farið hjá hv. flm. Hann minntist á, að hér væru mörg kristileg félög og samtök utan sjálfrar kirkjunnar. En það er einmitt vegna slíks félagsskapar, að það hefir hingað til getað gengið, hvað kirkjur og prestar eru fáir. Það er vegna þess, að hér er ýmiskonar félagsskapur, sem vinnur að kirkjumálum og kristindómi, sem ekki er hægt í strjálbýli úti um landið. Þetta sannar því hið gagnstæða við það, sem hann vildi vera láta.

Þá talaði hv. flm. um það, að engin ástæða væri til, að prestar væru fleiri en læknar; þeir ættu að vera þess megnugir að ferðast um jafnstór svæði og læknarnir. Þetta er einnig af ókunnugleika mælt hjá hv. þm., því að prestar geta ekki leyst starf sitt af hendi án undirbúnings eins og læknarnir. Þeir geta ekki farið af stað í ferðalag fyrirvaralaust til prestsstarfa án þess að hafa búið sig neitt undir, en eins og hv. þm. veit, þurfa læknar engan slíkan sérstakan undirbúning. Ég hygg, þó að talað sé um það nú, að margt sé þunnmetið hjá okkur prestunum, þá verði ekki breyting til batnaðar, ef prestarnir fá ekki næði til að undirbúa sig, en verða að vera stöðugir ferðalangar, því að það verður til þess, að þeir hafa hvorki tíma né næði til að undirbúa sig vel í því starfi, sem þeir eiga að leysa af hendi.

Það má vel vera, að starfssvið presta úti um sveitir landsins mætti vera víðara. En þá á að láta prestana vinna meira að fræðslumálum eins og áður var gert, en halda ekki áfram á þeirri braut að draga fræðsluna meira og meira úr höndum þeirra og stofna svo vegna fræðslunnar ný embætti, sem eru miklu dýrari, svo að þjóðinni verður um megn að standa undir öllum þeim útgjöldum framvegis. Ég er sannfærður um, að prestarnir eru yfirleitt vel fallnir til að hafa uppeldi og alþýðufræðslu með höndum, og ég er viss um, að það á að fá þeim fræðsluna í hendur meira en gert hefir verið nú á síðari árum.

Annars verð ég að segja það, að ef slíkar sendingar sem þessi eiga oft að koma frá Alþingi í garð kirkjunnar, þá fer að verða ástæða fyrir þá, sem unna starfi hennar og vilja hlúa að því, að athuga, hvort það sé vert fyrir kirkjuna að vera lengur í svo nánu sambandi við ríkisvaldið sem. verið hefir til þessa. Undir mörgum kringumstæðum væri miklu æskilegra fyrir starfsmenn kirkjunnar, að hún ynni ein sér og væri sjálfstæðari en nú er heldur en að eiga svo og svo mikið undir þeim löggjöfum, sem sýna henni ekki meiri skilning eða velvild en hv. flm. þessarar till.

Ég vil biðja hv. þdm., þá, sem mest eru hér að hugsa um sparnaðinn, að athuga vel, að það er vafasamt, hversu mikill sparnaður yrði að þessu fyrir þjóðfélagið, ef til slíks skilnaðar kæmi. Það er enginn efi, að ef reikningarnir væru gerðir upp á milli ríkis og kirkju, þá gætu komið fram margar kröfur, sem kirkjan ætti á hendur þjóðfélaginu um ýmislegt, sem það hefir lagt undir sig af fjármunum kirkjunnar á undanförnum árum, — og það gætu orðið upphæðir, sem kæmu við kaun sumra sparnaðarmannanna að greiða. — Vona ég, að þeir athugi einnig vel þessa hlið málsins, áður en þeir láta ginnast af sparnaðarblekkingum þessarar tillögu.