29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3101)

140. mál, fækkun prestsembætta

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess, að þau orð, sem ég mæli hér, koma eingöngu frá mínu eigin brjósti. Ég tala hér sem þm. Str., en ekki fyrir hönd stj. Stj. hefir ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til þessarar till., og það, sem ég segi hér, er því aðeins mín persónulega skoðun á því máli, sem till. fjallar um.

Hv. þm. Ísaf. hefir á þessu þingi, sem er annað þingið, sem hann situr, borið fram margar till. og mörg frv., og hefir mörgum þeirra verið tekið mjög vel í þessari d. Hv. þm. hefir einkanlega borið fram frv., sem snerta hans starfssvið. Hann hefir af miklum myndarskap, að því er ég álít, undirbúið löggjöf, sem ég álít, að miði tvímælalaust að því að gæta hagsmuna almennings í þessum sökum. Ég hefi þess vegna ríka tilhneigingu til þess að taka mikið tillit til þess, sem frá þessum hv. þm. kemur og snertir þau mál, sem honum eru sérstaklega falin.

En um. þessa þáltill. á þskj. 140 vil ég segja það, að ég get ekki tekið jafnmikið tillit til hennar og margs annars, sem frá þessum hv. þm. hefir komið. Hér er hann að seilast inn á svið, sem er honum miklu fjarlægara og ókunnugra en það starfssvið, sem hann aðallega hefir unnið á hér á þingi með sínum mikla myndarskap og sanngirni. Hér hefir hann seilzt inn á það svið, sem hann er ekki nærri því eins kunnugur, og hann getur því ekki ætlazt til, að eins mikið tillit sé tekið til álits hans og till. þar eins og í þeim málum, sem hann hefir sérþekkingu í. Og þótt ég sé fús til þess að hafa samvinnu við hv. þm. á ýmsum sviðum, þar sem hugir okkar stefna í líka átt, þá get ég ekki tekið til greina þessa till. hans um málefni, sem hann er gersamlega frásneiddur, og vil ég vinsamlega beina því til hans að skipta sér ekki af kirkjumálum.

Hv. flm. virðist ganga út frá því, að mikill hluti þjóðarinnar sé því fylgjandi, að prestaköllum verði stórkostlega fækkað; en honum getur ekki verið það ókunnugt, að það liggja fyrir gögn í þessu máli, er sýna afstöðu almennings gegn fækkun prestsembætta. Mþn. í kirkjumálum, sem lauk störfum í fyrra, rannsakaði þetta mál á þann hátt, að hún sendi fyrirspurn til allra safnaða, sveitarstjórna og héraðsfunda á landinu um það, hvort þessir aðilar væru því hlynntir, að prestaköllum yrði fækkað, og svör þau, sem n. bárust, fóru, að ég hygg, að mestu í þá átt að mótmæla fækkun prestsembætta. Í samræmi við þessi svör gaf svo meiri hl. kirkjumálanefndarinnar þá yfirlýsingu, að n. mundi ekki flytja till. um fækkun prestakalla. Hv. flm. getur vafalaust fengið að sjá þessi plögg, sem n. hafði í málinu, og vænti ég, að hann sannfærist þá um það, að óþarft sé að skora á stj. að láta aftur fara fram rannsókn í þessu efni. Vitanlega er ég því ekki mótfallinn, að einhver prestakallafækkun geti orðið þar, sem samgönguskilyrðin hafa tekið mestum breyt. til bóta. Hið eldra skipulag á skiptingu prestakalla var óhjákvæmilegt á meðan flestar stórár í landinu voru óbrúaðar og engir bílfærir vegir á milli sveita. Nú geri ég ráð fyrir, að þetta skipulag breytist smám saman, eftir því sem þörfin krefur og samgöngutækin verða fullkomnari. Annars finnst mér, að hv. flm. fari ekki rétta leið í þessu máli; fyrst hann hefir svona mikinn áhuga á því sjálfur, virðist óþarfi af honum að beina því til stj. að flytja þetta frv. fyrir sig og taka þetta fóstur hans upp á sína arma, sem hann lætur fylgja þessari þáltill. Mér finnst, að honum sé skyldast að feðra krógann sjálfur.

Ef gera á svo gagngerða breyt. á kirkjuskipuninni sem hér er farið fram á í frv., þá álít ég, að skylt sé að bera það undir þjóðaratkvæði samkv. 76. gr. stjskr. Það eru 2 mál, sem gert er ráð fyrir í stjskr., að skuli borin undir þjóðaratkvæði, en það eru uppsögn á sambandslögum Íslands og Danmerkur og breytingar á skipun kirkjunnar gagnvart ríkinu. Þess vegna var það miklu nær fyrir hv. flm. að flytja till. þess efnis, að þetta mál væri borið undir þjóðaratkvæði. En þess ber að gæta, ef breyt. verður gerð á kirkjuskipuninni, þannig að fjárskipti fari fram á milli ríkis og kirkju, að þá á íslenzka kirkjan geysimikið fé hjá ríkinu, sem erfitt yrði fyrir ríkið að standa skil á. Vinir kirkjunnar og áhugamenn í trúmálum gáfu kirkjunni stóreignir á fyrri öldum, henni til eflingar og trausts. Þessar eignir gengu síðan að töluverðu leyti undir ríkið, og er því hætt við, að það kæmist ekki hjá því að skila þeim aftur til kirkjunnar um leið og ríki og kirkja yrðu aðskilin.

Það er ekki ástæða til að gera mikið úr þeim sparnaði, sem kynni að leiða af fækkun presta fyrir ríkissjóð. Fáir eða engir af starfsmönnum þjóðarinnar munu vera jafnlágt launaðir og prestastéttin. Það mun láta nærri, að 12 prestar hafi samtals svipaða launafúlgu árlega úr ríkissjóði og einn þeirra bankastjóra, sem hafa aðsetur hér hinummegin við Austurstræti, hefir í árslaun, svo að það virðist ekki mikil ástæða til að fást um launagreiðslur til prestanna, og þá ekki sízt þegar þess er gætt, að prestarnir hafa verið um margar aldir og eru enn yfirleitt leiðtogar og menningarfrömuðir í sveitunum.

Þá vildi ég aðeins gera lítilsháttar aths. við sumt af því, sem fram hefir komið í grg. frv. og ræðu hv. flm. Hann segir í grg., að kirkjan hér á landi sé hnignandi stofnun og að starf kirkjunnar hafi aldrei gengið meira saman en nú síðustu árin, og bendir sérstaklega á, að útvarpsmessugerðir valdi því, að prédikunarstarfið í kirkjunum sé óþarft. Ég er þar mjög á öðru máli en hv. flm. Ég held fyrst og fremst, að skoðun hans um afstöðu þjóðarinnar gagnvart kirkjunni sé alls ekki rétt. Þó það kunni að líta þannig út á ytra borðinu, að nokkur hluti þjóðarinnar virðist fráhverfur kirkjunni, þá hygg ég, að þegar á herðir komi það í ljós, að trúhneigð fólksins er ekki minni nú en áður, þó hennar gæti minna á yfirborðinu. Um útvarpsguðsþjónustur er það að segja, að ég þykist vita, að þær dragi í bili úr kirkjusókn fólksins. Í nágrannalöndunum dró það úr kirkjusókn fólksins fyrst í stað, en það hefir greinilega komið í ljós þar, að þegar frá leið fór kirkjusókn almennings aftur að aukast, þannig að útvarpsguðsþjónustur virðast einmitt heilla fólkið að kirkjunni og trúarbrögðunum.1)

1) Hér vantar niðurlag ræðunnar, sem ég man ekki lengur, og verður við það að sitja. Tr. Þ.