29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (3102)

140. mál, fækkun prestsembætta

Bjarni Ásgeirsson:

Ég er með þessari þáltill. að nokkru leyti. Ég er sannfærður um, að sú skipun prestakalla, sem nú er, er á margan hátt úrelt orðin og dýrari þjóðinni en þörf er á og efni hennar leyfa. Fyrst ber þess að gæta, hve miklu starfi hefir verið létt af prestastéttinni frá því, sem áður var, þar sem þeir báru allan hita og þunga af fræðslu barna og unglinga í sveitum landsins. Nú er búið að koma upp fjölmennri kennarastétt til að taka að sér þessi mál öll, svo sem kunnugt er. Þá er og á hitt að líta, að samgöngur í landinu eru nú á síðari árum orðnar á allt annan hátt og betri en áður var, svo að engu er saman að jafna um það, hversu auðveldara og fljótlegra það er nú fyrir prestana að komast um landið í embættisferðum sínum en áður var.

Í þriðja lagi má benda á, að nú er búið að koma upp útvarpsstöð, sem mikill og sívaxandi hluti þjóðarinnar getur notið, og þar sem útvarpað er guðsþjónustum einu sinni eða oftar á hverjum helgidegi. Allt þetta, sem nú er upp talið, hefir kostað þjóðina of fjár og kostar mikil árleg útgjöld. Það virðist því sjálfsagt að athuga vel, hver útgjöld þjóðin getur sparað sér fyrir það, sem þegar er upp talið, án þess að dregið sé úr þeirri andlegu starfsemi, sem hér er um að ræða. Og ég er sannfærður um, að svo má verða. Hér þarf á engan hátt að vera um að ræða árás á kristindómsstarfsemina í landinu, heldur hitt, að koma henni í það horf, sem breyttar ástæður leyfa og þarfir þjóðarinnar krefjast. Hitt er annað mál og að mínu áliti óþarft, sem ræðir um í síðari hluta till., að fara að lögleiða hér verzlegar nafngiftir barna, hjónavígslur og útfarir, eins og segir í niðurlagi þáltill. Það eru hlutir, sem eru mjög viðkvæmir öllum þorra manna og stríða á móti þeirra trúartilfinningum. Ég vil því ekki spilla fyrir því, sem ég tel aðalatriði málsins, með því að blanda því inn í jafnviðkvæm atriði og þau, sem vikið er að í síðari hluta till. og munu vera almennt óvinsæl, enda tel ég það með öllu óþarft.

Ég er sannfærður um, að prestum má fækka til mikilla muna án þess að fella niður nein af þeirra núverandi störfum. Að vísu gæti það þó orðið til þess, að þeir yrðu að gefa sig eingöngu að prestsskapnum, en sleppa öðrum störfum, sem þeir víðast hvar reka ásamt prestsstarfinu í atvinnuskyni, en sem þeim mörgum er vafasamur hagur að. Og þó að það fyrirkomulag leiði til þess, að nokkuð yrðu hækkuð laun þeirra starfandi presta, sem eftir yrðu, þá mætti þetta verða ríkinu til sparnaðar samt sem áður og hinni kirkjulegu starfsemi til góðs, þar sem prestastéttin gæti einhuga gefið sig við sínum sálusorgarastörfum, í stað þess að drepa áhugann fyrir því starfi með margskonar veraldlegu vafstri, sem við þekkjum allt of mörg dæmi um. Í samræmi við þessa skoðun mína leyfi ég mér að bera fram svohljóðandi skrifl. brtt. við þáltill.:

„Orðin í niðurlagi tillgr., „enda leggi stjórnin“ o. s. frv. til enda greinarinnar falli niður“.