29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3105)

140. mál, fækkun prestsembætta

Bergur Jónsson:

Ég tel engan skaða skeðan fyrir neinn, hvort sem hann er með eða móti prestafækkun, þótt þessi till. verði samþ., því að úrslit þessa máls eru undir þinginu komin þegar þar að kemur, og jafnvel þótt þingið verði þá skipað sömu mönnum og nú, eru þau úrslit óviss. Ég mun því fylgja því, að þetta mál verði lagt fyrir næsta þing, ef samþ. verður skrifl. brtt., sem ég legg hér fram.

Ég vil þó taka það fram, að ég get alls ekki fallizt á orðalag grg. Ég get ekki fallizt á, að prestar hafi ekki aðra og meiri þýðingu en að vera prédikarar. Þeir hafa haft og hafa í sveitum landsins mikilsverða almenna þýðingu sem leiðbeinendur og ráðgjafar. Menn hafa leitað til prestsins sem hins eina menntamanns innansveitar, og ef þeir eru góðir menn, geta þeir komið mörgu góðu og gagnlegu til leiðar. Þrátt fyrir aukna alþýðufræðslu er þó víða leitað til prestanna, ef unglingar þrá meiri fræðslu en veitt er í barnaskólunum. Af þessum ástæðum er ég mótfallinn því að fækka prestum. Að vísu veit ég, að þeim muni fækka hvort sem er, vegna þess við hvílík kjör þeir eiga að búa. Að því dregur, að engir stúdentar vilja stunda guðfræðinám, vegna þeirra kjara, sem þeir eiga í vændum. Af till. gæti leitt, að bætt yrðu nokkuð kjör presta, og það er eina ástæðan til þess, að ég greiði henni atkv. Eins og kjör presta eru nú, virðist það ganga óskammfeilni næst að bjóða kandidötum eftir 10–12 ára nám upp á 2000 kr. laun á ári, sem er 1/12 af bankastjóralaunum. Ástæðan til þess, að ég fylgi till., er sú ein, að ég býst við, að af henni geti leitt hætt launakjör presta.