29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

140. mál, fækkun prestsembætta

Guðbrandur Ísberg:

Af því að umr. eru orðnar langar hvort sem er, þykir mér rétt að gera grein fyrir atkv. mínu.

Ég er ekki og hefi aldrei verið það, sem kallað er kirkjulega sinnaður maður, og býst því ekki við, að ég kunni að meta presta að verðleikum sem kennimenn, en sem menningarfrömuði met ég þá mikils. Um menningaráhrif presta að fornu og nýju á þjóðlíf vort Íslendinga mætti tala langt mál, en út í það ætla ég þó ekki að fara að sinni.

En mig langar til að víkja nokkuð að þeim ummælum hv. þm. Dal., að andlegir straumar velti nú yfir þjóðina í fossaföllum, svo að áhrifa prestanna gæti ekki lengur. Þessir andlegu straumar áttu einkum að berast með blöðunum og útvarpinu. Hvað er það nú svo, sem blöðin flytja? Almenningur segir, að það séu 50% ósannindi og 50% blekkingar. Vafalaust er þetta of þungur dómur, en þó mun því miður of mikið satt í honum. Þetta er sá straumur menningaráhrifa, sem blöðin velta yfir þjóðina og á að koma í stað starfsemi prestanna.

Þá er það útvarpið. Útvarpið sendir stundum frá sér messur, satt er það, og ýms fræðandi erindi, en það sendir líka fleira út. Það hefir útvarpað fyrirlestrum, sem voru ekki annað en samtvinningur af klámi og guðlasti. Þetta eru nú þeir menningarstraumar, sem útvarpið meðfram lætur velta yfir þjóðina. Þetta á víst líka að koma í stað menningarstarfsemi prestanna. Það hefir verið bent á það, að eftirlit með barnafræðslunni, sem var eitt af þýðingarmestu störfum prestanna, hafi nú verið af þeim tekið og fengið í hendur öðrum. Þetta er rétt, og það hefir verið fengið í hendur mönnum, sem eru yfirleitt verr færir um að inna það af hendi en prestarnir. Þetta starf vil ég aftur leggja í hendur prestastéttarinnar að mestu eða öllu leyti.

Flm. talaði um, að sparnað mundi leiða af því, að till. sinni yrði framfylgt. En sá sparnaður getur aldrei orðið mikill á næstu árum eða áratugum, og kemur a. m. k. ekki að haldi í núverandi kreppu. Enn sitja prestar í flestum prestaköllum landsins, og þeim verður ekki fleygt út á gaddinn. Ef á að spara, tel ég réttara að leita á sum önnur embætti, sem eru ferfalt hærra launuð, en sízt þarfari en prestsembættin. Ég mun því greiða atkv. á móti þessari till.