02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3112)

140. mál, fækkun prestsembætta

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég verð að telja, að síðari brtt. á þskj. 589 sé algerlega óþörf, því að ef menn vilja fella seinni hluta till. minnar, má bera hana upp í tvennu lagi. Um fyrri brtt. ætla ég ekki að ræða, enda mun hún koma til atkv. hvað sem ég segi. En vitanlega hefir það enga hernaðarlega þýðingu í mínum augum, þótt fækkað yrði um 1–2 presta. Ég álít auðvelt að fækka þeim svo um munar, eins og ég hefi þegar sýnt fram á. Engin mótsögn er í því fólgin, að fækkun prestsembætta spari ríkissjóði fé og að bæta megi upp þeim prestum, sem eftir verða. Segjum að prestar yrðu færðir niður í tölu héraðslækna, eða yrðu 48–50 á öllu landinu. Má þá taka laun ca. 60 presta, skipta þeim til helminga, verja öðrum helmingnum til að bæta kjör prestastéttarinnar, en leggja hinn helminginn í ríkissjóð.

Ég vil mótmæla því, að harðar árásir á presta og kirkju komi fram í grg. þáltill. minnar og að ég hafi talað um einskisnýta kirkju. Fyrir því er enginn stafur. Það kemur ekki málinu við, hvaða skoðun ég hefi á þessu með sjálfum mér. En það get ég látið uppi, að ég hefi mikla samúð með prestum, einkum vegna þess, hve aðstaða þeirra er herfileg. Ungir menn nýkomnir frá prófi og ef til vill fullir af áhuga, setjast út á land, þar sem enginn óskar eftir starfi þeirra. Kirkjurnar standa galtómar sunnudag eftir sunnudag. Ég var einu sinni í eitt ár héraðslæknir í héraði á Norðurlandi, þar sem voru 3 prestar í mínu umdæmi. Ég þori að fullyrða, að ég hafði tíu sinnum meira að gera en hver þeirra, en þó hefði ég orðið heilsulaus af aðgerðaleysi, ef ég hefði ekki losnað þaðan eftir eitt ár. Hvað höfðu nú þrír prestar að gera í þessu læknishéraði? Messuföll voru næstum á hverjum sunnudegi árið út, svo að viðburður þótti, ef kirkja var opnuð, og enginn óskaði neins starfs af þeim, nema að greftra, skíra og gefa saman hjón, en þau störf voru ekki til skiptanna á þrjá embættismenn, og raunar ekki sérstök prestastörf, sbr. álit kirkjumálarefndarinnar 1907. Það eru ekki kirkjulegar athafnir að gefa saman hjón, að gefa barni nafn og að jarðsetja dáinn mann. Ég fullyrði, að margir æskja alls ekki eftir andlegum svip á þeim athöfnum. Menn vilja fá börnum sínum lögleg heiti, að hjónabönd hafi borgaralegt gildi og jarðarfarir sömuleiðis. Ef ég á annað borð þarf að upplýsa hv. 2. þm. Rang. í þessu efni, þá get ég sagt honum það um skírnarathöfn kirkjunnar t. d., að hún á að vera í allt öðru fólgin en að gefa barninu nafn.

Þá kem ég að því, að fækkun prestsembætta sé óframkvæmanleg og gegn vilja almennings. Ég vil aftur minna hv. þm. á það, að í Rvík hefir fólkstalan ferfaldazt á síðari árum, en tala þjónandi presta stendur í stað, og virðast allir una því vel. Samskonar dæmi er og hægt að nefna annarsstaðar. Sumstaðar á landinu hefir prestunum verið fækkað hæfilega eftir staðháttum, og þar hefir ekki bólað á neinni óánægju hjá hlutaðeigandi söfnuðum.

Ég skal nefna t. d. tvö samliggjandi læknishéruð á Norðausturlandi. Öxarfjarðarheiði skiptir héruðunum og þau megi bæði heita jafnstór. Í héraðinu fyrir vestan heiðina eru 4 kirkjusóknir, allerfiðar yfirferðar á vetrum, og þjónar þeim einn prestur. Ég hefi ekki orðið var við óánægju í þessum söfnuðum eða að þeir gerðu kröfur til, að prestum yrði fjölgað þar aftur. Í héraðinu austan Öxarfjarðarheiðar eru 3 kirkjusóknir, ég held ívið, fólksfærri samtals en hinar 4, og þar eru 3 prestar. Ég efast ekki um, að ef gert væri ráð fyrir að sameina þessar sóknir: Svalbarðs-, Sauðanes- og Skeggjastaðasóknir í Þistilfirði og á Langanesi, eins og sóknirnar fyrir vestan heiðina, þá mundu söfnuðirnir vera því mótfallnir í byrjun og veita þau svör, að þeir vildu ekki fækka prestum hjá sér. Fólkið vill ekki styggja prestinn sinn með því að láta það í ljós, að það geti komizt af án hans. Það vill ekki láta taka af sér sinn prest, þótt það álíti, að aðrir geti komizt af án þeirra, og þótt það átti sig fljótt á, hve sjálfsögð samfærslan var, eftir að hún hefir komizt á. Því verður ekki neitað, að bráðabirgðaóþægindi geta orðið að slíkum embættasamsteypum, og þau vilja dómgreind almennings í bili. Þannig vill fólk alls ekki láta beita sóttvörnum hjá sér, þótt því finnist sjálfsagt að setja hús nágrannanna í sóttkví, án þess að ég viljað öðru leyti jafna saman sótthreinsun og prestafækkun.

Enn vil ég nefna til samanburðar Eyjafjörð og Rangárvallasýslu. Þó að í Eyjafirði innan Akureyrar séu margar kirkjusóknir, sem einn prestur þjónar, þá hefi ég ekki heyrt getið um neinar áskoranir þaðan um að fjölga þar prestum. Síðastl. ár hefir verið prestlaust í Grundarþingum, en brauðinu þjónað af sóknarprestinum á Akureyri. Þrátt fyrir það berast engar umkvartanir um prestleysi úr Grundarþingum. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að ef talað væri um að fækka prestum í Rangárvallasýslu, en þar eru a. m. k. 6 prestaköll, þá mundu söfnuðirnir neita því allir, hver fyrir sig. En það er vitanlega engin sönnun þess, að þeir mundu verða óánægðir þegar frá liði, þó að prestum yrði fækkað þar. Hv. þm. sagði, að ég hefði trú á því, að kirkjan væri hnignandi stofnun. Ég trúi engu um það, ég veit, að svo er, og ég trúi ekki því, sem ég veit. En þetta er ekki sagt til þess að niðra kirkjunni; hún gæti verið þýðingarmikil stofnun fyrir því. En þegar meiri hluti þjóðarinnar kærir sig ekki um hana né þá starfsemi, sem hún býður, þá er engin ástæða til að kosta of fjár til þeirra starfa, sem ekki eru þegin, hversu þýðingarmikil sem þau væru, ef þau væru þegin.

Hæstv. forsrh. vék nokkuð að þessu efni og einkum launakjörum presta. Hann hefir verið mikið tengdur kirkjunni fyrr og síðar. Ég tel það bera nokkurn vott um, hvað þjóðin metur þessa stofnun mikils, eða störf presta samanborið við önnur opinber störf, að hún greiðir einum bankastjóra jafnhá laun og 12 prestum samanlagt. Það er von, að hæstv. ráðh. hneykslist á þessu, og ef þetta er ekki talandi vottur um það, hvað þjóðin metur lítils störf prestanna, þá veit ég ekki, hvað talar skýrar.

Það er líka talandi vottur í þessu máli, hversu lítill kraftur hefir verið í ræðum hinna tveggja andmælenda þessarar till. Þeir hafa tekið mjög linlega á henni, og verður ekki annað sagt en að hv. 2. þm. Rang. berjist af meiri áhuga og hreysti þegar hann er að ræða um einhver mál, sem snerta veraldlega hreppapólitík í Rangárvallasýslu; eða hæstv. forsrh. þegar hann er að flytja ræður um áburð og önnur ræktunarmál landsins eða skipulag Búnaðarfélags Íslands.

Það var helzt að skilja á ræðu hæstv. forsrh., sem hann vildi fræða hv. þdm. á því, að þessi þáltill. kæmi í bága við stjskr., þar sem gert væri ráð fyrir því í 58. gr. stjskr., að ef gerð væri breyt. á kirkjuskipun í landinu, þá ætti að bera það undir þjóðaratkvæði. En þetta er hin mesta firra. Í 58. gr. stjskr. er aðeins talað um, að hin evangelisk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með l., og ef breyta á kirkjuskipuninni að þessu leyti, þá á að bera þau lög undir þjóðaratkvæði, en alls ekki, þó að sett verði lög um fækkun prestakalla eða annað þess háttar.

Hæstv. forsrh. benti á annað höfuðatriði, sem hér gæti komið til greina: Að kirkjan ætti svo miklar eignir, að erfitt mundi verða fyrir ríkið að afhenda þær, ef til skilnaðar kæmi. Hér er raunar alls ekki um slíkan skilnað að ræða. En ég vil þó taka það fram, að ég hygg, að ríkið sé engum slíkum skuldbindingum háð gagnvart kirkjunni, og viðurkenni ekki, að það þurfi að skila neinu aftur, þó að skilnaður yrði á milli ríkis og kirkju. Hæstv. forsrh. talaði mikið um, að ríkið mundi þurfa að skila gefendunum því fé til kirkjunnar, sem þeir hefðu gefið vegna trúmálaáhuga síns. En hann ætti að tala gætilega um þetta, enda verður þingið að mótmæla slíku. Þessar gjafir voru alls ekki gefnar til lútersku kirkjunnar. Og ef á að fara að gera kröfur til slíkra gjafa fyrir hönd kirkjunnar, sem er með öllu óviðeigandi að nefna á nafn hér í þinginu, og þá ekki sízt af stj., þá mættu þeir fara að hreyfa sig, prestar hinnar „einu sönnu kirkju“ í Landakoti.

Ein höfuðröksemd hv. 2. þm. Rang. var sú, að í þessu máli ætti ekki að taka mark á skoðunum og kröfum óguðlegra manna eins og ég væri. En þetta er ekki eingöngu mín krafa. Hún kom fram frá sjálfum kirkjunnar mönnum 1903; þá vildu þeir fækka prestum. (SvbH: Þá var það gert). Já, að nokkru leyti. En fyrst það þótti þá rétt og skaðlaust fyrir trúarlífið í landinu, hversu miklu sjálfsagðara er það ekki nú, þegar aðstaðan er gerbreytt frá því, sem þá var, um samgöngur og fleira? Svo að mínar kröfur eru í fullu samræmi við kröfur þær, sem prestarnir fluttu sjálfir á árunum 1903–1907.

Ég hefði kosið að finna einhver rök í ræðum andmælenda minna, en þó að ég leiti í því, sem ég hefi skrifað eftir þeim, þá finn ég ekkert, sem svara þarf. Ég tel það ekki, þó að hv. þm. Ak. segði, að engin menning jafnaðist á við það, sem kirkjan hefði á boðstólum, né gæti komið í staðinn fyrir hana. Þó skildist mér á hv. þm., að hann hefði sjálfur ekkert af kirkjunni að segja, og önnur menningarmeðul virtist hann ekki þekkja en blaðadeilur, sem væru að hálfu leyti lygi og að hálfu leyti blekkingar, og útvarpserindi, sem að hálfu leyti væru klám og að hálfu leyti guðlast. Það er ekki við því að búast, að maður, sem ekki hefir orðið fyrir öðrum menningaráhrifum en þessum, geti lagt mikið til þessara mála.