02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (3128)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Jónas Þorbergsson [óyfirl.]:

Ég vil aðeins lýsa í fám orðum afstöðu minni til þessa máls, áður en atkvgr. fer fram.

Ég verð að taka undir með þeim, sem látið hafa í ljós undrun yfir því, að tíma skuli hafa verið eytt í það þing eftir þing að ræða mál, sem áreiðanlegt er, að sumir af flm. þess hafa harla litla trú á. Ég lít svo á, að á frv. eins og það liggur fyrir séu stórkostlegir gallar, eins og sýnt var fram á við 2. umr., sérstaklega af hv. þm. S.-Þ., t. d. þar sem gert er ráð fyrir, að kvenfólkið eigi ekki að njóta jafnréttis við karlmenn um þau fríðindi, sem ætlazt er til, að þetta mál hafi í för með sér. Ég álít, að það sé hreint og beint varasamt fyrir heiður þessarar hv. d. að láta frv. fara þannig til hv. Ed., og mig furðar á þeirri yfirlýsingu þess flm., sem hér er mest grunaður um heilindi í þessu máli, hv. 2. þm. Rang., að hann álítur, að frv. sé nú hvorki fugl né fiskur, en vill þó senda það út í þá óvissu að láta það ganga áfram til hv. Ed. Ég held, að þessi hv. þm., sem er vanur að fast við greftranir, ætti heldur að sjá þessu máli borgið á þann hátt, sem heppilegastur mun vera, nefnil. hjálpa til að fylgja því til grafar.

Ég ætla svo ekki að eyða fleirum orðum um þetta, en mun greiða atkv. á móti frv. við þessa umr.