02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Einar Arnórsson [óyfirl.]:

Ég var ekki við, þegar þetta mál var til 2. umr. Hér í hv. d., og má því vel vera, að ég endurtaki eitthvað af því, sem þá var sagt.

Þótt ég virði þann áhuga og þá ósérplægni, sem komið hefir fram í aðgerðum þess manns, sem mest hefir barizt fyrir þessu máli, þá verð ég að segja það, að ég hefi ekki getað fallizt á þá hugmynd, sem lögð er þar til grundvallar.

Þetta frv. er gamall kunningi hér á þingi, því að þetta er nú í fimmta sinn, sem það er fram borið. Eins og það er nú flutt, af 6 hv. þdm., — það er hvorki meira né minna en kúgildistalan — eru í því mörg ákvæði, sem mér finnst ekki viðlit, að löggjafarvaldið geti gengið að, og skal ég aðeins nefna fáein.

Það er þá fyrst sjálf hugmyndin að þvinga lögráða og sjálfráða menn til þess að vinna í sjö vikur kauplaust, sem ég get ekki fallizt á. Það er í svo algerðu ósamræmi við þær grundvallarreglur, sem gilt hafa í okkar löggjöf. Annaðhvort eru menn sjálfráða eða ekki sjálfráða, og eftir okkar löggjöf eiga átján ára menn yfirleitt að vera sjálfum sér ráðandi, og það er mjög mikið brot á því „principi“ að skylda menn til að vinna, og ég hygg, að það yrði þeim sveitum, sem því vildu beita, til lítils góðs í framkvæmdinni. Mér þykir ekki ólíklegt, að ýmsir hinna vinnufæru manna, sem þvinga ætti, ekki til þess að moka skít fyrir ekki neitt, en þó a. m. k. ætti að skylda til að moka skít, myndu skipta um bústað og fara úr heim sýslum, þar sem þetta ætti að framkvæma. Það yrði a. m. k. ekki til þess að auka vinnukraftinn í þeim sýslum, sem þetta skipulag tækju upp.

Í öðru lagi er það mikla misrétti, sem nefnt hefir verið áður, að það eru aðeins karlmennirnir, sem njóta eiga þeirra hlunninda, sem frv. á að veita, því að hlunnindi eru það frá sjónarmiði flm. Kvenfólkið á eftir frv. ekki einu sinni að hafa þau réttindi að geta fengið að moka skít og fá skólakennslu í staðinn, þó að það að vildi, og er þannig algerlega útilokað frá þeim sýsluskólum, sem hér er gert ráð fyrir, að rísi upp.

Í þriðja lagi var það svo eftir 3. gr. frv., eins og það var borið fram, að 3/4 kjósenda í hvaða sýslu sem vera skal hefði getað skyldað fjárveitingarvaldið til þess að leggja fram ótakmarkað fé til skólabygginga. Hefði þetta verið samþ., mátti búast við, að með duglegri agitation fyrir málinu gæti ríkið komið til með að þurfa að byggja jafnmörg skólahús eins og sýslu- og bæjarfélög eru samtals á landinu öllu. Ég man ekki, hvað sýslu- og bæjarfélög eru mörg á landinu; líklega um 36. Það hefðu því á sínum tíma getað komið fram um 36 kröfur um skólahúsbyggingar, sem skylt hefði verið að verða við. Að samþ. slíkt ákvæði væri því sama og flytja brot af fjárveitingarvaldinu yfir til sýslufélaganna. Ég efast ekki um, að sumir þeirra hv. þm., sem frv. hafa flutt, hafi athugað þetta, en þeir hafa bara flutt það í þeirri góðu trú, að það mundi aldrei ná fram að ganga.

Með öðrum orðum átti eftir frv. að vera möguleiki á að stofna skóla fyrir karlmenn eingöngu í öllum sýslum og kaupstöðum landsins, í viðbót við alla þá héraðsskóla og gagnfræðaskóla, sem nú eru til. Vitanlega horfir þetta nokkuð öðruvísi við eins og frv. er nú, eftir að brtt. hv. þm. Borgf. voru samþ. Nú er það aðeins ein einasta sýsla á landinu, Rangárvallasýsla, sem veita á heimild til þess að taka upp það skipulag, sem frv. mælir fyrir um. (PO: Hún hefir ein óskað eftir því. — SvbH: Það er ekki rétt). En frá mínu sjónarmiði er það einnig principbrot að veita einni sýslu út af fyrir sig slíka heimild. Ef einni sýslu er veittur réttur til þess að heimta skólahús af ríkinu, þá er viðbúið, að hinar komi á eftir og segi: „Hvers eigum við að gjalda. Því fáum við ekki sama rétt og Rangárvallasýsla ?“ — — Ég geri því ráð fyrir, að það gæti komið sama skriðan með þessu móti eins og ætla mætti, að komið hefði, ef frv. hefði verið samþ. óbreytt. Hitt er rétt, að þess er ekki að vænta, að frv. hefði eins mikinn kostnað í för með sér í bráð, þótt það væri samþ. eins og það er nú, eins og það hefði getað haft, ef það hefði verið samþ. eins og það var upphaflega. En þrátt fyrir þessa takmörkun, að heimildin á ekki að ná nema til Rangæinga einna, mun ég ekki skoða huga minn um að greiða atkv. á móti frv. út úr d. Og þótt það kæmist lifandi héðan, er ekki þar með sagt, að það komist út úr þinginu að þessu sinni, því að nú er áliðið þingtímann og hætt er við því, að einhverjir vilji skyggnast í málið í hv. Ed. Að því leyti skiptir e. t. v. litlu máli, hvort frv. verður veitt formleg útför hér eða hvort það kemst lifandi út úr d. í þeirri mynd, sem það nú er í.