02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (3131)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi ekki miklu við það að bæta, sem hv. frsm. hefir sagt um þetta mál. Þó get ég ekki neitað því, að allundarleg rök eru færð fram móti þessu máli. Mikið hefir verið talað um það, að það sé ranglæti gagnvart kvenfólkinu, að það skuli ekki vera tekið með í þessu frv., en svo er það aftur talið hróplegt ranglæti, að það skuli eiga að þvinga karlmenn til þess að moka skít í 7 vikur gegn skólaréttindum. Í þessu er auðsætt ósamræmi, og ekki laust við, að rökin stangist, þegar slíkt er borið fram af sama manninum. Ég get tekið það fram, að ég hefi alltaf verið hlynntur þegnskylduhugmyndinni, og er alveg sannfærður um það, að hefði hún verið

— innleidd, segjum fyrir 200–300 árum, hefði landið lítið öðruvísi út nú en raun er á. Og enginn vafi er á því, að þetta frv. fer fram á þegnskylduvinnu, þó að borgun sé nú ákveðin, sem áður mun engin hafa átt að vera. Hefði þetta fyrirkomulag verið við lýði nokkra mannsaldra í einhverri einni sýslu, þá efast ég ekki um, að sú sýsla bæri mjög af öðrum nú. Þetta er fyrir mér aðalatriði málsins, og það hefir gert það að verkum, að ég gerðist meðflm. þessa frv. Og það sýnir bezt, að þessi hugmynd er ekki út í bláinn, að jafnvel þeir, sem andmælt hafa frv., gera ráð fyrir, að þetta fyrirkomulag verði mjög mikið notað, ef það verður lögtekið. Vitaskuld er það stórkostleg skemmd á frv., að það skuli nú aðeins ná til einnar sýslu. Og það er hreint ekki víst, að það sé einmitt sú sýsla, sem hefði orðið fyrst til þess að taka þetta fyrirkomulag upp, ef frv. hefði verið samþ. í sinni upphaflegu mynd. Ég skal gjarnan taka ávítum hv. 2. þm. Reykv. um, að óvarlegt sé að samþ. frv. eins og það var; ríkissjóður mundi ekki standa undir því, ef 2/3 allra sýslufélaga á landinu ákvæðu öll í einu að nota sér fyrirkomulag frv. og heimtuðu framlag það, sem ætlazt var til, að ríkið greiddi. Nú er óþarft að tala um þetta lengur, þar sem búið er að koma í veg fyrir, að þetta geti orðið.

Það er ekki rétt, sem tekið hefir verið fram í þessum umr., að Rangárvallasýsla öll í heild standi að baki frv. Það er einkum einn maður í Rangárvallasýslu, sem á þessa hugmynd, en það er ekki sama og sýslufélagið sem heild óski eftir því, að eitthvað verði að l. Mér skildist það á orðum hv. 2. þm. Reykv., að hann byggist við því, að kröfur um framlag ríkisins mundu hafa streymt inn, ef frv. yrði samþ. eins og það var upphaflega, og eru það ekki svo lítil meðmæli fyrir frv.

Það er eftirtektarvert, að bæði hv. þm. Borgf. og hv. þm. S.-Þ. hafa mælt á móti þessu frv. Í kjördæmum beggja þessara hv. þm. eru nú þegar til myndarlegir alþýðuskólar, og þau þurfa því ekki að nota þetta fyrirkomulag.

Ég er ekkert hræddur um það, að unglingarnir mundu streyma úr sveitunum, þó að þeir ættu að vinna nokkrar vikur að vori til fyrir skólaréttindum. Slíkt er hvorki hægt að sanna né afsanna fyrirfram. Úr því getur reynslan ein skorið.

Mér skildist það á hv. þm. Dal., að hann vildi láta syngja líksöng yfir þessu frv. strax. Ég held, að ekkert liggi á því, megi lofa því að fara til hv. Ed., þar er víst nóg af hreppstjórum til þess að gera slík verk, sem þeir eiga nú að fara að gera samkv. till. hv. þm. Ísaf., en þó að þetta frv. eigi erfitt uppdráttar, býst ég við því, að hreppstjórafrv. hv. þm. Ísaf. eigi ekki léttari göngu fyrir höndum. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum að sinni.