02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3132)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Sveinn Ólafsson:

Það er ekkert undarlegt, þó að skoðanir hv. þm. séu skiptar um þetta mál. Hér á að ryðja nýjar brautir, og það eitt veldur oft óhag og tortryggni. Hér er í annað sinn í þingsögunni komið fram með þegnskylduhugmyndina í ákveðnu formi. En þetta er í miklu smærri stíl en það var hugsað hér áður, þegar Hermann sál. Jónasson hreyfði málinu á þingi. Mér skilst, að fyrir höfundi þessa frv. vaki aðallega tvennt: Í fyrsta lagi hefir hann seð þörf á ráðstöfunum um framhaldsfræðslu unglinga í sveitum, enda er það víða svo, að allur almenningur á tæpast kost á frekari fræðslu en þeirri, sem fæst í barnaskólunum. Í öðru lagi hefir hann fyrir augum verklegar framkvæmdir í sveitum landsins, sem lengi hafa beðið óunnar, en auðvelt mundi að koma í verk án þvingandi lánakjara fyrir héruðin, ef áhugi fyrir hvorutveggja þessu yrði vakinn. Ég álít, að þessar tvær flugur hafi höfundur frv. ætlað að slá í einu höggi. Og þessi hugmynd hans er alls ekki óhyggileg. Af því að ég hefi þennan skilning á tilgangi frv. og er sannfærður um það, að þetta getur orðið héruðunum að ómetanlegu liði, þegar fram í sækti, hefi ég gerzt meðflm.

Nú er svo komið, að búið er að gerbreyta frv. frá þess upphaflegu mynd. Nú er komin heimild fyrir eitt einstakt sýslufélag til skólastofnunar, í stað þeirrar almennu heimildar, sem var þar áður. En samt eru ennþá ekki fallin burt úr frv. þau tvö aðalatriði, sem ég tel uppistöðu þess, það er þegnskylduvinnan og möguleikinn til þess að koma einhverjum áhugamálum héraðs í verk, sem annars yrðu að bíða langan tíma eftir framkvæmdum.

Ég er alveg sammála hv. 2. þm. Skagf. um það, að hefði þetta fyrirkomulag verið komið á í einhverri sýslu landsins fyrir nokkrum áratugum, mundi það sýslufélag nú skara fram úr öllum öðrum. Og ég geri ráð fyrir því, að ef Rangárvallasýsla tekur upp þetta fyrirkomulag, og það reynist vel, eins og vænta má, þá verði innan tíðar gerð sú breyt. á lögunum, að heimildin verði almenn. Ég vil ennfremur taka undir það með hv. 2. þm. Skagf., að fjarstæða ein sé það, að þessar ráðstafanir mundu fæla æskulýðinn burt úr sveitunum. Mér þætti auk heldur trúlegt, að reynslan syndi einmitt það gagnstæða. Ef þetta sýslufélag, sem heimildin er nú miðuð við, tæki fyrirkomulagið upp og sýndi á nokkrum árum góðan árangur, tel ég víst, að fordæmið mundi örfá æskulýðinn til þess að leita þangað og prófa þetta nýja skipulag, því að æskunnar einkenni er einmitt nýungagirnin og hneigðin til að brjóta nýjar brautir. Með þessu gæti komið að því, að orðtækið um flóttann úr sveitunum yrði öfugmæli. Hv. frsm. sagði, að eftir breyt. á frv. við 2. umr. væri það hvorki orðið fugl né fiskur. Ég er honum ekki sammála um þetta atriði. Ég álít mjög vel til fallið, að fyrsta tilraunin með þetta skipulag verði einmitt gerð þar, sem fólkið hefir hugsað málið mest og átt kost á því að kynnast hugmyndum höfundar. Það hefir verið leitað atkv. um það á fundum í Rangárvallasýslu, ef mig minnir rétt, hvort óskað væri að fá þetta frv. samþ., og ætla ég, að sú ósk hafi verið samþ. þar með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Ég held því, að einmitt þarna, þar sem fólkið hefir haft lengri tíma og betra tækifæri til þess að kynna sér þetta mál en nokkrir aðrir, eigi að gera fyrstu tilraunina. Eftir atvikum hygg ég, að málið sé engu miður komið, þótt það gangi fram í núverandi mynd. Ef reynsla þessarar fyrstu tilraunar verður góð, verður þetta skipulag vafalaust fært rit á víðara svið bráðlega. Ég ætla ekki að byggja neinar vonir á því, að hv. Ed. færi frv. aftur í sinn upprunalega búning, enda mundu breyt. tefja frv. of mikið. Ég mun því fylgja frv. til hins ýtrasta í núverandi mynd þess. — Ég verð að minnast á till. hv. þm. Seyðf. áður en ég lýk máli mínu. Hann vill færa frv. í líkara form því upphaflega, en yrðu till. hans samþ., mundu þær gera málið flóknari í framkvæmd og áhættumeira fyrir ríkissjóð. Sú áhætta er nú að miklu leyti fallin burt, fyrst búið er að binda heimildina við eitt sýslufélag í stað margra. Ég verð því að leggja á móti till. þessari og tel réttast að bíða með slíkt, þar til einhver reynsla er fengin um skipulagið þar, sem áhugi virðist fyrir því og staðhættir líklega eru beztir.