02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3133)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Einar Arnórsson [óyfirl.]:

Hér hafa nú 3 hv. þm., allir flm. frv., staðið upp og varið það, og ég ætla að gera nokkrar aths. við ræður þeirra.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um það, að ég áliti, að viss tegund af atvinnu væri sérstaklega niðurlægjandi fyrir þá, sem ynnu hana, er það að segja, að þetta er ekki rétt. Ég kastaði fram alkunnri gamanvísu, sem varð til, þegar mest var rætt um þegnskylduna hér á árunum, og ég býst við, að hv. 2. þm. Rang. hafi kunnað þessa gamanvísu, og því ekki þurft að taka hana svo sérstaklega alvarlega. Spurningin er sú, ef við sleppum öllu gamni, hvort sé æskilegt að innleiða hér þegnskylduvinnu í einhverri mynd.

Atkvgr. um það mál, þegar það var hér á döfinni fyrir mörgum árum, sýndi glögglega vilja almennings í því efni. Það er að vísu prestslegt að vilja þvinga menn til þess að gera það nauðsynlega, við höfum heyrt, að prestarnir hafi það til að vilja þvinga menn inn í himnaríki, þótt menn sjálfir þykist hafa allt öðru að sinna.

Ég efast ekki um það, að sá maður, sem mest hefir barizt fyrir þessari hugmynd, geri það af því, að hann sé sannfærður um það, að þetta sé þarft og gott mál. En þrátt fyrir það er eðlilegt, að menn hafi skiptar skoðanir um það, eins og landsmál yfirleitt. Hv. þm. Seyðf. vill að vísu, að menn fái að vinna af sér skólakostnað, en jafnframt sýna till. hans, að hann felst ekki á aðalhugsun frv., nefnilega þá að þvinga menn til vinnu nauðuga viljuga. Það litur svo sem nógu vel út, að það þurfi samþykki 2/4 kjósenda til, áður en byrjað verði á því, og hægt að segja, að í héraði, þar sem svo mikill áhugi sé, sé ekki hætt við, að menn mundu skjótast undan skyldum sínum við skólann. Ég held, að þetta sé mjög lauslegt ákvæði. Það er ekki mikill vandi að vekja talsverðan áhuga í hvaða byggðarlagi sem er, ef mikil fríðindi eru í aðra hönd, eins og í þessu tilfelli, að fá veglegt skólahús gefins. Með þetta fyrir augum mætti vafalaust gylla málið fyrir almenningi í byrjun, en ekkert væri líklegra en menn sæju svo eftir ollu síðar meir, enda er jafnvel í frv. gert ráð fyrir því, að þetta skólahald geti alveg lagzt niður, og sett þau ákvæði, að í slíkum tilfellum skuli sýslurnar endurgreiða nokkurn hl. af byggingarkostnaði skólahússins. En sú greiðsluskylda yrði vafalaust alltaf gefin eftir, af því að greiðandinn mundi ekki vera talinn fær um það. Ýmsum, sem hér hafa talað, þótti mótsögn í því, að ég skyldi vera á móti þessu fyrirkomulagi og samt gera ráð fyrir því, að þetta yrði mjög mikið notað. En ef það er athugað, sem ég hefi sagt um úthaldsleysið, sem ég held, að verði uppi á teningnum í þessu máli af hendi sýslufélaganna, þá verður engin mótsögn í þessu. Hætt er við, að allir vilji fá skóla í fyrstunni, en að áhuginn dofni svo fljótt, að verr sé af stað farið en heima setið. Ég held, að það hafi verið hv. 2. þm. Skagf., sem fannst það undarlegt, að menn skyldu tala um misrétti karla og kvenna í þessu sambandi. Nú er svo komið, að kvenfólkið hefir jafnrétti á öllum sviðum við karlmenn, og því á þá ekki að skylda kvenfólkið til þess að raka, prjóna, sauma o. s. frv., og þrýsta þeim svo í hópum í skólana á eftir. Frá sjónarmiði höfundar og flm. hélt ég, að ekkert væri þessu til fyrirstöðu. Ef það er einhver stórkostleg blessun fyrir karlmenn að vera skyldaðir til vinnu, hlýtur það að vera eins fyrir kvenmenn, og því á þá að útiloka það frá blessuninni?

Það var náttúrlega rétt af hv. 2. þm. Skagf. að vita mig fyrir það, að ég var að tala um frv. eins og það var upphaflega, því að það liggur nú ekki fyrir. En ég iðrast nú samt ekki þeirrar syndar, því að það fylgdi þessu svo greinileg syndajátning hjá hv. þm. um það, að það hefði þó verið höfuðgalli á frv. í upphafi, þar sem hann sagði, að það væri ekki rétt hjá mér að vera að tala um þá synd, sem búið væri að bæta úr. Annars talaði hv. 2. þm. Skagf. mjög glaðlega um þetta frv., svo að það var hreinasta skemmtiræða, einkum endirinn á ræðu hans, þar sem hann var að tala um útför frv. Ég hefði tekið þetta mál miklu alvarlegar en hv. flm. frv. og ætla því ekki að fara að endurtaka útfararræðu hans.

Það má vel vera, að hefði þegnskylduvinna verið innleidd hér fyrir 200 árum, þá liti margt öðruvísi út hér en það gerir nú. En þótt það hefði verið góð ráðstöfun fyrir hálfri, einni eða tveim öldum, þá er ekki víst, að það sé eins góð ráðstöfun nú. Meðan meiri hl. fólksins eða jafnvel allt fólkið átti heima í sveit og dvaldi í sveit, var öðru máli að gegna um þetta; það hefði þá ekki komið eins þungt niður, þegar vinnukrafturinn var nógur, þótt meiri hl. fólks á unga aldri hefði verið tekið af heimilunum, eins og það mundi gera nú. Þótt þá hefði verið tekinn einhver hl. þess til ákveðinna vinnubragða, þá gerði það ekkert til. En hv. 2. þm. Skagf., sem er kunnugur í sveit, veit, að það mundi nú ekki þykja búhnykkur fyrir einyrkja, sem hafa aðeins drengi sína og stúlkur til hjálpar við búskapinn, að láta taka þau af sér allt vorið, allt sumarið eða allt haustið — ég veit nú ekki, hvaða tími yrði valinn. — Ég býst við, að það mundi mörgum smábónda þykja þungar búsifjar. Þótt þetta hefði getað verið gott, meðan allt fólkið var í sveitinni, og vinnukraftur þar því nógur, er það ekki jafngott nú. Því að það eykst ekki vinnukrafturinn í sveitinni við þetta, heldur hefir hann, ef svo má að orði komast, vasaskipti — unglingarnir skiptast á verkum. Vinnukrafturinn er tekinn frá heimilunum og látinn vinna annarsstaðar, og þá er hætt við, að minna verði unnið á heimilunum. A. m. k. mundi það víða verða svo.

Ég get látið þessar sömu aths. mínar eiga við það, sem hv. 1. þm. S.-M. lét um mælt, þar sem hann talaði um þegnskylduvinnuna frá sama sjónarmiði og hv. 2. þm. Skagf. Hitt undraði mig, sú bjartsýni, sem kom fram hjá svo öldruðum og reyndum manni, þegar hann heldur, að það muni sérstaklega veita fólkinu til héraðanna að koma á slíkri skylduvinnu. Um mig verð ég að segja, að ég er ekki svo bjartsýnn, því að mér hefir fundizt og held, að fólk sé yfirleitt svoleiðis, að það vilji fá eitthvað ábendanlegt fyrir vinnu sína. Og það er heldur ekki víst, þótt fólk ætlaði í skóla, að því hentaði að fara það ár, sem skylduvinnan stendur yfir.

Ég held þá, að ég hafi ekki ástæðu til að svara í lengra máli þeim þrem hv. þm., sem talað hafa til mín, og að ég geti látið hér staðar numið.