02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (3134)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég er ekki sammála hv. 2. þm. Skagf., en við erum báðir flm. að þessu máli, um það, að svo mikil skemmd hafi verið gerð á þeirri hugmynd, sem hér liggur til grundvallar við 2. umr., með því að samþ. brtt. hv. þm. Borgf. Eins og vitanlegt er, er þessi hugmynd runnin upp í Rangárvallasýslu, og höfundur hennar er yfirvald sýslubúa. Málið hefir því verið langmest rætt og athugað þar, enda farið fram um það þar einhverskonar atkvgr., svo að mér finnst í sjálfu sér ekki mjög mikið við það að athuga og jafnvel eðlilegt, að fyrsta sporið verði stigið á þann hátt að gefa einhverri sérstakri sýslu lagaheimild til að koma hugmyndinni í framkvæmd, enda var að sjálfsögðu alltaf ætlazt til þess, að þetta yrði reynt í einni sýslu fyrst, og virðist þá Rangárvallasýsla vera til þess sjálfkjörin

Sjálft frv. sé ég enga þörf á að ræða; það er þegar búið að ræða það frá öllum hliðum, og hv. frsm. n. hefir innt þá skyldu sína vel af hendi að tala fyrir málinu. En mér finnst það vel við unandi til að byrja með, þótt þetta sé ekki bundið nema við eina sýslu. Ég mun að vísu fella mig vel við, ef hv. Ed. vill breyta frv. aftur í sitt upprunalega horf, en á því er þó sá hængur, að þá get ég fullkomlega búizt við, að málið gangi ekki fram á þessu þingi, en verði það látið ganga áfram óbreytt, hefi ég meiri von um, að það verði að l. og að þessi sýsla, fyrst allra, fái tækifæri til að reyna, hvaða kosti þetta fyrirkomulag felur í sér.

Annars hefir málflutningur ýmissa andstæðinga frv. á þessu þingi gengið svo langt, að þeir hafa verið að reyna að færa til verri vegar ýmis ákvæði frv., sem, eins og öll önnur nýmæli, meðan ekki er reynt, hversu þau gefast, er hægt að láta líta svo út, eins og hv. andstæðingar hafa gert, sem hafa reynt að gera frv. hlægilegt — að þau feli í sér hættu, þar sem engin hætta er.

Ég vil minnast á eina mótbaru, sem mjög var haldið á lofti við 2. umr., sérstaklega af hv. þm. S.-Þ. Hann bar mjög fyrir brjósti þá misþyrmingu réttlætisins, sem hann sagði, að væri í frv., þar sem ekki væri tilætlunin, að kvenfólk fengi aðgang að vinnu og aðgang að skólum samkv. þessu frv. nú má geta þess, að hér hefir aldrei verið haldið fram, hvorki af höfundi frv. og heldur ekki af flm., að hér ætti að gera með einu lagafyrirmæli gerbreytingu á öllu lýðskólafyrirkomulagi í landinu. Frv. er, eins og það ber með sér, tilraun til þess að beina í nýja átt fyrirkomulagi og framkvæmdum á lýðskólafræðslunni í landinu. Þetta hefir vakað fyrir höfundinum, sem byggir á heilbrigðum hugsunarhætti æskulýðsins í landinu og byggir á þroskuðum hugsunarhætti hans. Það getur vel verið, að þetta sé skakkt hjá honum, en þá er hans sök, ef um sök er að ræða, sú ein, að þroski æskulýðsins er ekki sá sami sem hann hefir gert ráð fyrir. Annars virðist það í sjálfu sér, á þessari skólaöld, vera aðgengileg hugmynd, að æskulýðurinn vinni með líkamlegri vinnu sinni á sumrin beinlínis fyrir skólavist sinni á vetrum. Og það er enginn vafi á því, að 18 ára unglingar bíða ekki neitt tjón, hvorki efnalegt tjón né annað, við 7 vikna vinnu, t. d. útivinnu að vorinu –ekki neitt tjón, sem gerir þeim neitt til í lífinu. Hitt er alltaf hægt, að gera úlfalda úr mýflugu, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði, sem vildi gera það afskræmi úr frv., að menn mundu flýja sýslurnar, ef það yrði að l., og gott ef ekki landið líka. En það hefir verið og er lagt miklu meira á unga menn annara þjóða, og hefir þó ekki þar orðið vart við neinn héraða- eða landflótta af þeim sökum.

Þá er það samskólahugmyndin, sem alltaf er verið að hampa. En það hefir nú verið svo fram að þeim tíma, að þessir nýju lýðskólar, héraðsskólarnir, taka til starfa, að karlmenn og kvenfólk hafa verið sitt í hvorum skóla, fyrir utan barnaskólana. Það má sjálfsagt sitt hvað færa fram af þeirra manna hálfu, sem mæla með samskólum. Og ég tel víst, að hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Dal., sem hafa talið það stærsta galla þessa frv., að það veitti ekki jöfn réttindi konum og körlum, séu sjálfir mjög sannfærðir um ágæti samskóla fyrir konur og karla og að þeir séu mjög nauðsynlegir. Í því sambandi tel ég rétt að benda á það, að ég veit ekki til, að neinar skýrslur séu til eða neitt hafi komið fram opinberlega, sem sanni það, að þessir nýtízku skólar eins og t. d. Laugarvatnsskólinn og Reykholtsskólinn, sem eru samskólar bæði fyrir pilta og stúlkur, hafi neina yfirburði sem námsstofnanir fram yfir eldra fyrirkomulagið. Ég held það sé alveg ósannað mál, að það hafi nokkur örfandi áhrif eða bætandi áhrif á menntafýsn pilta og stúlkna, þótt þau stundi nám í slíkum samskóla. Þótt þeir virðist telja það stærsta galla þessa frv., að það bægi stúlkum frá þessum skólum, þá held ég, að þeir eigi eftir að sanna, að samskólarnir séu nokkurn hlut betri. Hitt liggur í augum uppi, og það veit ég, að allir hv. þm. vita, og þá sérstaklega hv. þm. S.-Þ., því að hans hérað hefir nú haft framtak í því efni, að stúlkur þurfa að fá menntun á sínu sviði, alveg eins og karlmenn þurfa menntun í þeim greinum, sem þeir iðka. En það er allt annað húsmæðrafræðsla og þvílíkt eða lýðskólanám, því að ég hygg, að hún sé ekki kennd í samskólunum. Ég er ekki að fullyrða neitt í þessu efni, en bendi aðeins á, að meðan það er ósannað mál, að nýju lýðskólarnir, samskólarnir, gefist betur en sérskólarnir, er engin ástæða til að vera með mikinn harmagrát yfir því, þótt hér sé ekki undireins farið inn á þá braut að hafa samskóla fyrir pilta og stúlkur. Ég get líka bent á, — og í viðtali við höfundinn, sýslumanninn í Rangárvallasýslu, hefi ég þótzt skynja það, að það hafi verið hans hugmynd ávallt, að þetta fyrirkomulag stæði til bóta og að það ætti að hagnýta sér þá reynslu, sem fengist með þetta fyrirkomulag í framtíðinni.

Ég get sagt hv. 1. þm. S.-M. Það, að ég get ekki aðhyllzt brtt. á þskj. 563, frá hv. þm. Seyðf., vegna þess að mér sýnist, að það muni stefna málinu, eftir því, sem í það hefir verið tekið hér, í of mikla tvísýnu, og fyrst svo er, mun ég sætta mig við, að málið verði afgr. héðan úr hv. d. í þeim búningi, sem það fékk við 2. umr., í þeirri von, að ávöxturinn verði þá sá, að þetta fyrirkomulag verði reynt á einum stað — það var nú aldrei hugmyndin annað en reyna það á einum stað til að byrja með, og að þjóðin síðar aðhyllist eitthvað svipað fyrirkomulag á lýðfræðslunni í landinu á þeim grundvelli, að unglingarnir fái sjálfir tækifæri til að vinna fyrir sér einn tíma ársins gegn því að fá menntun annan tíma. Og það verður á uppfyllt sú krafa hv. 2. þm. Reykv., að æskan fái ábendanleg og áþreifanleg laun fyrir vinnu sína. Hún mun fá fullt og jafnvel margfalt endurgjald fyrir hana. því að það er fjarri öllum sanni að bera höfundinum og okkur flm. á brýn, að við séum hér á ferðinni með nokkuð það, sem í nokkru atriði verði til að hnekkja eða kúga æskulýðinn í landinu. Þvert á móti.