02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3138)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Ingólfur Bjarnarson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., en það hefir nú svo margt verið borið fram hér til stuðnings þessu máli, að það er ekki gott að sitja undir því, án þess að mótmæla mestu fjarstæðunum, enda hefir verið sérstaklega beint til mín skeytum. Það er nú hvorki meira né minna en að allir flm., sex að tölu, hafa staðið á fætur til að tala fyrir frv., þetta kúgildi, sem hv. 2. þm. Reykv. kallaði svo. Við 1. umr. stóðu þeir einnig flestir upp, að mig minnir, og heldu langar ræður. Þetta er svo óvanaleg aðferð í ekki stærra máli, að það er ekki hægt að láta sér detta í hug annað en að hér sé um hinn mesta loddaraleik að ræða. Við þessa umr. er aðeins um 1 brtt. að ræða, sem umr. snúast þó mjög lítið um, enda verður ekki annað séð en að aðaltilgangurinn með þessu mikla málþófi sé að auglýsa það, hve fast flm. fylgi frv. Það vantar nú bara, til þess að kóróna þessa framkomu, að einhver flm. gefi sömu yfirlýsingu og einn flm. gaf við umr. um frv. árið 1929, að í raun og veru væru þeir allir flm. á móti frv. Það vantar nú aðeins slíka yfirlýsingu til þess að kóróna málið. fyrstu fer frv. fyrir n., sem gerbreytir því, síðan flytur hv. þm. Borgf. við það róttækar brtt., sem snjór því öllu við, og að lokum kemur brtt. frá einum flm., sem gerbreytir frv. enn. Engu að síður eru flm. með frv. og segja þó, að hver breyt. hafi stórskemmt það. Samt berjast þeir, meðan nokkur lífsvon er með nokkurt ákvæði þess, þótt allt sé gerbreytt frá því, sem þeir lögðu til. Hv. 2. þm. Rang. virtist setja von sína á hv. Ed. um að laga frv. En vonandi kemur aldrei til þess, að á það reyni. Hv. þm. Vestm. neitaði því, að frv. gerði ráð fyrir gerbreyt. á núverandi skólaskipulagi. Ég sýndi fram á það við 2. umr., að svo væri, og hæstv. fjmrh., sem áður var fræðslumálastjóri og átt hefir mikinn þátt í því að grundvalla það fyrirkomulag, sem er, staðfesti þau ummæli mín og sagði, að þetta væri bylting á núv. fyrirkomulagi. Það nægir að benda á, að eftir gildandi fyrirkomulagi alþýðuskólanna eiga öll ungmenni í landinu, karlar og konur, sæmilega léttan aðgang að skólum, en með frv. er gert ráð fyrir, að nóg sé „að „realisera“ skólana fyrir karlkynið“. Hv. þm. Vestm. gaf í skyn, að kvenfólkinu væri engin þörf á að fá aðgang að þessum skólum. Hann var að spyrja um það, hvort samskólar karla og kvenna væru betri en sérskólarnir. Hér er ekkert um það að ræða, því hann gerir ekki ráð fyrir neinum skólum fyrir kvenfólk, hvorki samskólum né sérskólum. Hann var að tala um, að það væri nauðsynlegt fyrir kvenfólkið að ganga á húsmæðraskóla. Er sú yfirlýsing kynleg frá honum, því að minna mætti hann á, að hann var á sínum tíma ekkert sérlega fylgjandi húsmæðraskólunum, enda geta vitanlega ekki nema fáar konur komizt þar að. Ef hann álítur, að samskólarnir séu eitthvað viðsjárverðir, þá lægi næst, að hann legði til að skipta skólunum, en ekki að útiloka kvenþjóðina frá þeim. Hv. þm. Mýr. var að kasta því fram, að rökin vildu stangast hjá okkur, þegar við teldum ófært að samþ. þvingunarkvöð á karlmennina, en hörmuðum svo, að kvenfólkið væri útilokað. Þetta er alger rangfærsla, eða misskilningur. Við andmælendur frv. teljum það herfilega afturför frá því, sem nú er lögskipað um fræðslumálin, að leggja þessa kvöð á piltana, sem frv. gerir, og þó enn hrapallegri rangsleitni að útiloka kvenfólkið frá aðgöngu að lýðskólunum. Teljum við hvorttveggja afturför og viljum enga þvingun samþ., hvorki fyrir karla né konur, í þessu efni. Hv. þm. Vestm. talaði um það, hve það væri holt fyrir unga menn að fá að vinna 7 vikna tíma yfir sumarið. Ég skal benda honum á, sem hann virðist enga hugmynd hafa um, að til þess að geta komizt í skóla með núverandi skipun þurfa flest ungmenni að vinna bæði vor, sumar og haust, og veitir ekki af. Og fjöldi ungmenna getur ekki þrátt fyrir það veitt sér það sárþráða hnoss, að fara í skola, af því blátt áfram, að þau vantar peninga til þess. Hv. þm. virðist hafa þá hugmynd, að ungmenni úti um sveitir landsins eða í kaupstöðunum gangi iðjulaus og því sé þetta hin mesta blessun að gefa þeim kost á 7 vikna vinnu. Þess vegna mættu þau krjúpa á kné og þakka hv. flm. auðmjúklega fyrir það, t. d. að fá að vinna kauplaust í 7 vikur hjá sýslumanninum á Efra-Hvoli eða prestinum á Breiðabólsstað eða bóndanum á Reykjum. Slík kvöð mundi hinsvegar í flestum tilfellum verða til þess, að unglingunum væri fyrirmunað að komast í skólana, því að það, sem þeir hefðu afgangs þessum 7 vikum, til að vinna fyrir skólakostnaðinum, mundi ekki hrökkva til að borga skólaveruna. Það er eins og hv. þm. haldi, að unglingarnir hafi fulla vasa af peningum. Og máske óttast hann um, hversu þeir kunna að vera fengnir, eins og höfundar frv., því að þeir geta þess — ég held í „biblíunni“ —, að það gæti verið hættulegt, ef peningarnir, sem gengju til að greiða skólagjald, væru ef til vill fengnir fyrir einhverja rányrkjuvinnu, „eða fyrir fiskþvott í útverum“ — eins og það er orðað þar — kannske fiskþvott í Vestmannaeyjum? Já, þvílík hætta! ! ! Nei, sannleikurinn er nú sá, að unglingar í sveitum og kaupstöðum þessa lands eiga fullt í fangi með að nota sér það eftirlæti, sem ríkið gefur þeim kost á með núverandi skipulagi um skólagöngu í unglingaskólana, þótt þeim kannske takist það, ef heilsan ekki bilar, þótt ekki sé farið að taka af þeim 7 vikna vinnu, til þess að gera þeim það mögulegt. Ég veit ekki, hvort það er tilgangur hv. flm. að útiloka unglingana frá skólunum með þessu ákvæði, en þeir ættu að geta séð, að sú verður afleiðingin. Hv. 1. þm. S.-M. var að tala um það, að ég hefði sagt, að þetta ákvæði mundi fæla unga menn frá því að vilja dvelja í þeim héruðum, þar sem þessi vinnukvöð gilti, og taldi það fjarstæðu. Ég vil benda honum á, að ef þetta ákvæði væri t. d. lögleitt í Mjóafirði, þar sem hv. þm. á heima, að unglingarnir yrðu að vinna þar kauplaust í 7 vikur gegn ókeypis kennslu í skólunum, sem þeir síðan alls eigi gætu notfært sér vegna þessarar þungu kvaðar, en á Norðfirði væri aftur á móti engin slík kvöð lögð á, þá þætti mér ekki undarlegt, þó að unglingarnir í Mjóafirði, sem þyrftu að þræla í sjö vikur kauplaust, öfunduðu jafnaldra sína í nágrannakaupstöðnum, sem alveg væru lausir við þessa kvöð. Það er ekki svo að skilja, að kennslan og húsnæðið sé það eina, sem nemendurnir þurfa að greiða. Þeir þurfa einnig að borga fæði, bækur og fleiri kostnað í skólunum, og það verður flestum nægilega erfitt, þótt þessi lögþvingaða vinna bætist ekki ofan á.

Brtt. hv. þm. Seyðf. gerir töluverða röskun á vinnuhugmynd þessa frv. Er þar jafnvel gengið ennþá lengra en í frv. Þar er sýslun. og bæjarstj. gefið vald til þess að ákveða, hve lengi menn skuli vinna kauplaust. Eftir þeirri brtt. gæti t. d. bæjarstj. í Vestmannaeyjum skyldað alla unga menn í kaupstaðnum til þess að vinna kauplaust allt sumarið fyrir bæinn, vitanlega gegn skólaréttindum, sem þeir svo gætu ekki notað sér, Ég verð að líta svo á þetta frv. og brtt., að því sé fleygt hér inn í d. lítt hugsuðu, og þeir, sem með því tala, leggja mjög misjafnan skilning i, hvað í því felist.

Hv. þm. Vestm. talaði um það, að ég mundi hafa góða reynslu í því, að karlar og konur væru saman í skóla. Að svo miklu leyti, sem ég hefi reynslu í því efni, þá hefi ég ekkert nema gott um hana að segja. Ég á tvær dætur og einn son, sem öll hafa gengið í alþýðuskóla í mínu héraði. Er ég mjög ánægður yfir minni reynslu í þessu efni. Hann var og að minnast á árlegar skýrslur þessara skóla. Já, ég hefi lesið þær skýrslur með ánægju. En hér er ekki verið að tala um að skipta skólunum, eins og ég hefi áður vikið að, hér er aðeins verið að útiloka kvenþjóðina frá skólagöngunni. (JJós: Hv. þm. misskilur). Það getur verið. Það er erfitt að festa fingur á því, hvað hv. flm. meina, því að þeir leggja mjög mismunandi skilning í hvað felist í frv. Hv. 2. þm. Skagf., sem nú kvaddi sér hljóðs, talaði um þegnskyldu og að nú mundi fallegt að litast um í sveitum lands vors, ef þegnskylduvinna hefði verið starfrækt síðustu 200 árin. Það er létt að kasta fram fullyrðingum um að forfeður okkar hafi hagað sér óviturlega í einu og öðru. En allt þegnskylduvinnuskraf er alveg út í hött í sambandi við þetta frv., sem ekkert vikur að þeirri hugmynd.

Ég játa það að vísu, að eftir 200 ár myndi öðruvísi um að litast í sveitum landsins, ef það væri fyrirskipað, að öll vinnufær ungmenni væru skyldug til að vinna eitt ár, hvort heldur væri 7 vikur eða allt sumarið að nauðsynjamálum héraðanna. En ég verð að halda fram, að með þessu móti væru lagðar svo þungar kvaðir á ungmennin, að ekki væri við hlítandi. Vel má vera, að það sé hugmynd flm., að þetta sé gott og blessað, en ég get ekki skrifað undir það.