02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3141)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Þetta eru orðnar langar umr., og skal ég ekki vera þess valdandi að lengja þær mjög úr hófi frá því, sem orðið er. Þó get ég ekki stillt mig um að svara hv. þm. Borgf. nokkrum orðum. Það er svo um hann sem aðra, ef þeir vinna eitthvert skemmdarverk, þá eru þeir að telja mönnum trú um, að þau séu til góðs. Ég skil ekki í því, að hann gæti, þótt hann héldi hér margra klst. ræðu, talið nokkrum trú um, að hann hefði unnið gagnlegt starf fyrir þetta mál með brtt., sem hann fékk samþ. Vitanlega er það hinn mesti hemill, sem hægt er að setja á framkvæmd málsins. Sér er nú hver stuðningurinn við mál, til þess að koma því áfram og reyna gildi þess, að banna hvarvetna á landinu að reyna það nema á einum einasta stað. Það er meiri hugurinn, einlægnin og góðvildin, sem þar fylgir máli til hjálpar. Hann taldi það vera að lýsa vantrausti á málefninu, ef ég gæti ekki fallizt á, að þessu yrði þannig hagað. Ég fyrir mitt leyti sé ekki, á hvern hátt er hægt að lýsa meira vantrausti á því en að banna yfirleitt, að nokkur megi reyna það nema þessi eina sýsla, þar sem það á upptök sín. Hann talaði af miklum móði um, að ef þessi breyt. hefði ekki verið gerð á frv. hér í d., þá hefði það ekki náð fram að ganga og eigi fengið nægilegan stuðning í Ed. Ég veit ekki um einn einasta mann í þessari d. eða Ed., sem myndi hafa brugðizt fylgi við frv., þótt þessi breyt. hv. þm. Borgf. hefði ekki komið fram, nema hann sjálfan, því hann hefði vissulega brugðizt fylgi við það, enda látið svo í veðri vaka. Á því sest enn betur, af hve heilum hug þetta var gert.

Hv. þm. S.-Þ. minntist aðallega á það, hve við töluðum á við og dreif um málið, en vildi svo vera láta sem slíkt kæmi ekki frá þeim, sem andmæltu, þótt hv. 2. þm. Reykv. byrjaði hér á að ræða almennt um málið og þær breyt., sem fram eru komnar, eins og ekkert hefði verið við það fengizt áður og verið væri að taka það til 1. umr. hér í hv. d. Ég vil að lokum benda á eitt atriði hjá hv. þm. S.-h., þar sem hann gerði mjög mikið úr því, að með þessari breyt. sé gert svo dýrt fyrir unglinga að menntast, að innan skamms myndi enginn eiga kost á að komast í skólana. Ég get ekki hugsað mér, hvernig hægt er að fá þetta út úr frv., sem reynir að reisa hinar sterkustu stoðir, sem hugsazt getur, til þess að sem flestir unglingar geti notið lýðfræslu í landinu, þar sem beinlínis er gert að skyldu, að allir unglingar, 18 ára að aldri, skuli vinna sér inn skólaréttindi, og geta gengið í skóla og geta opnað þá fyrir sér fjárhagslega. Eins og tekið er fram strax í nál. meiri hl. menntmn., er það einn höfuðkostur við þetta frv., að það reynir að styðja að því, að sem flestir unglingar á okkar landi geti í framtíðinni komizt inn í skólana. Hvort sem þeir eru ríkir eða snauðir, bara ef þeir hafa heilbrigðan og hraustan líkama til að vinna það starf, sem ætlazt er til að leysa vinnuskylduna af hendi.