03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (3151)

159. mál, framfærslulög

Jón Jónsson:

Eins og hv. dm. er kunnugt, fer þetta frv. fram á gagngerða breyt. á fátækralöggjöfinni. Landið er óbeinlínis gert að einu fátækrahéraði með því að gera fátækrakostnaðinn sameiginlegan fyrir allt landið. Þetta er svo stórfelld breyt., að við í allshn. álítum, að ekki gæti komið til mála, að hv. d. afgr. þetta mál án nákvæms undirbúnings, og að hæstv. stjórn þyrfti að sjálfsögðu að hafa málið til meðferðar. Við teljum það gefið, að framfærslukostnaður verði meiri í landinu með þessu fyrirkomulagi, með því að einstakar sveitarstjórnir hafa nú ekki lengur sérstaka ástæðu til þess að setja aðhald í því efni. Ég geri þá till. í málinu f. h. allshn., að því verði vísað til stjórnarinnar. Að öðru leyti get ég vísað til þeirra umr., sem fram fóru um málið á síðasta vetrarþingi.