03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (3152)

159. mál, framfærslulög

Bjarni Snæbjörnsson:

Þegar þessi tvö frv. komu fram sitt í hvorri d. snemma á þinginu, þá bjóst ég við, að einhver endanleg lausn fengist á þessu máli, því allir eru sammála um það, að fyrirkomulag það í fátækramálum, er við búum við, sé óviðunandi. Í umr. var talað um og búizt við samvinnu milli allshn. beggja deilda, og þar sem einn af flm. frv. í Nd. var sjálfur form. allshn., þá bjóst maður við, að eitthvað yrði nú gert. En eftir uppýsingum frá hv. allshn. þessarar hv. d. hefir tíminn liðið svona, að aldrei hefir fengizt tækifæri þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og eftirgangsmuni að fá hv. allshn. Nd. á fund til þess að ræða um málið. Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum út af því, að ekkert hefir verið gert í málinu, því það má telja vonlaust um rétta frv., og væri réttara að vísa því frá þegar heldur en að vera að tefja dýrmætan tíma þingsins með því að ræða það fyrst og vísa því síðan frá. Það er ekki um annað að gera fyrir þessa d. en að bíða átekta um, hvað gerist í Nd. Það er að vísu rétt, að ýmsir kaflar í því frv. eru ekki svo góðir sem ákjósanlegt væri, um það t. d., hvernig fátækrakostnaðurinn er reiknaður og honum skipt, en frv. hefir þann kost, að sveitarfélögin hafa töluvert hönd í bagga með um þessi mál, enda eðlilegt, að sveitarfélögin hafi „interessu“ af því að fara varlega í að stofna til kostnaðar.

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta frv., af því ég álít eins og ég tók fram, að það verði aðeins til að tefja þingstörfin. En ég get ekki stillt mig um að láta í ljós undrun mína yfir því, að sjálfur form. allshn. hv. Nd. skuli hafa flutt frv. um þetta nauðsynjamál, en ekki látið sér detta í hug að láta neitt nál. koma fram.