03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3154)

159. mál, framfærslulög

Jón Jónsson:

Hv. þm. Hafnf. kvartaði yfir lélegri afgreiðslu þingsins á þessum fátækramálum. Það má segja, að ekki hafi verið fljótt við brugðið, en þó verð ég að halda því fram, að ef frv. það, sem er hér síðar á dagskránni í dag, nær að verða að lögum, sé mjög sómasamlega gengið frá afgreiðslu málsins í þetta skipti. Ég verð að halda því fram, að aðalannmarkarnir, sem komið hafa fram á fátækralöggjöfinni, séu hin mikla misjöfnun milli sveitarfélaganna um framfærslu. Ef frv. það, sem ég áður gat um, verður gert að lögum, væri á því ráðin mikil bót, sú bót, sem eftir atvikum er frekast hægt að gera. Mér skildist hv. þm. átelja mjög form. n. í Nd. og nefndina fyrir slælega framgöngu. Mér fyndist þingið myndi hreinsa sig nokkurnveginn af afgreiðslunni, ef það leyfði þessu síðara frv. fram að ganga.

Hvað aths. hv. 2. landsk. viðvíkur um tilgangsleysi till. minnar um að vísa málinu til stj., þar sem hún myndi ekki sinna þeirri afgreiðslu mikið, þá er ekkert hægt um það að segja. Því að það, sem hún hefir lagt núna fyrir þingið, segir ekki beint um það, vegna þess að þingið í sumar vísaði einungis til hennar ákveðnu atriði og bað hana að athuga lausn ákveðins vandamáls, og það hefir hún gert. Ef þingið aftur á móti vill fá víðtækari athugun. Þá tel ég sjálfsagt, að stj. muni taka það til athugunar, hvort fært væri að gera það, svo að mér finnst þetta mjög samræmanlegi. Stj. mun þá athuga, hvort hún kemst að líkri niðurstöðu og í frv., þótt ég voni, að hún komist það nú ekki. En ég tel sjálfsagt, að hún athugi það og leggi niðurstöðurnar á einhvern hátt fyrir þingið. (JBald: ég held, að það sé bezt, að hún athugi það ekki.). Það hefir nú hver sína meiningu um það.