03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3156)

159. mál, framfærslulög

Páll Hermannsson:

Ég tel víst, að það fari svo um þetta frv., að það verði ekki að lögum á þessu þingi, a. m. k. virðist mér allar ástæður, sem fyrir hendi eru, benda til þess. En ég vil taka það fram, að ég er í rauninni þakklátur hv. 2. landsk. og hans flokki fyrir þær till., sem þeir hafa þing eftir þing borið fram í fátækramálum. Mér skilst, að þeir hafi fyrstir allra komið auga á það, að ástand fátækramálanna hefir verið lítt þolandi, og alltaf er að koma betur og betur í ljós, að það er að verða óþolandi. 4 það hefir verið minnzt, að líkindi væru fyrir, að í gegnum þingið kæmist einskonar bráðabirgðaumbót á þessu ástandi, og ég hygg, að þessa bráðabirgabót, ef bót verður, megi pakka hinni stöðugu sókn jafnaðarmanna á hendur þess ólags, sem í fátækramálunum hefir ríkt. Mér finnst vel þess vert að láta þessa getið frá þeirra hálfu, sem svona líta á. Ég er sammála þeim, sem halda því fram, að frv., sem hér verður til umr. næst á eftir, sé bráðabirgðabót, en ég er jafnframt sammála hinum, sem ekki vilja viðurkenna þetta nema aðeins bráðabirgðabót. Þótt ég líti svo á, að frv. muni ekki verða að lögum á þessu þingi, mun ég samt gefa því atkv. mitt til 3. umr. mér þykir rétt að lofa því að lifa núna fyrst, til þess að sjá, hvað verður um frv., sem kemur næst á eftir. Það er vitanlega þessu máli mikið tjón, að ekki hefir unnizt tími til að endurskoða það, og hefir það því ekki fengið þá lagfæringu, sem ætlazt er til, að mál fái við afgreiðslu í nefndum.