03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

159. mál, framfærslulög

Guðrún Lárusdóttir:

Hv. þm. Hafnf. tók eiginlega að mestu leyti fram það, sem ég hefði viljað segja. Það er nú svo um þessi frv., sem standa hér hlið við hlið á dagskránni, að tæplega er hægt að tala um annað án þess að minnzt sé á hitt. Og ef farið er í samanburð, þá blasir fyrst við mér sá mismunur, að það frv., sem kemur hér á eftir, er nokkurskonar forsvari eða fulltrúi sveitarfélaganna, gjaldendanna, þeirra, sem eiga að bera byrðarnar. En það frv., sem nú er til umr., er forsvari eða fulltrúi einstaklinganna, fátæklinganna, sem eiga að búa við lögin. Ég geng þess ekki dulin, að þótt ýmislegt megi með gagnrýni finna að frv. til framfærslulaga á þskj. 159, þá ber það þó með sér talsverðar réttarbætur til þurfamannanna. T. d. er þar ein gr., sem ég held, að mörgum mundi þykja vænt um, að yrði að lögum, en það er 33. gr. frv., þar sem talað er um, hvaða styrkir það séu, sem eiga að vera óafturkræfir, sem sé þeir styrkir, sem menn þurfa að þiggja af óviðráðanlegum orsökum, svo sem vegna heilsuleysis, slysa eða ómegðar og annars þvílíks. Það er nefnilega geysilega mikill munur á því, af hverju styrkþágan stafar. Allir sjá, að það er mikill munur á því, hvort menn þiggja styrk vegna veikinda eða einhverrar óforsjálni, slysa eða leti og ómennsku, vanrækslu eða fyrir illa meðferð á fjármunum, og þannig má lengi telja. Þessi grein tekur það skýrt fram og greinir í sundur, hvaða styrkir skuli teljast sveitarstyrkir og hverjir ekki.

Þegar frv. var hér til umr. á sumarþinginu, benti ég á nokkur atriði, sem ég hefði viljað koma að í því. Mér fannst, að úr því að farið var að gera svo róttækar breyt. á fátækralögunum, þá hefði átt að nota tækifærið til að smeygja þar inn sem flestu af því, er gæti orðið lítilmögnum þjóðfélagsins að liði.

Ég vil minnast á 19. gr. fátækralaganna, þar sem talað er um greiðslu barnsmeðlaga. Nefnd kvenna hér í bænum, mæðrastyrksnefndin, lét bera fram á Alþingi frv. til leiðréttingar á meðlagsgreiðslunni, en málið strandaði ásamt fleiri málum við þingrofið fræga; það kom sem sé daginn eftir að frv. var lagt fram hér í hv. d., og málinu hefir ekki verið hreyft síðan, sökum þess að barnsmeðlög hafa hækkað allmikið á yfirstandandi ári, svo að við má una næstu þrjú árin. 19. gr. fátækralaganna gerir ráð fyrir, að barnsmeðlags skuli krafizt af lögskyldum framfærslumönnum barnsins, að undangengnu árangurslausu lögtaki hjá barnsföður, áður en til sveitarinnar sé leitað eftir meðlagsgreiðslunni. Getur hér orðið alltaf söm innheimta, og ólíkt betra að byrja hjá sveitinni, láta sveitarstjórnina leggja út upphæðina og innkalla hana svo hjá viðkomandi framfærslumanni. Liggur það í augum uppi, hve örðugt það getur orðið og vandræðalegt fyrir barnsmæður að standa í slíku þjarki út af meðlagi barna sinna, og réttlát lausn á málinu, að barnsmæður hafi beinan aðgang að sveitinni með slíkar greiðslur, án þess að þurfa að fara nokkrar krókaleiðir. Ég gæti tínt fleira til, en næsti liður á dagskránni gefur tilefni til að halda áfram umr. um fátækramálin. Ég vil láta það í ljós, að yfirleitt er ég sammála þessu frv. og vil gjarnan greiða því atkv. mitt.