17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Mér finnst lítil ástæða til þess fyrir hv. þm. Borgf. og hæstv. fjmrh. að karpa um frv. rétta, því að á ræðum þeirra beggja er það auðheyrt, að þeir eru báðir sammála um það, að sjálfsagt sé að samþ. bæði þetta frv. og einnig önnur, sem ganga í svipaða átt. En þeir um það. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þál., sem samþ. var í þessari d. á síðasta þingi, þskj. 446, um ráðstafanir gegn dýrtið og atvinnuleysi:

„Neðri deild Alþingis ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka, á hvern hátt heppilegast sé að vinna gegn dýrtíð þeirri, sem nú ríkir í landinu, einkanlega í Reykjavík, svo og gegn yfirvofandi atvinnuleysi, og leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta Alþingi. Sérstaklega athugist:

a. Möguleikar til lækkaðrar húsaleigu.

b. Óeðlilega hár verzlunarkostnaður innlendrar og erlendrar vöru.

c. Leiðir til að vinna gegn yfirvofandi atvinnuleysi“.

Ég hygg, að ég muni það rétt, að það hafi verið samflokksmenn hæstv. fjmrh., sem í þinglokin sér til samvizkufróunar fluttu þessa þáltill. hún var samþ. og henni vel tekið af hæstv. stj.

Nokkuð er tekið að bola á stjfrv. Hér er nú verið að ræða um að þrefalda skatt á öllum bílflutningum innanlands. Er það eitt ráðið til þess að draga úr dýrtíðinni? Árið 1930 var bifreiðaskatturinn 108 þús. kr. Hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir, að hann verði 300 þús. kr., ef þetta frv. verður samþ. hér liggur og fyrir frv. um að framlengja bráðabirgðaverðtollinn frá 1924 og gengisviðaukann frá sama ári. Mér leikur hugur á að vita, hvaða framkvæmdir hæstv. stj. hefir gert í sambandi við þáltill. þá, sem ég las upp. Ég gat ekki skilið annað á ræðu hæstv. fjmrh. en að þeir, hann og hv. þm. Borgf., séu innilega sammála um það, hvernig mæta skuli kreppunni, eins og hann orðar það. Það er að þeirra dómi bezt gert með því að viðhafa hinn „ýtrasta sparnað“ og með því að hækka tolla. Þessi ýtrasti sparnaður kemur fram í því, eins og hv. þm. Borgf. réttilega benti á, að verklegar framkvæmdir verða stórkostlega skornar niður, ef þeim ekki verður alveg hætt. Það getur og jafnvel verið, að ganga verði svo langt að skerða eitthvað tekjur hálaunaðra manna í nýstofnuðum embættum. En aðallega verður það þó niðurskurður á verklegum framkvæmdum og lækkun á launum láglaunamanna, sem gripið er til, eins og frv. stj. ber með sér. Er það þetta, sem stj. ætlar að gera til þess að bæta úr því yfirvofandi atvinnuleysi og draga úr dýrtíðinni, sem hún átti sérstaklega að ráða bót á?

Hæstv. fjmrh. sagði, og hv. þm. Borgf. tók undir það, að þetta væru alvarlegir krepputímar. Þó að ekkert væri dregið úr framkvæmdum ríkisins, yrðu margir atvinnulausir. Hvað mun þá, ef stórkostlega er dregið úr framkvæmdunum? Og á að minnka dýrtíðina með því að framlengja tollana og bæta nýjum við?

Ég vil nú þegar við 1. umr., fyrst annars var farið að ræða þetta frv., spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh. eða þá atvmrh., hvaða ráðstafanir stj. hafi á prjónunum í sambandi við þá þál., sem ég minntist á, aðrar en þær, að draga úr framkvæmdum og auka með því atvinnuleysið og hækka tolla og auka þar með dýrtíðina.