09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (3174)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi flutt brtt. við upprunalega frv. og vil segja um hana nokkur orð frá sjónarmiði stj., ekki að því leyti sem hún er atvinnumál, heldur sem löggæzlumál. Öllum er kunnugt, að ástæðan til þess, að þingið hefir hallazt að því að loka landhelginni nokkuð mikið fyrir dragnótaveiðum innlendra manna, hefir verið sú, að við erum í sambandi við aðra þjóð, sem er miklu mannfleiri og getur haft ákaflega mikil áhrif í þessu efni og hefir viljað nota sinn hátt hér. Ennfremur hefir þingið fram að þessu stuðzt nokkuð við skoðun fræðimanna, sem álíta nauðsynlegt að friða ungviðið sem mest í landhelgi til þess að halda við veiðinni. Um þetta mál urðu miklar umr. á síðasta þingi, og það var í raun og veru að því komið, að það væri gerð á þessu nokkur rýmkun til bráðabirgða, vegna þess ástands, sem nú vofir yfir, þessa erfiða ástands fiskimannanna. Það varð nú ekki, en í þinglok, af því að málið dagaði uppi, skrifaði meiri hl. þm. undir áskorun til stj. um það að leyfa með bráðabirgðalögum, ef nauðsyn bæri til, undanþágu svipaða og meiri hl. sjútvn. leggur nú til. Þetta var að vísu ekki gert, en það komu í ljós ákaflega miklir erfiðleikar á að framfylgja þessum lögum. Ég vildi skjóta því til þess manns hér í d., sem hefir verið einna hættulegastur mótstöðumaður þess að leyfa rýmkun, hv. þm. Borgf., hvernig hann álíti, að hægt sé að framfylgja þessum lögum, ef t. d. allir hans fiskimenn hafa út úr neyð farið að veiða í landhelgi og þar af leiðandi gerzt brotlegir við lögin. Það yrði þá að taka alla fyrirvinnu á Akranesi og láta hana afplána sektina fyrir þetta. Þetta atvik kom fyrir í haust sem leið í álíka stóru plássi og Akranesi, í Keflavík. Þar höfðu yfir 20 formenn orðið brotlegir við lögin gagnvart sínum nábúum í Garðinum. Ef ekki hefði farið svo, að Garðsbúar litu á nauðsyn nágranna sinna og féllu frá ákærum, þá hefði orðið að taka alla fyrirvinnu í þorpinu og láta vinna af sér þetta brot í fangelsi um langan tíma. Ég vil taka það fram, að þetta er ekki einungis hér suður með sjó; þetta getur komið fyrir víðsvegar um landið, en ég skal ekki nefna nein dæmi, sem svipað hefir átt sér stað. En ég vil benda á það, að fyrir stj., hver sem er, getur farið svo, að erfitt verði að framfylgja þessum l. eins og þau hafa verið, þegar hallæri er í landinu, og þetta er máske eina bjargarvonin, að veiða með dragnót í landhelgi á sömu miðum, sem þessir sömu fiskimenn eru vanir að leggja net sín og þeir skoða sín heimamið. Þá fer að vanta siðferðislegan rétt til þess að ganga hart að þessum mönnum. Nú álít ég að vísu ekki ástæðu til, að þingið geri breyt. í þessu efni til langframa, en mér finnst eins og á stendur með afkomu fiskimanna, að fullkomin ástæða sé til að gera nokkur bráðabirgðaákvæði um þetta, og þess vegna er till. mín á þskj. 474 um það, að landhelgin sé friðuð aðeins vertíðina, eða vel það, og þessi undanþága gildi í 2 ár. Þessi till. mín er gerð í samráði við forseta Fiskifélagsins, sem er ákaflega áhugasamur um allt, sem við kemur málum sjómanna, og hans skoðun er sú og þar styðst hann við álit fiskifræðingsins Árna Friðrikssonar, að engin ástæða sé til að friða landhelgi fyrir dragnót nema um hrygningartímann sjálfan. Öllum hv. þm. er kunnugt um skoðun fiskifræðingsins, og hún gengur í raun og veru móti löggjöfinni, sem við höfum nú. En aftur á móti er þetta hagsmunamál, og á þann hátt hefir verið um það deilt. Menn líta á þetta sem hagsmunamál milli einstakra hreppa og verstöðva. Ég lít þess vegna þannig á, að vegna þess sérstaka erfiða ástands, sem er í landinu, þá sé rétt, að það sé gert sem hallærisráðstöfun að banna ekki dragnótaveiðar nema yfir vertíðina. En þar sem meiri hl. sjútvn. telur þetta of langt gengið, þá tel ég enga von til þess, að þetta fái samþ. á þingi. Ég verð að játa, að næst minni till. álít ég vera till. n., sem gengur út frá því að lengja veiðitímann og heimila stj. að upphefja stund og stund í einu bann á einstökum stöðum. Þetta hefir að vísu aldrei verið reynt, en af ástæðu, sem hv. þd. skilur. en aldrei hefir verið farið mikið út í við umr., þá hefir þessi aðferð vissa kosti. Ég treysti því, að þeir, sem eru mótfallnir því að gera stórar breyt., geti samþ. till. n., þannig að þetta fyrirkomulag verði athugað, hvort ekki væri hægt að hjálpa fiskimönnum með undanþágum á vissum veiðistöðvum um stundarsakir. þegar menn athuga, hvað nú kreppir mjög að fiskimönnum landsins og að aflamöguleikarnir eru helzti þátturinn í bjargráðamöguleikum okkar fiskimanna, og þegar heilir firðir, eins og t. d. Austfirðir, hafa á síðasta ári lagt stórfé í að kaupa þessi veiðitæki og þar við bætist, að neyð almennings getur knúð bátaeigendur til þess að virða lögin að vettugi, þá vil ég treysta því, að hv. d. láti sinn dóm í málinu ganga, ekki þó með löngum umr., játandi eða neitandi, svo að úr því verði skorið, hvað þingið vill í þessu efni.