09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

ég ætla ekki að lengja umr. mikið. Ég vil aðeins leiðrétta örfá atriði í ræðum andstæðnga frv.

Hv. þm. N.-Þ. færði sér það til afsökunar fyrir því, að hann legðist gegn frv., að margar og almennar raddir væru uppi í kjördæmi hans um skaðsemi dragnótaveiði, og er það að vísu nokkur afsökun:

En eigin reynsla hans í þessu máli er lítils virði, þar sem hann hefir ekki haft aðstöðu til þess að kynna sér það, nema þennan stutta tíma á dragnótabátnum. Þá fannst honum undarlegt, að Íslendingar, jafnduglegir fiskimenn og þeir væru, gætu ekki veitt kolann eins og Englendingar. Ástæðan fyrir því er sú, að Englendingar hafa stærri og fjölmennari flota hér við land en við og eru orðnir miklu vanari skarkolaveiðum. Mismunurinn á veiðinni er líka mjög mikill. á árunum 1915–19 er skarkolaveiði Íslendinga t. d. að meðaltali 140 smál. á ári, en Englendinga 1758 smálestir. 1920–24 er meðalafli Íslendinga 522 smál. á ári, en Englendinga 5892 smál., eða meira en 10-falt hærri. 1925–29 er meðalafli Íslendinga 454 smál., en Englendinga 5570 smál. á ári. Þetta er samkv. skýrslum Árna Friðrikssonar fiskifræðings, sem styðst við opinberar skýrslur um alþjóðaveiðar, sem gefnar eru út í Frakklandi og taldar eru hinar ábyggilegustu heimildir, sem fáanlegar eru um þessa hluti, byggðar á hagskýrslum landanna. þessi mikli munur er fyrst og fremst því að kenna, að Bretar hafa miklu fleiri skip en Íslendingar, og auk þess erum við að nokkru leyti byrjendur hvað togaraveiðarnar snertir, en Englendingar eru þar miklu eldri í hettunni. Ég hefi t. d. heyrt, að meðal gamalla enskra togaraskipstjóra séu margir, sem þekkja sjávarbotninn kringum Ísland betur en nokkur Íslendingur. Er þetta í sjálfu sér ekkert undarlegt, því að margir þeirra hafa stundað veiðar hér við land frá blautu barnsbeini svo að segja.

Hv. þm. Borgf. hélt að vanda langa og harðorða ræðu og deildi mjög á okkur, sem viljum breyta til með dragnótaveiðarnar. Hann sagði, að hér væri verið að rífa niður þann múr, sem mest væri til verndar fiskveiðum okkar. Um þetta hefir hann aðeins sína persónulegu skoðun. Undir umr. um þetta mál í fyrra talaði hann mikið um þá andúð, sem væri í Noregi á móti dragnótinni. En síðan hefi ég frétt, að fram sé komið í norska þinginu frumvarp um breyting á fiskveiðalöggjöfinni að því er snertir skarkolaveiðar þar við land. Vilja Norðmenn nú, og þ. á m. þeirra mesti sérfræðingur í þessum málum, direktör Bjerkan, leyfa kolaveiðar allt árið nema um hrygningartímann, sem er 2 mán. tími. En þeir hafa sömu varúðarregluna að því er möskvastærðina snertir og er í frv. þessu. Í álitsskjali Bjerkans er farið inn á þær raddir, sem heyrst hafa í Noregi gegn dragnótaveiðunum, og sýnt fram á, að þær séu oft ekki á þekkingu byggðar. Ég ætla ekki að fara að þreyta hv. dm. á því að lesa upp álitsskjal þetta, en ég vil benda á það, að Norðmenn telja ákvæðið um möskvastærðina nægilegt til verndar ungviðinu, og Bjerkan segir sjálfur, að sér sé kunnugt um, að einmitt það ákvæði komi að beztu haldi því til verndar. Kemur þetta því mjög í bága við álit hv. þm. N.-Þ. Bjerkan segir í ástæðunum með frv., að kolann saki ekki, þó að hann sé veiddur oftar en einu sinni í „snurrevaad“; það þekki hann vel frá fiskirannsóknarferðum sínum. Annars skal ég ekki deila um þetta við þá hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Þ.

Hv. þm. Borgf. sagði, að meiri hl. sjútvn. vildi leyfa, að kolinn væri veiddur í 81/2 mán. Þetta er ekki rétt, því þó að till. okkar væru teygðar út eins og hægt er, ná þær ekki yfir nema 71/2 mán. Er kolinn því samkv. þeim friðaður í 41/2 mán. Þegar svo þess er gætt, að friðunartíminn nær yfir allan hrygningartímann, og ennfremur er lítið á það, að í Noregi er lagt til, að friðunartíminn sé aðeins tveir mánuðir, þá verður tæplega annað sagt en að till. okkar sé vel í hóf stillt.

Þá hefir verið vitnað í það hér, að ýmsum hafi mistekizt kolaveiðar í fyrra og að bátar, sem þær stunduðu bæði fyrir Austur- og Norðurlandi, hafi haft minna upp úr sér en skyldi. Í þessu sambandi er þess fyrst að gæta, að sjómenn yfirleitt voru mjög óvanir þessari veiðiaðferð, og því var ekki nema eðlilegt, að árangurinn yrði misjafn; ennfremur má vel vera, að áraskipti séu að því, hvað kolinn er mikill.

Mér þótti hv. þm. Borgf. taka helzt til djúpt í árinni, þegar hann sagði, að frv. væri til skemmdar og ills eins fyrir kolaveiðar Íslendinga, þegar sýnt hefir verið fram á það, að þau lagaboð, er nú gilda um kolaveiði, eru mest til hagsbóta útlendingum einum, en síður okkur. Með því að vernda kolann inni í landhelginni ala Íslendingar hann vandlega upp fyrir útlendingana, er fiska utan og innan landhelgislínunnar. Við höldum því aftur fram, að Íslendingar eigi sjálfir að fá sinn hlut óskertan af þessari veiði, og því viljum við leyfa bátum að stunda hana lengri tíma en nú er leyfilegt samkvæmt gildandi lögum. Verði frv. því samþykkt, fáum við meiri hlutdeild í veiði þessari en verið hefir hingað til.