17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Seyðf. telur þess ekki þörf á slíkum tímum sem nú að spara eða leggja á nýja tolla. Það má til sanns vegar færast, að það hjálpaði meira almenningi, að aukin væri eyðsla og þar með atvinna og tollar lækkaðir. Ég kannast við jafnaðarmannstjórnir í þremur ríkjum, Englandi, Danmörku og Sviþjóð, sem setið hafa við völd á krepputímum, og ég veit ekki til, að nein þeirra hafi haft annað ráð en þetta, að draga úr útgjöldum og auka tolla. Um þetta er aldrei spurt, en svo kemur deilan um það, úr hvaða kostnaði eigi að draga og hvaða tolla eigi að hækka, og um það verður alltaf deilt.

Hv. þm. Seyðf. sagði í sinni ræðu, að við vildum draga úr dýrtíðinni með því að þrefalda skatt á flutningum innanlands. Ég get vel tekið undir þetta. Ég tek undir það, að það er verið að draga úr erfiðleikum þeirra, sem eiga við vonda flutninga að bíla, þegar aflað er nýrra skatta, sem eingöngu er varið til vegagerða. Þar hjálpast allir að til þess að hægt sé að verja meiru fé til nýrra vega. Skatt, sem lagður er á flutninga flutninganna vegna, þarf ekki að gera tortryggilegan með því að hann sé eingöngu til að auka dýrtíð. Hv. þm. og hans flokksbræður ættu að tala um þetta við Stauning, sem nú er að koma benzínskattinum upp í 10 aura á hvern lítra.