09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (3180)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi ekki mikla ástæðu til þess að blanda mér inn í þessar umr., þótt hv. þm. N.-Þ. hafi að nokkru leyti skorað á mig. En ég vil minna á það, sem komið hefir fram hjá hæstv. dómsmrh., að bjargráðaraðstöfun sú, sem hér um ræðir, er e. t. v. sú eina, sem hægt er að ráðast í nú vegna hins aðþrengda bátaútvegs. Nú verður að grípa hvert ráð, sem hægt er, til þess að bæta hag fjöldans, sem við sjóinn býr og minnst viðnám getur veitt í kreppunni. Hv. þm. virtist hneykslast á því, að ég fylgdi nú rýmkun veiðiréttarins með dragnótum, af því að ég hefði áður verið á móti henni. Þetta þarf ekki að vera honum ráðgáta. Það er kunnugt, að þegar l. um dragnótaveiðar í landhelgi voru sett 1928, þá var aðalorsökin til þess, að veiðiréttur landsmanna var svo mjög takmarkaður, sú harðvítuga samkeppni, sem átti sér stað frá hálfu Dana og Færeyinga. Var það sameiginlegt álit flestra þm. þá, að takmarka ætti veiðiréttinn sem mest, vegna þegnréttarins sameiginlega við Dani, til þess að landsbúar gætu einir setið að arðvænlegri veiðum í landhelgi eftir 1943. En nú stendur svo á, að úr öllum landshlutum er óskað eftir atbeina til þess að letta kreppuástandið og hlynna að hnignandi atvinnu. Hefir okkur því, sem viljum annars geyma hlunnindi landhelgiveiðanna um sinn, snúizt að vissu leyti hugur. Viljum við nú í aðkallandi nauðsyn gera eina af þeim fáu tilraunum, sem hægt er að gera, til þess að létta undir með veiðimönnum landsins og rýmka veiðileyfið. Ef tekin verður upp mögnuð samkeppni um dragnótaveiðina af Dana hálfu og Færeyinga, mun árangurinn koma fljótt í ljós, og er þá hægt að færa löggjöfina í sama horf aftur. Þótt sú samkeppni kynni að verða harðvítug, ætti þó að vinnast, að hagur landsins barna yrði eitthvað betri á þessum örlagaþrungnu tímum. Þykist ég nú ekki þurfa að gera aðra eða frekari grein fyrir því, hvers vegna ég legg ekki eins mikið kapp á það og áður að geyma þessi hlunnindi ósnortin til seinni tíma. Vafalaust er víða í verstöðvum landsins áhugi fyrir tilraunum til dragnótaveiðar, enda veiðitækin nú víða fengin.

Út af upplýsingum hv. þm. um tilraunir til dragnótaveiða á Austfjörðum síðastl. haust vil ég geta þess, að þótt þær tilraunir gæfust illa, er lítið á því að byggja. Veiðitækin komu ekki fyrr en komið var fram á vetur, þegar ekki var hægt að hafa þeirra full not. Hitt, sem hann nefndi um sunnlenzka veiðimenn, sem eystra voru að kolaveiðum, er engu síður villandi. Þeir öfluðu að vísu lítið, næstl. haust, og stafaði það sumpart af lítilli kolagengd, en sumpart af því, að veiði hófst seint og kolinn var þá genginn í djúpið. Hinsvegar veiddu þessir sunnlenzku dragnótabátar vel 1930, sem stunduðu veiðarnar. Eru auðvitað áraskipti að göngu kolans eins og annara fiska. Má líka á það minna, sem ýmsum hv. þdm. er kunnugt, að fyrir Austurlandi eru fáir staðir hentugir fyrir kolaveiði, vegna hafdýpis, sem víða nær fast að ströndinni.

Með þessu álít ég mig hafa svarað því, sem ég þarf að svara. Með frv. eru skapaðir möguleikar til þess að létta sjálfsbjargarviðleitni margra, — ekki aðeins Austfirðinga, sem hafa varið miklu fé til að afla sér þessara veiðitækja án þess að fá færi á að notfæra sér þau verulega, heldur líka verstöðva margra hér syðra og vestra. Má vel svo fara, að hægt verði þegar í sumar að gera tilraunir í þessu efni, sem að mikilsverðu liði koma, ef frv. þetta verður samþykkt.