09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (3181)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen:

ég verð að segja það, að mér finnst þeim skjátlast þeim skýru mönnum, sem halda því fram, að verið sé að bjarga landinu með því að opna nú landhelgina fyrir Dönum, sem eru 30 sinnum fólksfleiri en við og a. m. k. 30 sinnum auðugri, og auk þess hafa þá aðstöðu í þessum efnum, að þeir að kalla eingöngu hafa þroskað og alið sjómenn sína upp til þessara veiða. Það hefir mikið verið ritað um það í dönsk blöð, hve Danir hefðu slælega notað sér þau réttindi, sem við fengum þeim í hendur með sambandslögunum, og hefir þar aðallega verið átt við fiskiveiðaréttinn við strendur landsins, en það er vitanlegt, að það, sem fyrst og fremst hefir hamlað upp á móti því, að Danir notuðu sér þennan rétt svo að kvæði að — því að undanfarið hafa þeir aðeins haldið hér úti fáum skipum yfir sumarið — eru þau ákvæði gildandi laga, sem nú á að fara að fella úr gildi, en loka landhelginni fyrir þeim þann hluta ársins, sem þeir einkum telja sér fært að sigla hingað og vera við slíkar veiðar, þ. e. yfir sumarmánuðina. Nú eru dragnótaveiðar leyfðar 3 haustmánuðina, en samkv. þeim till., sem hér liggja fyrir, yrðu þær leyfðar í 81/2 mánuð, og þegar búið er að opna svo landhelgina upp á gátt fyrir Dönum um þessar veiðar, verður enginn þröskuldur í vegi þeirra um að fara að nota sér þessi réttindi sín hér við land. mér er það því hin mesta ráðgáta, hvernig það á að geta verið eitt hið helzta bjargræði, sem Alþingi getur fest hendur á, að fara nú að steypa yfir okkur öllum þeim danska dragnótaveiðaflota, eins og verða mundi, ef þetta frv. nær fram að ganga, enda vænti ég fastlega, að slík ógæfa eigi ekki eftir að koma fyrir. Hinsvegar hefir reynslan sýnt það, að þegar dragnótaveiðar eru stundaðar á einhverju svæði til mikilla muna, gengur veiðin vonum bráðar til þurrðar, svo að ekki er að vænta afla á hverjum stað lengur en sem svarar þeim tíma, sem nú er leyfilegt að stunda þessar veiðar. Og mér kemur það því undarlega fyrir sjónir, að hv. 1. þm. S.-M. skuli líta á þetta eins og eitthvert bjargræði, eftir þá reynslu, sem fékkst fyrir austan um þessar veiðar síðastl. haust. Hv. þm. var að vísu að reyna að skýra þetta svo, að ekki hefði verið hægt að byrja veiðarnar fyrr en svo seint, að kolinn hafi verið kominn á djúpmiðin, en þetta er ekki rétt, eins og sest á því, að bátar, sem byrjuðu fyrr, öfluðu lítið sem ekki, svo að í sama stað hefði komið, þó að dragnæturnar hefðu fengizt fyrr. Niðurstaðan hefði orðið sú sama: aflaleysi og kostnaður við útvegun nótanna (SvÓ: Hvernig var það í hitteðfyrra?), Þá voru 2 bátar við þessar veiðar, eins og hv. þm. mun vita, og öfluðu þeir að vísu dálítið, en ekki þurfti meira til þess, að þeir skæfu svo innan alla firði og vikur fyrir austan, að nóg væri til að eyðilegga veiðina með öllu.

Þetta sýnir vel, hvernig fara mundi um þessar veiðar, þegar Danir færu að stunda þær af kappi auk okkar, enda held ég, að meira ógæfuspor verði vart stigið en að fara að opna landhelgina um þessar veiðar, og það ekki eingöngu fyrir innlenda menn, heldur og líka fyrir Dani og Færeyinga, sem sitja um að komast inn á þessi mið. Og það er meiri en lítil umhyggja, sem menn bera fyrir þessum þjóðum, ef nú á að fara að offra hagsmunum íslenzku þjóðarinnar í nútíð og framtíð þeirra vegna, því að eins og hv. frsm. minni hl. réttilega tók fram, snertir þetta ekki eingöngu kolaveiðarnar, heldur tekur og líka til fleiri fiska, og þá fyrst og fremst allra botnfiska, og enda jafnvel algengt með Dönum, að þorskur sé veiddur í dragnætur. Ég hefi og orð hv. 1. þm. S.-M. sjálfs fyrir því, að dragnótaveiðarnar spilla líka fyrir öðrum veiðum. Honum farast svo orð (Alþt. 1931, sumarþing, C., bls. 180–181): „Auk þess lít ég svo á, að með þessu ákvæði um möskvastærð verði ungviðið bæði drepið og botngróðrinum spillt. Ég hefi sjálfur notað dragnót og verið við dragnótaveiðar. Dragnót er ekki, eins og hv. bm. (HG) segir, aðeins notuð þar, sem slétt er og sandbotn; hún er notuð víðar og sopar með sér gróðrinum og ungviðinu, sem svo ferst innan um stærri fiskinn“.

Allt er þetta hverju orði sannara hjá hv. l. þm. S.-M. Dragnótin dregur upp nytjafiskinn og uppfæðinginn, rótar um öllu því, sem fyrir er, og skemmir botngróðurinn og eyðileggur þannig lífsskilyrðin fyrir þeim fiskum, sem halda sig á þessum grunnsævismiðum. Þessi varð og raunin á í Garðsjónum, eftir að Keflvíkingar, sem hér hefir verið talað um, höfðu farið þar dragnótum sínum um botninn. Eftir það tók fyrir allar lóðaveiðar á þessum slóðum. Var ekki kvika bröndu að hafa á lóðir í Garðsjónum eftir að Keflavíkurflotinn hafði steypt sér yfir miðin þar með dragnætur sínar.

Það er ekki í fyrsta skiptið né, að lítið er gert úr áliti og reynslu sjómanna okkar ísl. í sambandi við þetta mál. Þeir menn, sem vilja opna allt upp á gátt og gera að engu allar varnarráðstafanir í þessum efnum, segja ekkert mark takandi á reynslu sjómannanna. Þeir hafi ekki vit á þessum málum og engin skilyrði til að draga ályktanir um þessa veiðiaðferð. Hið eina, sem líta má á í þessu máli, er álit sérfræðinganna og vísindamannanna á þessu sviði. Verð ég að segja það, með allri virðingu fyrir þessum vísindamönnum, að ég missi að mörgu leyti trúna á þessa fræðimennsku, þegar hún fer í bág við margra ára reynslu sjómannanna við strendur landsins. Það verður ekki tekið mark á þeirri þekkingu, sem ekki kemur heim við reynsluna.

Hv. þm. Vestm. talaði um það, að í Noregi væri nú uppi sterk hreyfing fyrir því að leyfa þar dragnótaveiði, og nefndi hann til um þetta, að fiskiveiðaráðunautur einn norskur berðist fyrir því af miklu kappi að koma þessu í kring. Benti ég á það í fyrra, að fjöldi norskra sjómanna hefði risið upp til mótmæla gegn dragnótaveiðinni og krafizt þess, að hún yrði takmörkuð til mikilla muna og helzt bönnuð með öllu, og færðu norsku sjómennirnir mörg og sterk rök fyrir því, að fiskiveiðarnar almennt væru í hættu vegna dragnótaveiðanna. Ég benti einnig á það, að Danir sjálfir, sem stunda þó flestra þjóða mest dragnótaveiðar, hafa nú horfið að því að takmarka þær allverulega, svo að þar er nú bannað að veiða með dragnótum tiltekinn tíma á hverju ári, svipað og er í lögum hér, og auk þess sem Danir þannig banna dragnótaveiðar um ákveðinn tíma af árinu, hafa einstakar héraðsstj. leyfi til að leggja bann við veiðunum á þeim tímum, sem þær eru ekki bannaðar að lögum. Sýnir þetta það, að reynslan hefir kennt Dönum, að nauðsynlegt er að takmarka dragnótaveiðarnar, og löggjöf þeirra í þessu efni er um margt svipað því, sem verið hefir í lögum hér hjá okkur síðan 1928. Sýnist og svo sem sjálfsagt sé að taka tillit til þessarar reynslu um dragnótaveiðarnar, sem Danir hafa fengið, og ætti hún sízt að leiða menn inn á þær brautir að fara nú að opna allt upp á gátt í þessum efnum, enda sitja Danir einir að sínum veiðum, en um okkur er það að segja, að með því að fara að opna landhelgina er tveimur öðrum þjóðum gefinn sami og jafn réttur um þessar veiðar og landsins eigin börnum.

Hv. þm. Vestm. talaði mikið um það, að með þessum takmörkunum á dragnótaveiðinni, sem hér eru nú í lögum, væri verið að ala upp kolann handa Englendingum, og las hann upp langar og miklar skýrslur til að sanna það, að Englendingar veiddu meiri kola hér úti á Íslandsmiðum en landsmenn sjálfir. Að Englendingar veiða hér meira af kola á djúpmiðunum, á vitanlega að nokkru leyti rót sína að rekja til þess, hve enski togaraflotinn, sem veiðar stundar hér við land, er miklu stærri en okkar innlendi togarafloti, en auk þess hefir reynslan kennt Íslendingum það, að það borgar sig betur að leggja áherzluna á þorskveiðarnar en kolaveiðarnar, og halda isl. togararnir sig því ekki eins til þeirra miða, sem kolans er frekast von, og ensku togararnir gera. Annars er það nú svo, að ef draga á þá ályktun af því, að Englendingar veiða hér meira af kola en við, að þess vegna eigi að opna landhelgina upp á gátt fyrri kolaveiðum, ekki aðeins landsmanna sjálfra, heldur og einnig Dana og Færeyinga, yrði rökrétt afleiðing af því, að meiri hl. sjútvn. bæri hér fram till. um að leyfa ísl. togurunum að vaða inn í landhelgina til þorskveiða, af því að þeir veiða einnig minna af öðrum nytjafiskum en þau fleiri hundruð erlendra togara, sem veiðar stunda hér við strendur landsins. Þetta væri alveg hliðstætt, því að það virðist ekki fremur vera ástæða til þess að nota landhelgina til að ala upp nytjafiskana handa öðrum þjóðum, og því eðlilegast að leyfa togurunum landhelgina óhindrað með öllu. Að þetta þó ekki er gert, stafar af því, að mönnum er ljóst, hve áríðandi það er að friða landhelgina fyrir öllum botnvörpu- og dragnótaveiðum, sem eru skaðlegar fyrir fiskinn og viðkomu hans. Rannsóknir hafa leitt það í ljós, að dýraríkið er fjölskrúðugast innan landhelginnar, og er þetta fyrst og fremst að rekja til þess, að landhelgin er friðuð fyrir þessum veiðum. Og það lægi enda nær fyrir okkur að gera ráðstafanir til þess að færa landhelgina út en að vera að draga saman seglin í þessum efnum. Hafa og komið fram till. í þessa átt hér á Alþingi og allt verið gert til þess að reyna að opna augun á þeim þjóðum, sem stunda veiðar hér við land, fyrir því, hvílík nauðsyn er á að færa hið friðaða svæði út, til þess að tryggja betur viðkomu fiskjarins og gera þannig þennan atvinnuveg öruggari en hann nú er öllum þeim, sem skip senda á miðin hér í kringum landið. Með þessum ráðstöfunum, sem hér er farið fram á, erum við að spila úr höndum okkar möguleikunnm til þess að geta með tímanum fært út landhelgina og fengið þannig friðað stærra svæði en nú er friðað. Og það er ef til vill þungamiðjan í þessu máli, hvað við liggur, að ekkert sé gert, sem torveldi okkur þá leið að færa landhelgina út. Slíkar till. sem þessar setja þann þröskuld í veg okkar að þessu marki, sem erfitt getur orðið að komast yfir í framtíðinni.

Ég þarf ekki að tala frekar en gert hefir verið um ákvæði frv. um möskvastærðina. Þau eru þýðingarlaus, eins og hv. frsm. minni hl. benti á, enda er reynsla allra, sem við þessar veiðar hafa fengizt, sú, að varpan sópar öllu upp, smáu sem stóru, og liggur tortímingin fyrir því, og ekkert annað. Botnvarpan er svipuð um þetta, þó að hún gangi að vísu ekki eins nærri smáfiskum og seiðum eins og dragnótin, sem kemur til af því, að hún liggur fjær botninum, af því að undir strengnum á henni er trékefli, sem ekki er á dragnótinni, og allt það, sem í dragnótina kemur, er undir sömu Adamssyndina selt: dauðann og tortíminguna.

Ég sný þess vegna ekki aftur með það, sem ég hefi áður sagt, að það er svo fjarri því, að þetta frv. sé eitthvert bjargræðisfrv., að það þvert á móti skerðir bjargræðismöguleika landsmanna í nútíð og framtíð, enda gerði hv. 1. þm. S.-M. fastlega ráð fyrir því, að ekki mundi standa á Dönum inn á miðin eftir að búið væri að gera þessar breyt. á lögunum, og er þetta í samræmi við það, sem áður hefir verið haldið fram í umr. um þetta mál, og út frá þessu bjóst hv. 1. þm. S.-M. jafnframt við því, að ekki mundi á löngu líða áður en grípa þyrfti til þess að færa þetta aftur í svipað horf og nú er. Ég vænti því þess, að hv. þdm. athugi þetta mál rækilega frá öllum hliðum og geri sér ljóst, hvílík hætta getur af því stafað að gera slíkar tilslakanir og gert er ráð fyrir í þessum till., og það verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir mönnum, hver hætta vofir yfir okkur á þessu sviði, ef farið verður að opna landhelgina upp á gátt um þessar veiðar, og þannig kallað bæði á Dani og Færeyinga inn á miðin til þess að draga upp hverja kvika bröndu, sem hægt verður að finna inn á hverjum flóa og vík í kringum landið, því að sú mundi afleiðingin áreiðanlega verða, ef það nær fram að ganga, sem til er stefnt með þessum breytingum.