17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég get ekki að því gert, að mig furðaði dálítið á svörum hæstv. fjmrh. áðan við ræðu minni. Ég sagði það eitt, að einu bjargráðin, sem hann virtist sjá, væru þau, að hækka tolla og að spara. Ég get verið honum sammála um það, að til þess að halda við eða auka verklegar framkvæmdir, miðað við síðustu 3 ár, verði ekki hjá því komizt að hækka einhverja skatta, en það er ekki sama, hvaða skatta á að hækka og hverja ekki að hækka. Sumir þeirra, nauðsynjatollarnir, verða að lækka. Í fjárlfrv. hv. ráðh. sjálfs fyrir árið 1933 er tekju- og eignarskattur samtals áætlaður 850 þús. kr., sem mun vera mjög varlega áætlað. Á síðasta þingi bárum við alþýðuflokksþm. fram frv. um heimild fyrir stj. til þess að hækka þennan skatt meira en um helming, nefnilega tekjuskatt af tekjum yfir vissu hámarki um 100% og eignarskatt um 200%, ef tekjur og eignir væru yfir vissu lágmarki. En það frv. náði ekki samþykki. Ef nú slík ráðstöfun yrði gerð, mundi það auka tekjur ríkissjóðs um 850 þús. upp í 1 millj. kr. samkv. frv. ráðh. sjálfs, en sennilega þó talsvert meira. Það liggur ljóst fyrir, að óhjákvæmilegt er að sjá ríkissjóði fyrir tekjum, en um það er ágreiningurinn, hvort afla skuli þessara tekna á þennan hátt eða hinn. Hæstv. fjmrh. hefir nú í dag lagt fram hér í d. 3 frv., sem öll fara í þá átt að auka og viðhalda gildandi tollum, sem hvíla á almenningi, og hann hefir boðað komu fleiri frv., sem fara í líka átt. Frv. Það, sem hér er til umr., fer fram á að þrefalda bifreiðaskattinn frá því, sem verið hefir. Maður kemst ekki hjá því í þessu máli að athuga það, hvort hækkun þessa skatts muni sneiða hjá þeim, er harðast verða úti í kreppunni, þeim mönnum, sem minnstar eignir eiga og minnstar tekjur hafa, og það verður fljótt ljóst, að þar sem einmitt þessi skattur miðar að því að hækka verð á flutningum öllum og þar með nauðsynjum, þá muni ekki svo vera. Þetta veit ég, að ráðh. sér, ef hann vill, að vandræði fátækustu mannanna eru einmitt aukin með þessu frv.

Ég veit það vel, að mörgum hér í deildinni finnst það fjarstæða á þessum tímum að hækka tekju- og eignarskatt. En ég vil spyrja þessa menn, hvort réttara sé að taka um 300 kr. af fátæku heimili hér í Reykjavík með tollum á nauðsynjum, eða að hækka um helming tekju- og eignarskattinn hjá hátekjumönnum. Hvort er réttara að hækka skatt af 10 þús. kr. skattskyldum tekjum úr 462 kr. upp í 924 kr., eða að halda við og auka 300 kr. nauðsynjatollinn á bláfátækum atvinnulausum fjölskyldumanni? Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, að réttara væri að hækka skattinn, eins og við alþýðuflokksmenn lögðum til á síðasta þingi.

Þá gerði hæstv. fjmrh. sér tíðrætt um flokksbróður minn Stauning og þær ráðstafanir, er hann hefði komið á á þessu sviði í sínu landi. Ég þori ekki að véfengja þær upplýsingar, sem hann gaf um benzínskattinn þar, en það veit ég, að þær ráðstafanir, sem í Danmörku hafa verið gerðar út af kreppunni, eru harla ólíkar eða hér. Kreppan kom þar 11/2 ári fyrr en hér, en það ber öllum saman um, að hún komi yfirleitt hvergi eins vægt niður á alþýðunni og einmitt í Danmörku, og stafar það m. a. mikið af því, að þegar í byrjun var tekin su leið að hækka skatta af hátekjum og verja því fé til þess að veita beinan og óbeinan styrk atvinnuleysingjum. Er t. d. miklu fé varið árlega til húsabygginga í því skyni, til þess að skapa atvinnu og auka kaupgetu manna og á þann hátt draga úr kreppunni. Og jafnvel nú, þegar mest harðnar um, er einmitt ráðizt í stórkostlegar framkvæmdir, eins og þá, að byggja brú yfir Litlabelti, sem áætlað er að muni kosta um 50 millj. kr. Eftir því sem mig minnir, þá er einmitt hæstv. fjmrh. nú nýkominn frá Danmörku og veit þetta allt að sjálfsögðu og getur því tekið Stauning sér til fyrirmyndar, ef hann aðeins hefir vilja og innræti þar til.