17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vildi af ýmsum ástæðum frekar draga úr umr. að þessu sinni, en sé þó ekki fært annað en svara að nokkru hv. síðustu ræðumönnum.

Ég verð að segja, að mér þóttu allnýstárlegar fréttir, sem hv. þm. Seyðf. sagði frá Danmörku um það, að kreppan hefði hvergi komið eins létt við þjóðina eins og þar. Eftir minni kynningu í síðustu utanför og áður kemst ég að allt annari niðurstöðu. Ég vil ekki hér í þingsalnum hafa eftir ummæli Bramsnæs fjmrh. um ástandið í Danmörku, en það má a. m. k. tvímælalaust marka af áliti hans, að ástandið þar er sízt betra en hér. Þetta er að vísu engin huggun, en það getur verið gott svar við skoðun hv. 4. þm. Reykv., að kreppan eigi rót sína að rekja til framsóknarstj. Ég verð að nota hans eigin orð um þá fullyrðing, að hún sé „tæpast nógu viturleg“, eða ef ég vildi orða það frá eigin brjósti, að þá væri hún svona með því aumasta, sem sézt hefir um orsakir kreppunnar. Hv. þm. Seyðf. taldi, að Danir hefðu bjargað öllu með því að hækka tekjuskatt og varið hækkuninni til bygginga. Hann lýsti sig fylgjandi samskonar ráðstöfunum hér. Og ég mundi geta fallizt á, að tekjuskattur yrði eitthvað hækkaður, en ef hann ætlar að fallast á sömu ráðstafanir út af kreppunni hér og flokksbróðir hans í Danmörku gerði, þá mun hann að sjálfsögðu fallast á það frv., sem hér er til umr., því að í Danmörku gildir einmitt samskonar skattur, eins og áður er sagt, og var hækkaður í sumar sem leið í tilefni kreppunnar. Ræða hv. þm. gerir ekki annað en að sanna þá gömlu sögu, að það er annað og léttara að finna að því, sem gert er, svo að láti vel í eyrum, en að bera ábyrgð og verða að finna úrlausnir á vandasömum tímum.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum að þessu sinni um tekjuskatt og slíka hluti; til þess mun verða tækifæri síðar á þessu þingi.

Hv. 4. þm. Reykv. þóttist hryggur yfir vonbrigðum, sem hann kvaðst hafa orðið fyrir um mig persónulega. Hefði hann verið eins hryggur og hann lét, held ég, að hann hefiði ekki haldið þessa ræðu. Hann hefði þá getað sleppt því að hryggja mig með ýmsu af því, er hann sagði.

Hv. þm. gaf Frökkum vottorð um góða fjármálastjórn. Þó hefir komið fram tekjuhalli á ríkisbúskapnum þar, og honum hefir orðið að mæta með niðurskurði á framkvæmdum og auknum álögum, eins og annarsstaðar. Í því efni eru Frakkar engin undantekning. Í sumu öðru hafa þeir nokkra sérstöðu, svo sem að því er snertir bankamál og þjóðarauð, en út í það ætla ég ekki að fara frekar. Ég sagði, að í fjárhagskreppu, eins og þeirri, er nú þjakar heiminn, væri óhjákvæmilegt fyrir ríkin að draga úr framkvæmdum og afla aukinna tekna, ég talaði um það hvorttveggja. Á meðan öldugangur er í lífi og fjármálum þjóðanna, kemur hann einnig fram í starfsemi ríkjanna. Ríkisvaldið á að draga úr honum eftir mætti, en það getur ekki snúið honum við, eins og hv. þm. virtist ætlast til.

Ég ætla ekki að mótmæla kenningu hv. þm. um, að það eigi að vera til í sjóði afgangur frá góðu árunum, þegar kreppur og erfiðleikar bera að höndum. Hv. þm. er fulltrúi fyrir stórt og virðulegt kjördæmi, höfuðstað landsins. Þar ræður hans flokkur öllu. Þar er því væntanlega stjórnað svo rækilega eftir hinni gullvægu reglu hv. þm., að ástandið hjá Reykjavíkurbæ hlýtur að vera gerólíkt ástandinu hjá ríkinu. Þar halda náttúrlega allar framkvæmdir áfram eða aukast hratt fyrir kreppuna, og útsvörin standa í stað eða jafnvel lækka. Ef svo undarlega skyldi vilja til, að þetta sé á hinn veginn, og ef samræmi skyldi nú finnast í því, hvernig ríkið og höfuðstaðurinn mætir kreppunni, þá virðast flokksbræður hv. þm. ekki hafa kunnað að meta kenningar hans.

Ég skal nú sleppa almennum umr. og hverfa aftur að þeim skatti, sem hér er um að ræða. Hv. þm. var mjög hissa á því, að ég sagði, að bifreiðaskatturinn og viðhaldsfé veganna hefði í framkvæmdinni runnið saman. Taldi hann þetta einn vott um ranglæti stj. En þessi skattur var lagður á 1921, og eftir því sem vegamálastjóri hefir sagt mér, hefir alltaf verið fylgt sömu venju urn þetta. Skatturinn hefir ásamt viðhaldsfénu gengið til að gera einhverskonar slitlag á vegina. Mér skildist hv. þm. geta mælt með þessum skatti, ef hann væri notaður til þess að gera vegina betri. Ég sé ekki betur en að allt viðhald vega miði að því að gera þá betri. Það sæist bezt, ef viðhaldinu væri sleppt. Hv. þm. hefir ef til vill átt við, að hann vildi láta verja þessu fé til að leggja vegi úr steinsteypu eða öðru mjög dýru efni. Ef svo er, þá stöndum við mjög á öndverðum meið í þessu efni. Ég er sannfærður um, að við megum ekki eyða tugum þúsunda í örstuttan vegspotta, meðan hægt er að gera tugi km. bílfæra fyrir sama fé annarsstaðar. Við verðum að skilja, að viðhorfið er annað hér heldur en í útlöndum, þar sem í samgöngumálunum er komið margfalt lengra áleiðis en hér og þess vegna hægt að verja miklu af vegafénu til varanlegra vega. Um það verður ekki deilt, að bifreiðaskatturinn eykur þróun vegakerfisins í landinu, og enginn dregur í efa þörfina á því. Hv. þm. á sæti í þeiri n., sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, og get ég því látið frekari umr. um það við hann bíða þangað til þar.