10.05.1932
Efri deild: 71. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (3211)

636. mál, strandferðir

Flm. (Jón Þorláksson):

Ég finn enga ástæðu til að lengja umr. um þessa till. Það er ekki mikið, sem á milli ber hjá okkur hv. 3. landsk. Hann viðurkennir, að það sé nauðsynlegt að leita að skipulagsbreytingu, sem getur fært niður þennan gífurlega strandferðakostnað. Ég hefi mína skoðun á því, hver leið sé tiltækilegust. Hann er ekki við því búinn að mynda sér skoðun fyrir sitt leyti, og hann hefir þá afsökun, að hann hefir lítið starfað að því að kynna sér þetta mál, eins og hann gat um í upphafi ræðu sinnar.

Út af því, sem hann sagði, var það eitt atriði, sem ég vildi gera frekari grein fyrir, og það var viðvíkjandi útgerðarkostnaðinum. Skipaútgerð ríkisins hefir ýms önnur störf með höndum en að afgreiða þessi strandferðaskip, en öllum þeim fyrirtækjum er reiknað gjald fyrir útgerðarstjórn, bæði strandgæzluskipunum og þeim einkafélögum, sem skipaútgerðin hefir nú útgerðarstjórn fyrir, og svo vitabátnum.

Sá helzti kostnaður af skipaútgerð ríkisins er færður þessum fyrirtækjum til útgjalda, og er auðvitað ekki meðal þeirra upphæða, sem taldar eru í grg. till. sem kostnaður við útgerðarstjórn strandferðaskipanna, svo hvað sem verður um strandferðaskipin, þá eru eftir upphæðir fyrir útgerðarstjórn hinna fyrirtækjanna, sem vitanlega nægir fullkomlega áfram til að stjórna þeim fyrirtækjum, hvernig sem stjórn þeirra yrði hagað. En ég ætla ekki að fara út í það hér, en vil þó aðeins minnast á það, að 15 þús. kr. fyrir útgerðarstjórn varðskipanna er sjálfu sér nokkuð rífleg borgun af hálfu landhelgigæzlunnar, því útgerðarstjórn þeirra skipa, sem ekki hafa nein teljandi viðskipti, er náttúrlega tiltölulega lítið verk samanborið við útgerðarstjórn þeirra skipa, sem reka vöruflutninga og farþegaflutninga fyrir borgun. En hitt, hvort útgerðarstjórn strandbátanna er dýr eða ódýr með þessari tilhögun, það er um það eins og svo margt annað, að það má deila um það; mismunurinn verður þó alltaf tiltölulega smár samanborið við halla ríkissjóðs af strandferðunum í heild, og ég tel það ekki ómaksins vert að fara inn á það frekar en aðra einstaka útgjaldaliði, því ég sé, að þeirri niðurstöðu, sem þarf að ná með stórkostlegum niðurfærslum á þessum útgjöldum, verður ekki náð með neinum sérstökum ráðstöfunum viðvíkjandi einstökum kostnaðarliðum, heldur með algerðri skipulagsbreytingu að því er siglingarnar snertir.