29.02.1932
Efri deild: 15. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. Snæf. álítur óþarft að skipa þessa mþn. og telur, að hún muni verða svo dýr. Að því leyti er ég óánægður með andúð hans gegn till. En ég er ánægður að heyra þennan hv. þm. segja, að hann telji stj. færari til þess að tilnefna hæfa menn til að vinna að þessum málum en þær stofnanir, sem till. nefnir. Tek ég þetta sem traust á stj. og er honum þakklátur fyrir.

En þó að ég vantreysti ekki stj., þá býst ég samt við, að þegar þær stofnanir, sem hlut eiga að máli, útnefna mennina, sé betur fyrir því séð, að leyst verði úr þessum málum svo að við megi una, í stað þess að stj. hafi allan veg og vanda af því. Við samningu till. þótti því liggja beinast við að benda á Samband ísl. samvinnufélaga f. h. landbúnaðarins og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda fyrir sjávarútveginn. Með þessu vildi ég tryggja, að betri menn veldust í n. en ef stj. veldi þá.

Hinsvegar hygg ég, að hv. þm. Snæf. geri of mikið úr því, hvað n. muni kosta, og þó að því ráði verði horfið, að stj. útnefni mennina, þá verður ekki hjá því komizt að borga þeim fyrir starfið. En að n. verði miklu dýrari með því að þessar stofnanir tilnefni mennina, fæ ég ekki skilið.

En hvað sem þessu líður, vil ég undir öllum kringumstæðum, að komi fram ákveðinn vilji um, að meira sé gert fyrir þessi mál en áður, og fyrsta sporið til þess er, að hv. deild kjósi iðnaðarmálan. nú þegar, sem athugar till. þessa og önnur skyld mál.

Hv. þm. Snæf. sagði, að iðnráðið væri á móti þessari till. Ég veit ekki til, að frá því hafi borizt óskir til Alþingis um að fella þessa till., en hitt veit ég, að einn maður í iðnráðinu er á móti þessu, og getur vel verið, að það sé vegna þess, að stj. hefir ekki leitað til hans.

Mér er kunnugt um, að margir iðnaðarmenn eru með þessu, enda er till. fram borin af mér eftir ósk stjórnar stærsta iðnaðarfélagsins hér. Annars ítreka ég þá ósk mína, að umr. sé frestað og málinu vísað til sérstakrar nefndar.